| 
           
                    
                     Kaíró er í 20 m hæð
        yfir sjávarmáli.  Íbúafjöldinn
        er 8 milljónir í borginni sjálfri en nálægt 16 milljónum í Stór-Kaíró. 
        Höfuðborg landsins heitir El-Kahira eða Misr el-Kahira á arabísku. 
        Hún er stærsta borg meginlands Afríku og er nefnd 'Hlið
        Austurlanda' milli hins kristna heims og hins islamska. 
        Miðja borgarinnar er á hægri bakka Nílar, 20 km sunnan kvíslasvæðis
        óshólmanna, þar sem áin kvíslast í Damiettu og Rosettu. 
           
        Austan
        Kaíró rísa rauðleitar auðnir Mokatfjalla og handan þeirra er Arabíska
        eyðimörkin.  Til suðurs nær borgin 
                    allt að úthverfinu Maadi. 
        Til vesturs 
          teygist hún yfir ána með nýjum hverfum inn í Lýbísku eyðimörkina.  
          Í Kaíró situr ríkisstjórn landsins, þingið og aðrar æðstu 
          valdastofnanir. 
        Þar er aðsetur æðstu stofnana islams og kristinnar kirkju 
          (kopta).  Nokkrir háskólar 
          og tækniskólar eru í borginni. 
           
          Snemma
        á fornöld stóð borgin 'Chere-ohe' (Bardagaslóð) á austurbakka fljótsins
        á Pýramídahæð.  Þar áttu
        Horus og Seth að hafa barizt.  Grikkir
        kölluðu borgina Babýlon og Rómverjar einnig síðar en þeir víggirtu
        hana.  Eftir að kalífarnir
        lögðu hana undir sig árið 641 e.Kr. byggðist hin nýja höfuðborg,
        Fustat, norðan virkisins á sléttunni.  Arabar nefndu hana eins og landið Misr el-Fustat eða bara
        Misr. 
           
          Árið
        750 brann borgin til grunna í árás Ómana. 
        Stóra moskan stóð ein eftir. 
        Árið 969 lagði Gohar hershöfðingi Egyptaland undir sig og
        kom upp herbúðum norðan El-Katai, þar sem hét síðan Misr
        el-Kahira (borg hins sigursæla Marz).  Saladin byggði síðan (á 12.öld) sameiginlega múra
        umhverfis Fustat og Kahira.  Því
        verki var þó aldrei lokið að fullu. 
        Hann hóf byggingu virkis.  Undir
        stjórn falimida varð Kaíró að glæsiborg og lifði blómaskeið
        sitt á 14.öld, þótt borgarbúar mættu glíma við pestir,
        uppreisnir, andóf og ofsóknir kristinna manna. 
        Eftir orrustuna við Heliopolis árið 1517 hélt ósmanasoldáninn
        Selim I inn í Kaíró.  Þrátt
        fyrir rán og gripdeildir og kúgun Tyrkja, hélt Kaíró velli sem
        lifandi menningarborg. 
           
          Napóleon
        Bonaparte gerði Kaíró að aðalaðsetri sínu árin 1798-99 á meðan
        herför hans stóð yfir.  Árið
        1805 lagði Muhammed Ali, sem æðsti valdhafi landsins, virkið
        (zitadella) undir sig og lét fjarlægja 480 léttar fallbyssur þaðan. 
        Síðan hefur Kaíró vaxið og dafnað, einkum eftir opnun Súezskurðarins.  Nú býður borgin upp á andstæður hins gamla arabíska
        hluta og nýrri hverfa að evrópskri fyrirmynd. 
        Bygging neðanjarðarbrautar hófst 1981. 
           
          Þegar
        farið er á bazar, þarf að gæta sín að láta ekki plata sig með
        of háum verðum.  Það þarf að prútta. 
        Prúttið getur gengið svo lengi sem við áttum okkur á
        mismunandi lífsskilyrðum í eigin landi og því landi, sem við heimsækjum. 
        Egypzkir sölumenn eru mjög ágengir og það þarf að sýna þeim
        fulla hörku, ef fólk óskar ekki að eiga við þá viðskipti.  |