| 
           
                    
                    
                     Dire Dawa er borg á
        jaðri Sigdalsins mikla miðaustanverðri Eþíópíu, 48 km norðvestan
        Harer.  Hún er við mót
        vegarins milli Addis Ababa, Harer og Djibouti og hefur eigin flugvöll. 
        Hún var löngum miðstöð úlfaldalesta en þróaðist sem
        verzlunarborg fyrir Harer eftir 1904, þegar hún varð endastöð járnbrautarinnar
        frá Djibouti, sem var síðan lögð áfram til Addis Ababa. 
        Farvegur Dachatu-árinnar, sem þornar algerlega á þurrkatímanum,
        skiptir borginni í nýja og gamla hlutann. 
        Gamli hlutinn byggðist á
          yfirráðatíma Frakka. 
        Þar er koptísk kirkja og konungshöll auk mosku og grafasvæðis
        múslima.  Korn er flutt til
        borgarinnar frá hásléttunum sunnan hennar, vegna þess hve ræktun er
        erfið umhverfis hana, enda þýðir nafn hennar Auða sléttan. 
        Í borginni eru verkstæði járnbrautanna og verksmiðjur, sem
        framleiða vefnaðarvörur, sement, kaffi og kjötvörur. 
        Talsverð verzlun er með kaffi og húðir. 
        Flestir íbúanna eru af Oromokyni (Galla) eða Sómalar. 
        Í grennndinni eru hellar skreyttir forsögulegum myndum. 
        Áætlaður íbúafjöldi 1987 var rúmlega 107 þúsund.  |