| 
           
                    
                     Sakkara
        er í Giza í Mið-Egyptalandi.  Þetta
        gríðarstóra **grafasvæði hinnar fornu Memfisborgar er 15 km
        sunnan Keopspýramídans, vestan Nílar við jaðar Lýbísku eyðimerkurinnar. 
        Stærð svæðisins er 8 km frá norðri til suðurs og 500-1500
        m frá austri til vesturs.  Þar
        eru grafir frá öllum skeiðum egypzkrar sögu. 
        Gegnum tíðina hafa grafirnar verið rændar, einkum á byzönskum
        tíma og tímum kalífanna.  Þrátt
        fyrir það, hefur fornleifauppgröftur (1936-1956) leitt í ljós
        mikilvægar minjar og aukið þekkingu manna gífurlega. 
           
          Kennimerki
        Sakkara, **Þrepapýramídinn, sem er grafhýsi konungsins
        Djosers af 3. höfðingjaætt, er elzta steinbygging landsins. 
        Hann er 62,5 m hár með hliðar 109 x 121 m.  Efnið í honum er þurrkaður kalkleir, sem hefur á
        undraverðan hátt staðist tímans tönn. 
        Verndarguð grafasvæðisins var guðinn Sokar, sem gaf staðnum
        nafn sitt og er hann oft sýndur í mynd apa. 
        Umhverfis Djoserpýramídann eru fleiri slíkir auk grafhýsa
        (mastabas).  Mastaba þýðir
        borð eða bekkur á arabísku og var grafhýsi aðals- og mektarmanna
        við hirðir konunganna.  Þau
        voru ferhyrnd að grunnfleti með lítið eitt hallandi veggjum. 
        Djoser var fyrsti faraóinn, sem fól arkitektum sínum að reisa
        sér stórfenglegt grafhýsi.  Imhotep,
        arkitektinn, varð hinn fyrsti sinna starfsbræðra til að vinna sér
        frægð og Djoserpýramídinn varð hinn fyrsti sinnar tegundar. 
        Nafn Imhoteps fannst neðst á einni styttu Djosers. 
        Imhotep var einnig æðstiprestur og frægur læknir. 
        Hann var svo snjall og hugmyndaríkur, að Grikkir heiðruðu
        hann síðar með nafninu Eskulap, sem þýðir læknirinn. 
        Djoserpýramídinn var upphaflega klæddur slípuðum steini, sem
        nú er algerlega horfinn.  við
        hann standa leifar 'suðurhússins', sem borið er uppi af riffluðum súlum,
        líklega forverum dórísku súlnanna. 
           
                    Sunnan
        þrepapýramídans er Unaspýramídinn. 
        Unas var faraó af 5. ætt. 
        Þetta er lítill pýramídi, 60 m breiður og var þegar mjög
        illa farinn árið 2000 f.Kr.  Í
        þessum pýramída fannst dánartexti, sem er fyrsti dultrúarlegi
        textinn frá tíma gamla ríkisins og lagður var í grafir faraóanna
        þeim til verndar og leiðbeiningar handan við móðuna miklu. 
        Textinn byrjar í einum ganganna og nær alla leið inn á veggi
        grafhvelfingarinnar sjálfrar. 
           
                    Grafhýsin
        (mastabas) í Sakkara eru meðal hinna fegurstu og frægustu í
        Egyptalandi.  U.þ.b. 2 km
        frá dauðraborginni Sakkara eru pýramídarnir fimm í D. 
        Þrír þeirra eru úr steini og tveir úr tígulsteini. 
        Hinn nyrzti, kenndur við Sesostris III af 12. ætt, úr tígulsteini,
        var eitt sinn klæddur unnum turasteini. 
        Skammt sunnar eru pýramídar Amenunhet II og III. 
        Hinn fyrri er úr steini og þar fannst mikill fjársjóður í
        grafhvelfingunni.  Hinn er
        úr tígulsteini.  Tveir, sem 
                    eru ónefndir, voru reistir af Snofru, fyrsta faraó 4.
        ættar.  Annar er kallaður
        'Rauði pýramídinn', en grunnveggir hans eru meira en tvöfalt lengri
        en hæðin (213 m á móti 99 m).  Hinn
        er kunnur af óvenjulegu útliti sínu og er kallaður 'Tígulpýramídinn'. 
        Hann er hinn bezt varðveitti á grafasvæðinu. 
        Halli hliða hans er 43-50°. 
        Óvenjulegt er, að pýramídar hafi tvo innganga, en svo er með 
                    þennan, annar er á norðurhlið, 
                    en hinn á vesturhlið. 
        Báðir liggja að grafhvelfingunni. 
                     
                    
                    Eins og víðar á 
                    skoðunarsvæðum í Egyptalandi, eru oft skuggalegir náungar á 
                    ferðinni.  Þeir bjóða ferðamönnum að sýna þeim eitthvað 
                    einstakt, s.s. grafhýsi og múmíur, sem ferðamenn eiga að 
                    öllu jöfnu ekki aðgang að.  Það er alltaf hætta á því, 
                    að þetta séu glæpamenn, sem ræna ferðamennina, þegar þeir 
                    eru komnir úr sjónmáli varða svæðanna.  |