| 
           
        
        Hlutar Angóla voru þaktir þéttum regnskógum, einkum í 
        norðanverðum Cabinda-útkjálkanum, með vestanverðum jaðri 
        Malanje-hálenisins, norðvesturhorn Bié-hásléttunnar og meðfram nokkrum 
        ám í norðausturhlutanum.  Stórir hlutar þessara skógasvæða hafa verið 
        ruddir til landbúnaðar og eytt með skógarhöggi.  Steppugróður er 
        ríkjandi, allt frá skógablettum í norðri til þyrnirunna í suðri.  
        Steppueldar geisa oft (náttúrulegir eða af manna völdum), þannig að 
        trjátegundirnar eru flestar óeldfimar.  Namib, suðvestast í landinu, er 
        eina alvörueyðimörkin.  Hún teygist norður úr Namibíu og hýsir einstæða 
        plöntu, tumboa (Weltwitschia mirabilis), með langri stofnrót og tveimur 
        breiðum og sléttum blöðum, sem liggja á jörðinni og verða allt að 3 m 
        löng. 
           
          Dýralífið er einkennandi fyrir steppur Afríku.  Meðal 
        kjötætna eru hlébarðar, ljón og hýenur og helztu grasbítarnir eru fílar, 
        flóðhestar, gíraffar, sebrahestar, vísundar, gnýir og fjöldi tegunda 
        antilópna og apa.  Mikill fjöldi fugla- og skriðdýrategunda hefst við í 
        landinu, m.a. krókódílar.  Skordýraflóran er stór (moskító og tse-tse).  
        Í landinu eru 13 þjóðgarðar og friðlönd en fátt er gert til að hindra 
        veiðiþjófnað vegna borgarastyrjaldar.  Hin stóra sverðantilópa (Hippotragus 
        niger variani) í suðurhlutanum er sérstaklega í hættu.  Aðrar tegundir í 
        útrýmingarhættu eru górillur og simpansar í Maiombe-skóginum, svarti 
        nashyrningurinn og angólski gíraffinn.  Sjávardýralíf er sérstaklega 
        fjölskrúðugt í suðurhlutanum vegna hinna hagstæðu áhrifa kalda 
        Benguela-straumsins og þar eru einnig margar tegundir fiska, sem hafast 
        við í tempruðum sjávarhita við ströndina.  |