| 
           
        
           Rústir
        fornegypzku borgarinnar Dendera, sem hét Tentyris á grísku og Tentore á koptísku, standa í svipaðri hæð og Kena á
        vesturbakkanum við bugðu á ánni og sjást víða að. 
        Dendera telst til merkilegustu, elztu og frægustu borga
        Egyptalands og var eitt sinn höfuðborg 6. héraðs Efra-Egyptalands. 
        Dendera var einnig aðalmiðstöð dýrkunar Hathor, gyðju ástar
        og sælu, sem samsvaraði Afrodite Grikkja. 
           
          
          
        **Hofið,
        sem byggt var á fyrstu
        öld f.Kr. og var helgað Hathor, manni hennar með fálkahöfuðið,
        Horus frá Edfu, og syni þeirra Ihi (eða Harsomtus), guði tónlistar,
        er eitthvert beztvarðveitta hof landsins. 
        Aðalhátíðahöld tengd dýrkun Hathor voru um áramót. 
        Umhverfis hofið og fleiri byggingar er múr, 10-12 m þykkur,
        allt að 10 m hár, 290 m langur og 280 m breiður. 
        Hið mikilfenglega hlið er frá dögum Domitians keisara (1.öld
        e.Kr.), sem stendur innan þess ásamt keisurunum Nerva og Trajanus. 
        Framan við hliðið, báðum megin, eru síðrómanskir brunnar. 
        Annað líkt hlið er á austurhliðinni og hið þriðja, einnig
        frá keisaratímanum, er enn þá austar, utan hofssvæðisins. 
           
          Hofið var byggt undir stjórn síðustu Ptolemeanna og Ágústusar
        keisara á rústum eldri helgidóma frá dögum 6. höfðingjaættarinnar
        (gamla ríkið), hinnar 12. og faraóa nýja ríkisins, s.s. Tútamosar,
        Ramses II og III.  Lágmyndirnar
        voru gerðar síðar.  Forgarðurinn
        með súlnagöngunum og súlur við norðurhlið eru ófullgerðar. 
        Hathoshofið stendur hinum fornu helgidómum í Abydos og Karnak
        að baki en skipar veglegan sess, m.a. fyrir jafnvægi í hlutföllum
        bygginganna og veggjaskraut í formi mynda og áletrana, sem jafna má
        við meistaraverk gamla ríkisins eða frá tíma Tútmosar III og
        Sethosar I. 
           
          
        
        Hið
        fyrsta, sem ber fyrir augu, þegar komið er inn fyrir rómverska hliðið,
        er hof Ihi, sonar Hathor og Horosar (Egyptar nefna það Mammisi), frá
        rómverskum tíma, koptísk kirkja frá lokum 5. aldar og minni Ihihof. 
          Mynd:  Hatorshofið.  |