| 
           
                    
                     Núbía
        er í Efra-Egyptalandi, Núbíu og Súdan. 
        Eldra nafn landsins er 'Bilad el-Garabra' sem þýðir land
        berbanna.  Núbía teygist
        frá fyrstu Nílarflúðunum (katarakt) við Aswan í suðurátt, langt
        inn í Súdan, alveg að 5. flúðum á 18°N. 
        Neðri-Núbía, milli 1. og 2. flúða, er í Egyptalandi. 
        Þennan hluta Núbíu nefndu Egyptar 'Ueuet' en efri hlutinn
        nefndist Kusch í biblíunni.  Grikkir
        og Rómverjar nefndu íbúa þessa svæðis Eþýópa. 
           
                    Upplýsingar
        um forsögulegan tíma í Núbíu hafa fengizt á síðastliðnum áratugum
        með fornleifauppgreftri, einkum á vegum UNESCO, sem stóð að björgunaraðgerðum
        fornminja.  Í ljós hefur
        komið, að íbúar Neðri-Núbíu voru af sama stofni og aðrir íbúar
        við Miðjarðarhaf.  Einnig
        uppgötvaðist, að svipuð menning ríkti allt frá Nílarósum suður
        að 2. flúðum.  Við upphaf 
                    sögu Egyptalands, 3000 f.Kr., urðu miklar menningarlegar framfarir í Efra- og Neðra-Egyptalandi við sameiningu landshlutanna
        og náðu hámarki við byggingu pýramídanna, en Núbíumenn voru íhaldssamir
        og héldu fast við sína gömlu menningu. 
        Minjar frá þessum tímum bera vitni mikillar fátæktar íbúanna.  Menningarsamband við Egyptaland rofnaði algerlega. 
           
          Í
        elztu heimildum er getið um Núbíu, því vörur eins og fílabein,
        íbenviður, hlébarðaskinn og alls konar viðarkvoða var flutt í
        gegnum hana til Egyptalands.  Þegar
        1. höfðingjaætt var við völd í Egyptalandi, voru ráðnir hermenn
        frá Núbíu og furstarnir  á
        Fílaeyju stóðu fyrir viðskiptaferðum til landanna við Efri-Níl. 
        Á tímanum milli gamla- og miðríkisins í Egyptalandi, í
        kringum 2000 f.Kr., varð mikil breyting á íbúum Neðri-Núbíu. 
        Núbískir ættflokkar fluttust norður og settust að á milli
        1. og 2. flúðar og fluttu með sér sjálfstæða afríska menningu,
        sem varð fyrir áhrifum þeirrar, sem fyrir var og líka egypzkrar. 
        Á þennan hátt þróaðist einkennandi núbísk menning, sem
        lifði blómaskeið sitt á tímum miðríkisins. 
           
          Jafnfram
        þessu mynduðust stjórnmálalegar andstæður á milli Núbíu og
        Egyptalands.  Á dögum 11.
        höfðingjaættar reyndu Egyptar að brjóta Núbíu undir sig til að
        tryggja samgöngur við Súdan.  Þetta
        tókst ekki fyrr en 12. ætt var komin til valda. 
        Þá náðu yfirráð Egypta til Semna, rétt neðan 4. flúðar. 
        Til tryggingar yfirráðum sínum reistu Egyptar klettavirki
        milli Wadi Halfa og Semna í flúðóttum klettadalnum. 
           
          Á
        dögum Hyksos varð Núbía frjáls á ný en féll aftur til
        Egyptalands í upphafi nýja ríkisins og faraóar 18. ættar seildust
        enn þá lengra til suðurs.  Þeir
        náðu Kusch og viðskipti blómstruðu í landinu. 
        Egypzk menning varð allsráðandi og hin núbíska hvarf. 
        Reist voru hof á vesturbakkanum, þar sem engin hætta var á árásum
        bedúína.  Þau stóðu
        hinum egypzku ekki að baki og voru helzt helguð Amun, Re-Harakte og
        Ptah, auk annarra guða, einkum Ísís og núbísku guðunum Dedun og
        Sesostris III konungi, sem var fyrsti egypzki konungur Núbíu og var
        verndardýrlingur landsins.  Áletranir
        í hofum voru á egypzku en almenningur hélt tungu sinni engu að síður. 
           
          Núbía
        tengdist Egyptalandi allt til 1100 f.Kr., bæði stjórnmála- og
        menningarlega.  Undir 21.ætt
        varð Núbía sjálfstætt konungsríki (eþýópískt konungsdæmi) með
        Hapata sem höfuðborg en egypzk menning hélt velli. 
        Konungarnir, sem háðir voru prestastéttinni, trúði því, að
        þeir væru hinir einu sönnu verndarar egypzkrar trúar og hinir einu sönnu
        drottnarar Egyptalands.  Árið
        730 f.Kr. lagði Pianchi allt Egyptaland undir sig og brátt varð landið
        undir stöðugum yfirráðum Núbíu en árið 663 f.Kr. urðu Núbíumenn
        að víkja fyrir Assyríumönnum og láta sér Núbíu nægja. 
        Þá lágu landamærin við Konossokletta við Philae. 
           
          Allgóðar
        heimildir eru til um konungana, sem ríktu þar á eftir í Napata. 
        Auk þess eru sagnir um árangurslausar herferðir Psammetiks II
        (ca 590 f.Kr.) til Neðri-Núbíu og tilraunir Kambyses (525 f.Kr.) til
        að leggja Núbíu undir sig.  Hér
        á eftir verður þurrð á heimildum en bústaður konung-anna var
        fluttur að hluta til frá Napata til Meroe. Smám saman dró úr
        egypzkum menningaráhrifum.  Ritmálið
        þróaðist í meroískt letur (núbískt hýróglífur), sem notað var
        almennt og opinberlega frá byrjun okkar tímatals. 
           
          Þegar
        Ptolomear og Rómverjar réðu ríkjum, lágu landamæri Egyptalands á
        23°N og sunnar, en Núbíumenn færðu þau aftur norðar, jafnvel norður
        fyrir Philae. 
           
          Blemyjar
        gerðu Rómverjum ýmsar skráveifur, bæði í Neðra- og
        Efra-Egyptalandi, og urðu loks að láta undan síga, er Diokletian Núbíu
        af hendi ca 300 e.Kr.  Núbíumenn
        og Blemyjar létu samt ekki af árásum sínum á Efra-Egyptalandi en
        Mareianus sigraði þá 451 e.Kr. og samdi um frið. 
        Áður höfðu Abbesíníu-konungar (350 e.Kr.) frá Axum lagt
        undir sig Efri-Nílardalinn og þar með 
        Meroíska ríkið, sem leið þar með undir lok. 
           
          Þegar
        á 4. öld hélt kristnin innreið sína í Núbíu og var tekin þar
        upp og hofum breytt í kirkjur.  Árið
        640 lögðu arabar Egyptaland og Efri-Nílardalinn undir sig og islam náði
        fótfestu.  Samt reis kristið
        samfélag í Soba við Bláu-Níl á miðöldum. 
           
          Lítið
        er vitað um núbísku furstadæmin. 
        Árið 1821 náði Ismail Pascha Núbíu undir Egyptaland, sem faðir
        hans, Muhammed Ali réði.  Síðan
        þá hefur Neðri-Núbía deilt kjörum með Egyptalandi. 
           
          Þegar
        eldri Aswanstíflan var reist 1898-1912, hurfu hlutar Neðri-Núbíu
        undir vatn og mikið ræktunarland hvarf. 
        Flytja þurfti fólk ur mörgum þorpum og koma því fyrir á stöðum,
        sem hærra lágu.  Síðan
        þá stóðu ýmis merkileg mannvirki undir vatni, s.s. hofin á Philae
        og Kalabsa.  Við byggingu nýju
        stíflunnar, Sadd el-Ali, hurfu síðustu byggilegu svæði Neðri-Núbíu
        auk stórs hluta þeirra í Efri-Núbíu.  Flytja þurfti alla íbúa landsins og flestum var komið
        fyrir í Nýju-Núbíu (El-Nuba el-Gedida) við Kom Ombo. 
        Ráðgert er, að gera þeim, sem vilja, kleift að setjast að
        við Nasservatn. 
           
          Komandi
        kynslóðir fá ekki tækifæri til að sjá aragrúa af mannvirkjum, köstulum
        og hofum, frá horfnum öldum á bökkum Nílar, sem nú eru undir
        vatni.  Nokkur hin
        merkilegustu þeirra lét UNESCO flytja upp fyrir vatnsborð og í þakklætisskyni
        gáfu Egyptar nokkrum söfnum lítil hof og minnismerki, sem sett voru
        upp í þeim, t.d. Debodhofið frá 2. öld f.Kr., sem er í Madrid, suður-hofið
        frá Tafa, sem er í ríkissafninu í Leiden, Dedurhofið, sem er í
        Metropolitan Museum of Art í New York og klettakapella Tutmosis III frá
        Ellesija, sem er í Egypzka safninu í Turin. 
           
                    Helztu
        hofin, sem voru flutt:  Philae,
        nú á Agilka, Nýja Sebna, Nýja Amada, Nýja Abu Simbel.  |