| 
           
                    Alexandría
        er við sjávarmál.  Íbúafjöldinn
        er u.þ.b. 2,5 milljónir.  Hin
        fornfræga Alexandría er önnur stærsta borg Egyptalands og mikilvægasta
        hafnarborg landsins.  Hún
        er vestast í óshólmum Nílar á sandrifi, sem skilur að Mareotishaf
        og Miðjarðarhaf.  Hún er
        vestræn að yfirbragði en þó býður gamli kjarninn upp á austrænan
        svip og líf.  Í og
        umhverf-is borgina er miðstöð baðmullarverzlunar og iðnaðar. 
        Fjölda spuna- og vefnaðarverksmiðja er þar að finna. Mikill
        matvælaiðnaður, sígarettuverksmiðjur, sútun og olíuhreinsun. 
        Vegna mikilvægis síns sem miðstöð baðmullarverzlunar og iðnaðar,
        bjó földi útlendinga í Alexandríu. 
        Nú eru u.þ.b. 4% íbúanna útlendingar, flestir Grikkir og Ítalar. 
        Í borginni situr patríarki rétttrúnaðarkirkjunnar, yfirmaður
        koptísku kirkjunnar býr í Kaíró. 
           
          Alexander
        mikli stofnaði borgina árið 331 f.Kr., þegar hann ætlaði að
        innlima Egyptaland í hið gríska heimsveldi. 
        Alexander lét arkitektinn Deinokrates sjá um legu og
        uppbyggingu borgarinnar.  Staðgengill
        og síðar eftirmaður Alexanders, Ptolemaios I. Soter (322-285) gerði
        Alexandríu að miðstöð lista- og lærdómsmanna. 
        Við hirð hans dvöldu ræðusnillingurinn Demetrios Phalereus,
        sem stóð fyrir stofnun hins fræga bókasafns, málararnir Apelles og
        Antiphilos, stærðfræðingurinn Euklid, læknarnir Erasistratos og
        Herophilos.  Ptolemaios lét
        reisa safn til eflingar vísindum og skáldskap í bundnu máli, þar
        sem vísindamenn og skáld bjuggu og stunduðu iðju sína. 
           
          Deilur
        Ptolomea um erfðarétt til krúnunnar breyttu ekki þróun borgarinnar
        í þá átt að verða mesta verzlunarborg heims. 
        Hún hafði lifað blómaskeið sitt árið 48 f.Kr., þegar Rómverjar
        blönduðu sér í deilur Kleopötru og bróður hennar og eiginmanns
        hennar.  Ptolemaios XIV.  Eftir morð Pompejusar í Pelusium hélt Sesar glæsilega
        innreið í Alexandríu.  Borgararnir
        og herir Ptolemaios réðust á hann og héldu honum og liði hans innan
        múra konungsborgarinnar.  Kleopatra
        heillaði ekki einungis Sesar upp úr skónum, heldur líka Antóníus,
        sem lifði hér í munaði og óhófi árin 42-30 f.Kr. 
        Kleopatra var líklega grísk. 
        Ágústus stækkaði borgina um úthverfið Nikopolis. 
        Þegar bezt lét, voru íbúarnir nærri hálfri milljón. 
        Grísk áhrif voru ríkjandi, því næst hin egypzku en í
        borginni var líka hverfi gyðinga frá dögum Ptolomaiusar I. 
        Árið 69 e.Kr. lýstu íbúarnir Vespasian keisara. 
           
          Heimspekingar
        safnsins höfðu unnið mjög að viðurkenningu hans.  Á valdatíma Trajans (98-117) ollu gyðingar, sem voru þriðjungur
        íbúanna, blóðugum óeirðum.  Hadrían
        /117-138) heimsótti Alexandríu árið 130 og efndi sjálfur til
        opinberra rökræðna í safninu.  Markús
        Árelíus hlýddi líka á fyrirlestra hinna lærðu en þar stóðu í
        fararbroddi málfræðingarnir Aþenaios, Harpokration, Hephaistion og Júlíus
        Pollux.  Leikritaskáldið
        Lukian, ritari egypzka landstjórans, bjó þá í borginni. 
        Septmus Servus (193-211) kom til Alexandríu árið 199 og færði
        borgurunum stjórnarskrá.  Heimsókn
        Caracalla (211-217) dró dilk á eftir sér. 
        Borgarbúar móðguðu hann og kostaði það blóðbað og lokun
        akademíunnar.  Verstu tímar
        borgarinnar voru, þegar palmýrar og keisararnir börðust. 
        Þá féll stór hluti borgarbúa fyrir sverðum, hungri og plágum. 
           
          Kristnin
        festi snemma rætur.  Fyrstur
        trúboða var guðspjallamaðurinn Markús. 
        Líkamsleifar hans voru fluttar til Feneyja árið 868. 
        Fyrstu ofsóknir gegn kristnum mönnum á valdatíma Deciusar
        (250) komu hart niður á Alexandríu, sem hafði lengi verið
        biskupssetur.  Árið 257,
        þegar Valeríus var við völd, voru kristnir ofsóttir í annað sinni
        og skömmu síðar, á valdatíma Gallineusar, kom pestin illa niður á
        borgarbúum.  Samt hélt
        Alexandría velli sem aðalmiðstöð kristninnar, þar til Konstantínópel
        tók við því hlutverki.  Þriðja
        alda ofsókna gegn kristnum reið yfir á dögum Júlíanusar Apostata
        (361-363).  Á valdadögum
        Theodosiusar (379-395) fékk heiðnin náðarhöggið. 
        Óteljandi og ómetanlegir munir og byggingar frá heiðnum sið
        týndust í kjölfarið.  Hnignunarskeið
        fylgdi, einkum þegar gyðingum var vísað úr borginni. 
        Hin fagra, heiðna og lærða Hypatía barðist gegn öfgum
        kristinna og var grýtt í hel árið 415 af skrílnum. 
           
          Á
        dögum Justianians (527-565) lagði Krösus II, Persakonungur, Alexandríu
        undir sig en kristnir voru látnir óáreittir. 
        Árið 626 rak Heraklíus Persa á brott. 
        Því næst komu herir Ómars kalífa í nafni islams og Alexandría
        féll árið 642 eftir langt umsátur.   
         
        Herforingi
        Ómars, Amr Ibn el-As, þyrmdi henni. 
        Mikilvægi borgarinnar þvarr því meir sem stjórnsýslan
        fluttist til Kaíró.  Uppgötvun
        Ameríku og sjóleiðarinnar til Indlands lamaði endanlega öll viðskipti. 
        Muhammed Ali kom aftur fótunum undir borgina um 1800, þegar íbúafjöldinn
        var aðeins 5000.  Hann bætti
        hafnirnar og lét grafa skurði og lagði þar með grundvöllinn að næststærstu
        borg Egyptalands.  |