| 
           
                    
                     Addis Ababa, höfuðstaður og stærsta
        borg Eþíópíu, er á vatnsríkri hásléttu, sem er umkringd fjöllum
        í miðju landsins.  Hún
        hefur verið höfuðborg landsins síðan síðla á 19. öld, þegar hún
        tók við hlutverki Entoto.  Fyrrum
        höfuðborg landsins er enn hærra yfir sjó og þar er kalt og skortur
        á eldiviði.  Keisaraynjan
        Taitu, eiginkona Menileks II (1889-1913) fékk keisarann til að byggja
        bústað við hverina við rætur hásléttu Entoto og úthluta aðlinum
        landi á þessu svæði.  Á
        þennan hátt var borgin stofnuð árið 1887 og keisaraynjan gaf henni
        nafnið Addis Ababa, sem þýðir Nýja blómið. 
         
           
          Fyrstu árin var borgin í rauninni stór herstöð. 
        Miðdepill hennar var keisarahöllin, sem var umkringd herskálum
        og bústöðum aðalsins.  Eldiviðarskorts
        fór að gæta, þegar íbúunum fjölgaði. 
        Árið 1905 var mikill fjöldi tröllatrjáa fluttur inn frá Ástralíu. 
        Þau dreifðu sér náttúrulega og veittu borginni skjól og nægan
        eldivið. 
           
          Addis Ababa var höfuðborg Austur-Afríku
        á árunum 1935-41.  Nútímasteinhús
        voru reist á þessum tíma, einkum þar sem Evrópumenn bjuggu, og
        slitlag var lagt á fjölda vega.  Aðrar
        umbætur fólust meðal annars í vatnsveitunni við Gerarsa vestan
        borgarinnar og vatnsorkuverinu við Akaki sunnan hennar. 
        Litlar breytingar urðu á borginni á árunum 1941-60 en sínan
        hafa framfarir verið stórstígar.  Borgin er miðstöð menntunar og stjórnsýslu í landinu. 
        Borgarháskólinn var stofnaður 1950 og honum tengist safn eþíópískra
        fræða.  Þarna eru nokkrir
        kennara- og tækniskólar og tónlistarskóli auk Þjóðskjalasafns og
        Þjóðarbókhlöðu, halla fyrri keisara og stjórnarráð landsins. 
        Nokkur alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir eiga aðalstöðvar sínar
        í borginni, s.s. Afríkubandalagið og Efnahasstofnun Sameinuðu þjóðanna
        fyrir Afríku, sem eru í Afríkuhöllinni. 
           
          Meðal þess, sem framleitt er í
        borginni, eru skór, vefnaðarvörur, matvæli, drykkjarvörur, trévara,
        plastvörur og efnavörur.  Flest
        þjónustufyrirtæki landsins eru líka í borginni (bankar, tryggingafélög)
        og stærstu dagblöð landsins eru gefin út þar. 
           
          Mestur hluti útflutnings
        landsmanna fer um Addis Ababa á leið sinni til hafnarborganna Djibouti
        við Adenflóa og Asseb í Eritreu við Rauðahaf. 
        Borgin er einnig miðstöð viðskipta innanlands. 
        Markaður hennar (Mercado) í vesturhlutanum er einhver hinn stærsti
        sinnar tegundar í Afríku.  Miðborgartorgið
        (Piazza) er umkringt mörgum nútímalegum verzlunarmiðstöðvum með
        evrópsku yfirbragði.  Borgin
        er miðstöð samgangna í landinu. 
        Hún er í vegasambandi við aðrar helztu borgir landsins og járnbrautasambandi
        við Djibouti.  Millilandaflugvöllur
        er skammt utan borgarinnar. 
           
          
        Fátt er um almenningsgarða og afþreyingarsvæði
        í borginni en samt er nóg af opnum svæðum, sem væri hægt að nýta
        til slíks brúks.  Lítill
        dýragarður er í almenningsgarði í grennd við háskólann og
        vatnasvæðið skammt sunnan borgarinnar býður upp á siglingar,
        vatnaskíði, böð og fuglaskoðun. 
        Vinsælasta áhorfendaíþróttin er knattspyrna og körfubolti,
        hnit og aðrar íþróttir eru stundaðar.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1994 var rúmlega 2,3 miljónir.  |