| 
           
        Flestir 
                    Alsíringar búa í norðurhluta landsins, í Tell, sem er ríkari 
                    og vatnsmeiri hluti þess.  Hinn hluti landsins, Sahara, 
                    er óbyggð eyðimörk séu nokkrar vinjar undanskildar.  Á 
                    Saharasvæðinu er mikið af auðæfum í jörðu, einkum olía og 
                    gas.  Hvor landshluti fyrir sig er afleiðing mismunandi 
                    jarðfræðilegrar þróunar.  Meginlínur landsins mynduðust 
                    vegna árekstrar jarðskorpufleka Afríku og Evrasíu.  Við 
                    áreksturinn mynduðust umturnaðir fjallshryggir 
                    norðurhlutans.  Þar er fyrst að nefna Atlasfjöllin, sem 
                    er tveir samhliða fjallshryggir frá austri til vesturs og á 
                    milli þeirra er háslétta.  Frá 
        norðri til suðurs skiptist landið í fimm svæði með austur-vestur stefnu.  
        Hið nyrzta er fellingafjöll strandlengjunnar við 
          Miðjarðarhafið.  Næst 
          kemur sléttan sunnan þessara fjalla.  Þriðja svæðið er 
          Tell-Atlasfjöllin.  Hið fjórða er Háslétturnar og hið fimmta er 
          Sahara-Atlasfjöllin. 
           
          Strandfjallgarðarnir eru ögrum skornir og víða eru sléttur á milli 
        þeirra, s.s. Oran og Annaba, sem teygjast inn í landið.  Tell-Atlasfjöllin 
        eru líka aðskilin sléttum.  Vesturhluti þeirra myndar tvo aðgreinda 
        fjallgarða með sléttum eins og Maghnia-sléttunni á milli (aðskilur 
        Tlemcen-fjöll í suðri frá Trarafjöllum í norðvestri).  Svipaða sögu er 
        að segja af sléttunum Sidi Bel Abbes og Mascara, sem eru milli 
        hæðahryggjanna í norðri og suðri.  Dahrafjöllin mynda langan fjallgarð 
        frá ósum árinnar Chelif í vestri og Chenouafjalli í austri.  Milli þess 
        og Ouarsenis-fjalla í suðri eru sléttur Chelifdalsins. 
           
          Landslagið veldur 
        ekki erfiðleikum í samgöngum í Vestur-Tell en í Mið-Tell er aðra sögu að 
        segja, því þar tengjast Blida Atlasfjöllin Titterifjöllum og 
        fjallabálkur Stóru-Kabylie tengist Biban- og Hodnafjöllum og gera 
        samgöngur milli norðurs og suðurs erfiðar.  Wadi Soummam-dalurinn er 
        eina samgönguleiðin til hafnarborgarinnar Bejaïa. 
           
          Austar, milli 
        Bejaïa og Annaba, er hver fjallgarðurinn á fætur öðrum, sem skilja 
        sléttur Constantine frá sjó.  Hodna-, Aurès- og Nemenchafjöll drottna 
        yfir landslaginu sunnan sléttnanna.  Þær hafa löngum verið nýttar til 
        kornræktar og hafa sín eigin sérkenni, ólík hásléttum Algero-Orania, sem 
        teygjast til vesturs frá Hodnafjöllum inn í Marokkó.  Hin síðarnefnda er 
        þakin söltum, uppþornuðum vatnsbotnum og mun óhagstæðari til ræktunar 
        vegna lítillar úrkomu. 
           
          Sunnan 
        Algero-Orania hásléttnanna og Constantine sléttnanna er annar 
        fjallabálkur, Sahara-Atlas, sem er keðja fjölda fjallgarða með 
        suðvestur-norðausturstefnu.  Sahara-Atlasfjöllin lækka frá vestri, þar 
        sem Aïssafjall rís hæst (2235m) í Ksourfjöllum, til lægri tinda Amour- 
        og Qulad Naïl-fjalla í austri.  Í Aurêsfjöllum eru hærri tindar, s.s. 
        Chelia (2311m), sem er hæsti tindur Norður-Alsír. 
           
          Alsírísku-Sahara 
        má skipta í grófum dráttum í tvær stórar lægðir í mismunandi hæð yfir 
        sjó.  Á milli þeirra er þröskuldur með norður-suður stefnu, M’zab.  
        Hvort svæði fyrir sig er þakið þykkum sandöldum, erg.  Austur-Erg, sem 
        er í 310-610 m hæð yfir sjó, og Vestur-Erg hallar til norðurs frá rótum 
        Ahaggarfjalla niður fyrir sjávarmál á nokkrum stöðum sunnan Aurêsfjalla.  
        Ahaggarfjöll í Suður-Sahara rísa hæst í Tahat-tindi (2902m). 
           
          Jarðskjálftavirkni í einhverjum mæli verður aðallega vart í fjallgörðum 
        Norðru-Tell á flekamótunum.  Öflugir jarðskjálftar hafa tvisvar lagt 
        borgina Chlef (El-Asnam) í rústir, 1965 og 1980.  Árið 1989 olli 
        jarðskjálfti miklu tjóni á svæðinu milli Chenouafjalla og Algeirsborgar. 
           
           
        Vatnakerfi.  
        Flestar ár Tell-Atlasfjalla eru stuttar og mjög misvatnsmiklar.  Stærsta 
        áin er Chelif, sem á upptök á Hásléttunni.  Hún rennur í gegnum Tell-Atlasfjöllin 
        og um dal með austur-vestur stefnu til sjávar austan Mostaganem.  Áin er 
        nýtt svo mikið til áveitna og drykkjarvatns, að hún þornar upp á neðri 
        svæðum á sumrin.  Sunnan Tell-Atlasfjalla eru aðeins árstíðabundnar ár (wadi) 
        og mikið afrennslisvatn endar í saltlægðunum.  Nokkrir farvegir á 
        Saharasvæðinu, einkum þeir, sem koma niður af Ahaggar hálendinu, 
        mynduðust á votviðristímum ísaldar fyrir 1.600.000-10.000 árum.  Nokkrar 
        ár (wadi), sem falla til suðurs, bæta við grunnvatnið undir Sahara, sem 
        kemur upp á yfirborðið, þar sem eru vinjar. 
           
          
        Jarðvegur 
        landsins er mjög mismunandi vegna landslags og jarðfræði.  Vegna þess, 
        hve miklum, upprunalegum gróðri hefur verið rutt brott og 
        jarðvegseyðingar, er frjósöm svæði með brúnni mold aðeins að finna á 
        heiðum, þar sem sígrænar eikur vaxa enn þá.  Hinn rauði jarðvegur 
        landanna við Miðjarðarhafið er í norðurlághlíðum Tell en sunnar, á 
        þurrari svæðum, er jarðvegur, sem hefur ekki efnaveðrast eða safnað 
        lífrænum efnum.  Á eyðimerkursvæðum er jarðvegsmyndun útilokuð vegna 
        stöðugrar vindveðrunar.  Samkvæmt metnaðarfullri áætlun frá áttunda 
        áratugi 20. aldar átti að mynda grænt sandvarnarbelti meðfram Sahara.  
        Unnið hefur verið að gróðursetningu á tæplega 1700 km löngu og 19 km 
        breiðu belti alla tíð síðan. 
           
           
        Loftslag.  Loftslagið hefur meiri áhrif en 
        landslagið í landinu.  Úrkomumagnið og dreifing þess milli árstíða auk 
        styrkleika „sirocco”, hins þurra, árstíðabundna vinds frá Sahara, ráða 
        að mestu hvernig til tekst með uppskeru og önnur mannanna verk víða um 
        land. 
           
          Með ströndum fram 
        ríkir dæmigert Miðjarðarhafsloftslag með heitum og þurrum sumrum og 
        mildum og votum vetrum.  Í Algeirsborg er síðdegishitinn í júlí 28°C en 
        næturhitinn 21°C en í janúar er sambærileg hitastig 15°C og 9°C.  Milli 
        október og marz falla 80% úrkomunnar (760mm) og júlí og ágúst er 
        yfirleitt úrkomulausir.  Árlegt úrkomumagn eykst meðfram ströndinni frá 
        vestri til austurs en minnkar snarlega, er innar dregur í landið.  Mesta 
        úrkoman er í fjallendinu austast á ströndinni.  Á svæði, 80 km vestan 
        Algeirsborgar að landamærum Túnis, er meðalúrkoman í kringum 770 mm á 
        ári og sums staðar (Stóra-Kabylie-, Litla-Kabylie- og Edough-svæðin) nær 
        hún rúmlega 1000 mm.  Vestan þessara svæða fá hlutar Chelif-sléttunar, 
        strandsléttunnar og svæðanna sunnan hennar aðeins 570 mm á ári.  Handan 
        Atlasfjalla í suðri dregur mjög úr úrkomunni nema í Aurêsfjöllum og 
        hluta Amourfjalla, þar sem hún nemur u.þ.b. 350 mm. 
           
          Fjallgarðarnir 
        meðfram ströndinni hindra að loftslag Miðjarðarhafsins teygist sunnar.  
        Sléttur og hæðir beint sunnan strandfjallanna fá nægilega úrkomu en þar 
        er mun þurrviðrasamara og meiri hitasveiflur.  Hásléttan einkennist af 
        miklum hita á daginn, heitum sumrum og köldum vetrum og ónógri úrkomu.  
        Algengur síðdegishiti á sumrin er 38°C og 10°C á nóttunni.  Á veturna 
        eru sambærileg hitastig 16°C og -2°C.  Meðalársúrkoman er á milli 100 og 
        400 mm. 
           
          Við suðurmörk 
        Sahara-Atlasfjalla byrjar hin raunverulega eyðimörk.  Þar eru skýr mörk 
        innan við 100 mm úrkomu á ári.  Landslag og gróðurfar er mjög frábrugðið 
        norðurhlutanum.  Búseta og athafnalíf eru takmörkuð við örfáa staði.  
        Daglegt og árlegt hitafar er mun sveiflukenndara en á Hásléttunni og 
        úrkoman mun óreglulegri en í norðurhlutanum.  Stundum líða þrjú ár án 
        úrkomu á Tademaït-svæðinu og fimm ár á Ahaggar-sléttunni.  |