| 
           
                     Þeba
        er í Efra-Egyptalandi, 670 km sunnan Kaíró og 210 km norðan Aswan. 
        Þeba var fyrrum höfuðborg og trúarmiðstöð Egyptalands á tímum
        mið- og nýja ríkisins (12.-21.ætt). 
        Þeba nær yfir stórt svæði í og í kringum Luxor og Karnak
        auk grafasvæða, sem teygj-ast inni dali Lýbísku eyðimerkurinnar á
        vesturbakkanum. 
           
                    
        Örlög
        Þebu í gamla ríkinu eru ókunn. 
        Egypzka nafnið var Ueset eða Newt (borgin), sem biblíunafnið
        No eða No-Amun var til úr.  Vesturbakkinn var kallaður 'Svæðið vestan Ueset'. 
        Ekki er kunn ástæðan fyrir nafngift Grikkja, Thebai. 
        Rómverjar nefndu borgina Diospolis (Tveggjaguðaborgin; Seifur
        og Amun).  Ueset var héraðshöfuðborg og hafði eigin fursta yfir sér. 
        Þá, á dögum 6. ættar, voru grafasvæðin við Dra Abu el-Naga á 
          vesturbakkanum.  
          Aðalguðinn var stríðsguðinn Mont (með fálkahöfuðið), hinn sami og 
          dýrkaður var í Medu og Hermonthis. 
           
          Þeba
        fór fyrst að blómstra, þegar furstar miðríkisins höfðu hekið sér
        konungsnafn.  Samtímis varð
        Amun frá Karnak aðalguðinn.  Bezt
        var gengi Þebu frá og með frumdögum nýja ríkisins. 
        Baráttunni gegn Hyksosi var stjórnað frá Þebu og upphaf
        sameiningar ríkisins á sér rætur þar. 
        Upp frá því varð Þeba aðalsetur faraóanna um aldir og
        borgin varð mjög auðug fyrir ránsfeng og skatta frá löndum, sem
        Egyptar herjuðu á og lögðu undir sig 
        i suðri.  Guðinn
        Amun fékk sinn skerf, því að hin skrautlegu hof eru frá þessum tíma. 
        Helgidómur Epetesouet í Karnak var stækkaður auk hofs
        Apetresjet í Luxor, þar sem syðra konuhúsið var byggt. 
        Æðstu menn ríkisins hrósuðu sér af því að vera meðal
        presta Amuns.  Hofskólarnir
        blómstruðu og faraóarnir og konungarnir gáfu engum öðrum guði stærri
        gjafir.  Þeba var
        austurlenzk heimsborg, sem víða var getið, s.s. spámaðurinn Nahum
        (3,9), Homer (Ilionskviða 9. vers 381-4). 
        Sígildir höfundar síðari tíma nefndu hana einnig, s.s.
        Diodor, Strabo, Plinius, Stephanus frá Bysans o.fl. 
           
          Á
        valdadögum Haremhabs, Sethosar I og Ramsesar II voru skemmdar myndir og
        áletranir í hofunum lagfærðar og auður þeirra jókst. 
        Samkvæmt heimildum voru 2/3 hlutar allra hofa í landinu á dögum
        Ramsesar Ii helgaðir Amun og 75% allra fórnargjafa féllu honum í
        hlut, t.d. fékk hann 86.500 hinna 113.500 þræla, sem gefnir voru guðunum. 
           
          Velgengni
        Amuns steig æðstuprestum hans svo til höfuðs, að þeir sölsuðu
        undir sig konungsvöldin um tíma. 
        Á dögum 21. ættar, þegar bústaður faraóanna var fluttur
        til óshólmanna, tapaði Þeba miklu af hlutverki sínu. 
        Samt hélt hún allmiklu vægi í Efra-Egyptalandi undir stjórn
        æðstuprestanna auk þess, að borgin var óháðari faraóunum en aðrar.
           
           
        
        Á
        7.öld rændu assýrískir herir borgina. 
        Eþíópar gerðu Þebu að aðalborg sinni og dýrkuðu Amun, færðu
        honum miklar fórnir og gerðu lágmyndir honum til dýrðar. 
        Á sama tíma var borgin Sais uppáhald furstanna. 
        Herir Kambyses, sem ruddust inn í Egyptaland virðast lítið eða
        ekkert hafa skemmt Þebu.  Ráðamenn
        Egyptalands, sem losuðu landið undan yfirráðum Persa um tíma, s.s.
        Nektanebos II, stækkuðu Monthofið með stóru hliði. 
           
          Á
        valdatíma Alexanders mikla og Ptolomea hnignaði Þebu. 
        Jafnvel þótt ýmsar byggingar í Þebu hafi ptolomeískt
        yfirbragð, átti hún í vonlausri samkeppni við borgina Ptolemais,
        sem Ptolomaios I stofnaði. 
           
          Þegar
        Efri-Egyptar, undir stjórn Epiphanesar, gerðu uppreisn gegn Makedónum,
        sem þá ríktu, hlaut hin heillum horfna Þeba sjálfstæði enn þá
        einu sinni undir stjórn borgarbúa. 
        Uppreisnin var fljótlega bæld niður og Þeba.  Uppreisnin var fljótlega bæld niður og Þeba varð að
        venjulegri héraðshöfuðborg áður en hún leystist upp í mörg smáþorp. 
        Eftir eina uppreisnartilraunina í viðbót (Ptolemaios IX og
        Soter II) og aðra gegn skattpíningu Rómverja, sem Cornelíus Gallus ríkisstjóri
        barði niður með harðri hendi, stóð varla steinn yfir steini í
        borginni.  Þegar Strabo ferðaðist
        um Egyptaland 24-20 f.Kr. fann hann bara stök þorp, þar sem Þeba hafði
        staðið.  Á rómverska
        keisaratímanum er Þebu aðeins getið sem staðar, sem forvitnir ferðamenn
        heimsæki til að dást að hofrústum og Memnonrisunum. 
           
          Eftir
        að kristni var tekin upp og eftir tilskipanir Þeodósíusar var mörgum
        gripum og minjum frá heiðnum sið rutt brott, s.s. áletrunum og lágmyndum. 
        Níl flæddi árlega upp að og umhverfis Karnak- og Luxorhofin
        og skildi eftir salt í jarðveginum, sem smáskemmdi mannvirkin. 
        Mörgum gröfum og grafhýsum var breytt í bústaði, hofum var
        breytt í kirkjur og klaustur.  Hús
        voru byggð milli súlna Luxorhofsins og höggmyndir byggðir brenndar
        í kalk. 
           
          **Aðalskoðunarstaðir
        Þebu á austurbakkanum eru Karnak- og Luxorhofin. 
          Öll
        hofin á vesturbakkanum snúa þröngum inngöngum sínum að fljótinu. 
        Lengdaröxull þeirra hefur sa-nv stefnu, sem vísað er til í
        texta sem n-s.  Gott er að hafa með sér vasaljós í skoðunarferðir þangað. 
        Vegna þrengsla og mannfjölda er oft þungt loft og heitt í óloftræstum
        grafhýsunum og skoðunarröðin ræðst oft af því, hve mikil bið er
        við hvert þeirra.  Einnig
        er grafhýsunum lokað reglulega, þannig að erfitt er að segja til um
        það fyrirfram, hver þeirra verða skoðuð. 
           
          **Á
        vesturgrafasvæði
        Þebu eru líka hof, helguð Amun og konungum fyrri tíma. 
        Þau eru flest frá tíma nýja ríkisins og við þau standa bústaðir
        prestanna, bókasafnsbyggingar og skólar. 
        Einnig eru þar trjálundir, tjarnir, kornskemmur, hesthús, bústaðir
        hermanna, sem stóðu vörð um þau, og fangelsi. 
        Verkamenn hofanna bjuggu í þorpum. 
        Þeir voru m.a. steinsmiðir, málarar, byggingarverkamenn og síðast
        en ekki sízt smyrjarar, sem undirbjuggu lík til greftrunar. 
        Þannig myndaðist oft heil borg í tengslum við hofin líkt og
        við Mamelukgrafirnar í Kaíró.  Furstarnir
        og ofurstar grafahermannanna skipuðu sérstaka embættismenn til að
        stjórna slíkum samfélögum. 
           
          
          
        Kurna,
        Dra Abu el-Naga og El-Tarif 
          
          Fjórum
        km norðan legukantanna við Níl er *grafarhof Sethosar I frá Kurna. 
        það var helgað Amun og föður þess, sem lét reisa það,
        Ramses I.  Ramses II endurnýjaði
        hofið og lét ljúka byggingu þess með lágmyndum og áletrunum, sem
        minna helzt á höggmyndirnar í Abydos, hvað fegurð snertir. 
        Hofið var 158 m langt en nú standa bara eftir helgidómurinn,
        salir hans og herbergi, alls 47 m. 
           
          Frá
        Sethoshofinu liggur vegurinn í átt til hólanna við rætur eyðimerkurfjallanna,
        þar sem er þorp og dauðraborgin Dra Abu el-Naga. 
        Kleggagrafirnar eru frá tímum nýja ríkisins. 
        Mælt er með því að skoða eftirtaldar grafir: Nr. 17, gröf
        Neb-Amun (18.ætt) konunglegs læknis og nr. 19, gröf Amenmose (19.ætt)
        æðstaprests hofs Amenophis I. 
           
          Á
        svæðinu norðan Sethoshofsins eru grafir konunga og fursta frá
        El-Tarif frá dögum 11.ættar.  Mikil
        vinna hefur verið lögð í að höggva út úr klettunum allt að 300
        m langa og 60 m breiða forgarða. 
        Falskar súlur við enda þeirra leiddu til nafnsins raðgrafir
        (Saff-grafir).  Grafhvelfingarnar sjálfar eru litlar og hóflega skreyttar
        en hafa varðveitzt vel.  Þær,
        sem mælt er með að skoða, eru grafir konunganna Antefs I, II og III. 
           
          
          
        
          Dalur
        konunganna: 
        Frá Sethoshofinu liggur
        góður vegur 5 km í norðvestur inn í dalinn, sem krýndur er náttúrulegum
        fjallspýramída.  Hér létu
        konungar 18., 19. og 20. ættar leggja sig til hinztu hvíldar. 
        Grafirnar eru höggnar í klettaveggina með löngum göngum. 
        Þær áttu aðeins að vera umbúðir um líkkistur, því hof
        þeirra voru reist undir beru lofti. 
        Venjulega lágu 3 gangar inn í bergið niður á við. 
        Við hinn fyrsta voru stundum hliðarherbergi og í öðrum og þriðja
        voru veggjaskot fyrir áhöld hinna látnu. 
        Handan forsalar var oft aðalsalur með súlum, þar sem var
        gryfja í gólfinu fyrir stóra granítkistu.  Umhverfis vour hliðarherbergi. 
        Til þess að ferðalag hinna látnu á báti um helheima með sólguðnum
        kæmi ekki á óvart og hinn látni kynni sig sem bezt, voru
        myndskreyttir textar málaðir á veggi og loft til leiðbeiningar. 
        Þessir textar eru aðallega úr tveimur bókum: „Hvað er
        í heiminum fyrir handan" og „Bók hliðanna".  Nefna mætti til viðbótar bókina „Heljarför sólguðsins". 
        Auk textanna úr þessum bókum er dýrðarboðskapur og lof um sólguðinn
        í máli og myndum og formúlur um siði og venjur við útfarir og
        hvernig hinum látna er sýnd virðing við styttu hans, þar sem
        skilinn var eftir matur og drykkur til ferðarinnar. 
           
          **Skoðunarferð
        í Konungadalinn
        er einn hápunktanna í Egyptalandsferðum en mannmergðin og hitinn
        gera þær erfiðar.  Hægt
        er að slappa af í veitingahúsinu í dalnum. 
        Erfitt er að gefa upp skoðunarröð grafhýsanna af sömu ástæðum
        og að framan er getið.  Sjá
        nánar á korti legu grafhýsanna. 
           
          
          
        **Deir el-Bahari (Norðurklaustur): 
        Hofið í Deir el-Bahari
        er mjög fallegt við rætur þverhníptra kletta eyðimerkurfjallanna,
        gulllitra og ljósbrúnna á bak við hvít kalkmannvirkin. 
        Vegna litarins sker hofið sig vel úr og sést víða að. 
           
          Hofið
        var reist í upphafi nýja ríkisins, þegar Hatsepsut drottning var við
        völd.  Hún var frænka,
        stjúpmóðir, tengdamóðir og meðstjórnandi Thutmosis II, sem hataði
        hana af öllu hjarta.  Þegar
        honum hafði tekizt að koma henni frá völdum, lét hann afmá allar
        áletranir í hofinu, þar sem hennar var getið og taka burt allar
        styttur af henni.  Hann lét
        setja sitt eigið nafn í hennar stað. 
           
          Eftir
        dauða Thutmosis II hélt drottningin byggingunni áfram en lauk ekki
        verkinu fyrir dauða sinn.  Eftirmaður
        hennar, Thutmosis III, tók við verkinu og lét fjarlægja og má út
        allt, sem minnti á Hatsepsut og kom sínu hafni á framfæri. 
        Ameinophis IV (Echnaton) lét meitla nafn Amuns brott en Ramses
        II lét lagfæra það á ný á gróflegan hátt. 
        Næstu aldirnar stóð hofið óbreytt. 
        Smálagfæringar og litlar nýbyggingar Ptolemaiosar VIII breyttu
        útliti þess lítið.  Eftir
        kristni settust munkar að í hofinu og stofnuðu klaustur, sem
        almenningur kallaði  Deir
        el-Bahari.  Munkarnir eyðilögðu
        heiðnu veggskreytingarnar. 
           
          Hofið
        var grafið upp á árunum 1894-96 og styrkt, svo að það félli ekki. 
        Stöðugt er unnið að viðgerðum eins og víða annars staðar. 
        Athyglisvert er, að allar myndir og styttur, sem til eru af
        Hatsepsut, eru skreyttar með stuttri mittisskýlu og skeggi, sem var tákn
        konunganna.  Hofið var
        helgað Amun frá Þebu auk Hathor og dauðaguðnum Anubis, sem vour
        helgaðar sérkapellur, og Hatsepsut drottningu, sem grafin var í
        beinni línu frá hofinu í Konunga-dalnum.  Hofið rís í þremur stöllum með aflíðandi braut. 
        Bakhluti þess er grafinn inn í klettavegginn. 
        Frá dalhofi lá gata með svingsum á báðar hendur að aðalhofinu,
        en hvort tveggja er horfið.  Stórt
        hlið inni í hofgarðinn er líka horfið. 
        Framan við hliðið stóðu tvö perseatré í steinumgerðum. 
        Stúfar þessara trjáa sjást enn þá. 
           
          Rétt
        við og beint suður af hofi Hatsepsut er *dánarhof Mentuhoteps II, sem
        er meðal beztvarðveittu minja frá upphafi miðríkisins. 
        þetta var þrepahof með pýramída og súlnasal yfir gröfum
        konungs og fjölskyldu hans.  Á
        hinum langa valdatíma Mentuhoteps II var hofinu margbreytt og það stækkað
        stöðugt.  Það er elzta
        hofið, sem vitað er um í Þebu. 
        Einfaldur byggingarstíll þess gerir það áhugavert. 
        það var grafið upp 1905-07 og rannsakað af bandarískum
        fornleifafræðingum en á síðustu árum hafa þýzkir vísindamenn
        verið þar að störfum. (1990) 
           
          Austan
        Deir el-Baharu er El-Asasifdalurinn. 
        Þar er stórt grafasvæði, aðallega frá tímum saitísku höfðingjaættarinnar
        (25. og 26. ætt).  Meðal rústanna
        er áberandi tígulsteinahlið, sem er gröf furstans Mentemhets. 
           
          
          
        **Ramsesseum. 
        Hið stóra dánarhof
        Ramsesar II, sem vígt var Amun, er á vesturbakkanum, u.þ.b. 15 km
        sunnan Deir el-Baharu í útjaðri ræktarlandsins. 
        Þótt aðeins helmingur upprunalegra mannvirkja standi enn þá,
        eru rústirnar mjög tilkomumiklar og hrífandi. 
        U.þ.b. 500 m norðaustan Ramsesseum er mikið skemmt hof
        Thutmosis III innan nýlegra veggja. 
           
          
          
        **Schech Abd el-Kurna. 
        Þessar klettagrafir ásamt
        gröfunum austan við þær, El-Chocha, eru stærsta einkagrafasvæði
        tignarmanna við hirðir konunganna og æðri sem lægri embættismanna
        nýja ríkisins.  Árið
        1991 var búið að finna og grafa upp 414 grafir. 
           
          
          
        *Drottningadalurinn. 
        Biban el-Harim = staður
        fegurðarinnar.  Flestar
        grafirnar eru frá dögum 19. og 20. ættar. 
        Þekktar eru um 80 grafir, sem Ítalar uppgötvuðu flestar árin
        1903-05, samanber minningartöflu á staðnum. 
        Margar grafanna eru ófullgerðar og að hluta óskreyttar. 
           
          
          
        Medinet
        Habu. 
          
        Suðaustan
        Drottningadalsins, á sléttlendinu, er syðsta hofsvæðið á
        vesturbakkanum.  Elzt
        bygginga er hof frá dögum 18. ættar. 
        *Aðalhofið (Ramses III) var tengt konungshöll, sem er horfin. 
           
          
        
          **Memnonrisarnir. 
        Við veginn, sem lá á
        milli Konungadals, medinet Habu og Nílar, stands Memnonrisarinir, tákn
        vesturbakka þebu.  Efnir í
        þeim er mjög harður, gulbrúnn kísilsandsteinn, sem finnst í
        sandsteinsfjöllunum ofan Edfu.  Báðir
        eru þeir af Amenophis III, sem situr á teningslöguðum hásætum. 
        Hof konungs, hvers inngangur var skrýddur þessum styttum, er hér
        um bil alveg horfið.  Á rómverskum
        tímum var talið að stytturnar væru helgaðar Memnon, syni Eosar og
        Tithonosar, sem Akkilles drap í Trójustríðinu. 
           
          
        
        Syðri
        styttan er heillegri en sú nyrðri. 
        Hún er nú 19,59 m há.  Sökkullinn
        undir fótum styttunnar er 3,97 m hár en hann er að hluta niðurgrafinn. 
        Styttan sjálf er 15,95 m há. 
        Kórónan, sem er horfin, hefur vafalítið gert styttuna 21 m háa
        alls.  Leggir hennar frá hné
        og niður eru 6 m langir.   Hvor
        fótur er 3,2 m.  Herðarnar
        eru 6,77 m breiðar.  Lengd
        löngutangar er 1,38 m.  Frá
        fingurgómum að olnbogum eru 4,76 m. 
        Við vinstri hlið styttunnar stendur móðir konungs, Mutemwija,
        við hina hægri stendur kona hans, Teje. 
        Þriðja myndin, milli fóta hans, er skemmd. 
        Á hliðum sætisins voru ígreyptir tveir Nílarguðir hvorum
        megin og plönturnar í skjaldarmerki Efra- og Neðra-Egyptalands, lotos
        og papýrus, vefjast utan um slagorðið „sameining", sem er tákn
        sameiningar landshlutanna. 
           
          
        Þessi
        stytta er líka kölluð „Syngjandi Memnonsúlan". 
        Hún dró að sér aragrúa ferðamanna á rómverskum tíma. 
        það heyrðust sérkennilegir ómar frá henni við sólarupprás. 
        því spunnust ýmsar furðusögur um hana, m.a. sú, að Mimnon
        heilsaði móður sinni mjúkri, harmþrunginni röddu og tár hennar,
        morgundöggin, féllu á ástkæran soninn. 
        Strabo var síðasta heimildin um þessa sögu, sem hann trúði
        eins og nýju neti.  Heyrðist
        enginn ómur frá Memnon, var álitið, að hann væri reiður. 
        Septimus Severus keisari lét lappa gróflega upp á styttuna,
        e.t.v. til að milda skap guðsins en þar varð til þess, að hún
        hefur ekki gefið frá sér hljóð síðan. 
        Engin skýring hefur fundizt á þessum undrum.  Líklega varð það vindurinn eða hitamunur dags og nætur,
        sem olli. 
           
          Margar
        áritanir á grísku og latínu í bundnu og óbundnu máli á styttunni
        staðfesta, að það var hin nyrðri, sem söng. 
        Hinar elztu eru frá 11. valdaári Nerós, hinar yngstu frá dögum
        Septimus Severus og Karakalla en flestar frá tímum Hadrians. 
        Aðeins einn Egypti skráði þar hugsanir sínar. 
        Hann lýsti vantrú sinni á sannleiksgildi sagnanna.  |