| 
           
                    
                     Giza
        er á vinstri bakka Nílar og samnefnd úthverfi í Kaíró. 
        Pýramídastrætið 'Saria el-Haram' með háhýsum sínum liggur
        í suðvestur að norðausturjaðri Lýbísku eyðimerkurinnar, þar sem
        hinir stórkostlegu pýramídar standa á sléttum kalkbrúnum hennar. 
        Þar eru sex hvirfingar pýramída á 40 km kafla. 
           
                    Fjórða
        höfðingjaættin lét reisa pýramídana á árunum 2750-2550 f.Kr. 
        Þeir eru meðal elztu mannvirkja, sem enn þá standa, í
        heiminum.  Grikkir og Rómverjar
        töldu þá meðal sjö undra veraldar og enn þá er dáðst að tækniafrekinu
        við byggingu þeirra og valdi faraóanna, sem höfðu tugþúsundir þræla
        og þegna í vinnu við gerð þeirra. 
        Ekki er ljóst, hvort stærð þeirra er í hlutfalli við völd
        hvers faraóanna, sem létu reisa sér svona vegleg grafhýsi. 
        Líklega hafa fjárráð, völd og smekkur hvers og eins ráðið
        mestu um stærðina.  Ekki
        hefur verið hægt að staðfesta að lengd valdatíma hafi ráðið þar
        um. 
           
          Pýramídarnir
        eru byggðir úr kalksteini frá vesturhluta Nílardalsins, lagðir með
        fínslípuðum, hvítum kalksteini eða graníti. 
        Yngri pýramídarnir eru plássminni að innan en hinir eldri.  Inni í þeim eru grafhýsi, dýrkunarklefi (hinn látni var
        í guðatölu) og klefar fyrir dýrgripi, sem grafnir voru með faraóunum. 
        Allir þessir klefar voru neðanjarðar í eldri pýramídunum og
        allir inngangar eru úr norðri.  Helgidómur
        hvers þeirra er í austurhlutunum.  Súlnagöng (fyrst opin, síðar lokuð) tengdu dalhof niðri
        í dalnum við pýramídana. 
           
          
          
        **Keopspýramídinn 
        
        er
        hinn stærsti.  Keops (Kúfu)
        lét reisa hann og Fornegyptar nefndu hann 'Echet Chufu', sjóndeildarhring
        Kúfus.  Samkvæmt Heródusi II (124-125) unnu við hann 100.000 manna
        vaktir allt árið, hver í þrjá mánuði í senn. 
        Rúmmál Keopspýramídans er 2,3 millj. m³ (2,5 í upphafi). 
        Í honum eru 2,3 milljónir steina sem vega 2,5 tonn hver. 
        Hver hlið er 225,7 m (var 230,38 m) löng, hæðin er 137,2 m
        (var 146,5 m) og hornið á lóðlínu 52°51'. 
        Það er hættulegt að príla upp á pýramídann og reyndar
        bannað með lögum, því að steinarnir eru hærri en 1 m og bratt
        upp.  Það telst til
        undantekninga, að til þess séu gefin leyfi, og þá aðeins í fylgd
        leiðsögumanns.  Útsýni
        af efri palli er tignarlegt yfir svingsinn, hina pýramídana og grænt
        akurlendi Nílardalsins og Kaíró. 
           
          
        
        Hægt
        er að skoða Keopspýramídann að innan en það er mjög erfitt, því
        að skortur er á fersku lofti auk þess sem það er ekki erfiðisins
        virði.  Inngangurinn er um
        göng, sem grafarræningjar gerðu að norðanverðu, gegnum þröng stoðagöng
        inn í sal (8,5 m háan, 47 m langan og 1-2,5 m breiðan), sem gefur til
        kynna góða þekkingu á byggingarlist.  Því
        næst er komið inn í grafhýsið (5,75 m hátt, 10,5 m langt og 5,25 m
        breitt), þar sem aðeins stendur tóm opin granítkista. 
        Múmían hefur aldrei fundizt. 
           
          Austan
        Keopspýramídans er þrír drottningapýramídar, m.a. fyrir eina dóttur
        faraós auk grafreita annarra skyldmenna Keops. 
        Að sunnanverðu hvíla æðstu virðingarmenn ríkisins.  Við suður- og austurhlið Keopspýramídans fór fram
        fornleifauppgröftur árið 1954.  Þar
        komu í ljós fimm langar grafir, þar sem sólarskipið fannst í 1000
        hlutum.  Það er nú í nýja
        safninu í Kaíró. 
           
          Vestan
        Keopspýramídans eru konungagrafirnar, þar sem hirðmenn og embættismenn
        4.-6. höfðingjaættanna hvíldu. 
           
          
          
        **Kafrapýramídinn,
        sem Fornegyptar kölluðu
        Uer-Chefre (Kafra er mikill), er 160 m frá suðvesturhorni Keopspýramídans.
        Kafrap. stendur hærra og virðist því hærri. 
        Hann er 136,5 m hár (var 143,5 m), hliðar eru 210,5 m langar
        (voru 215,25 m) og horn á lóðlínu 52°20'. 
        Rúmmál hans er 1,65 milljónir m³ (var 1,86).  Efst uppi hefur hin gamla klæðning haldið sér, eins og
        greinilega sést. 
           
          
          
        **Svingsinn,
        sem höggvinn var úr
        kalkklöppinni á staðnum í líki ljónsskrokks með höfuð faraós
        (e.t.v. Kafra), er beint norðvestur af dalhofi Kafrapýramídans. 
        Hann er annað merkasta undur Egyptalands.  Veðrun hefur eyðilegt svingsinn verulega en stöðugt er
        unnið að viðgerðum.  Lengd
        hans er 73,5 m og hæðin 20 m. 
           
          
          
        Mykerinospýramídinn,
        62 m hár, hliðar 108 m
        langar og horn 51°, er 200 m suðvestan Kafrapýramídans. 
        Þrír minni pýramídar syðst fyrir ættingja faraós voru
        aldrei fullbyggðir. 
           
          Árið
        1990 fundust fyrir tilviljun a.m.k. 150 grafhýsi verkamanna, sem unnu
        við gerð pýramídanna.  Þeir
        fengu greinilega leyfi til að byggja þau yfir sig og sína. 
        Ýmsar minjar (styttur o.fl.) hafa fundizt þar. 
           
                    Pýramídarnir
        í Giza eru flóðlýstir á kvöldin. 
        Suðvestan svingsins eru ljósa- og tónaflóðslýsingar á kvöldin. 
        Lítið eitt austan svingsins, i Keops papírussýningarhöllinni,
        er sýnd gerð papírus, sem er seldur þar, annaðhvort málaður eða
        auður. 
           
          Stöðugt
        er unnið að uppgreftri og æ fleiri grafir eru uppgötvaðar.  |