| 
           
        Snemma á nýlendutímanum.  Fátt er 
        vitað um sögu Gabon áður en fyrstu portúgölsku sæfararnir sigldu inn í 
        árósa Gabon-árinnar árið 1472, því að bantúmælandi þjóðflokkarnir, sem 
        bjuggu þar, áttu ekki ritmál.  Þá voru hlutar Suður-Gabon lauslega 
        tengdir Loango, sem var hérað í hinu stóra konungsdæmi Kongó.  
        Portúgalar komu sér fyrir á eyjunum São Tomé og Príncipe, komu sér upp 
        sykurplantekrum og verzluðu við íbúa meginlandsins.  Frá síðar hluta 
        sextándu aldar fengu þeir samkeppni Hollendinga, Frakka, Spánverja og 
        Englendinga, sem seldu innfæddum vefnaðar- og járnvöru, skotvopn og 
        áfengi fyrir harðvið, fílabein og þræla. 
         
        Þrælaverzlunin jókst 
        hröðum skrefum á tímabilinu 1760-1840 vegna aukinnar eftirspurnar frá 
        Brasilíu og Kúbu.  Íbúarnir inni í landi seldu olnbogabörn sín og 
        stríðsfanga í ánauð.  Þetta fólk var sent í bátum niður árnar til 
        strandar, þar sem það var geymt í kvíum, þar til evrópsk skip sóttu 
        það.  Orungu-fólkið á Lopez-höfða stofnaði konungsríki, sem byggðist á 
        þrælasölunni við ósa Ogooué.  Mpongwe-fólkið, sem bjó við ósana, 
        stundaði aðallega verzlun en græddi líka á þrælasölu líkt og vili-fólkið 
        í Loango, sem stundaði þrælaverzlun í öllum suðurhluta Gabon.  
        Fang-fólkið frá Kamerún, sem var að nema land suður eftir Gabon, vildi 
        hvorki halda þræla eða berjast til að hneppa fólk í ánauð.  Fang-fólkið 
        færði sig í átt til Strandar og barðist oft fyrir landrými.  Á þann hátt 
        tvístraði það og fækkaði upprunalegri íbúum á leiðinni á 19. öld. 
           
          Undir franskri 
        stjórn.  
        Um aldamótin 1800 voru Bretar orðnir ráðandi í verzluninni við allan 
        Gíneuflóa.  Eftir 1815 reyndu Frakkar að koma ár sinni betur fyrir borð 
        og berjast við hlið Breta gegn þrælasölunni.  Édouard Bouet-Willaumez, 
        höfuðsmaður, samdi við höfðingja tveggja Mpongwe-ættbálka (Denis konung 
        og Louis konung) árið 1839 og 1841.  Þeir samþykktu að hætta 
        þrælaverzluninni og féllust á frönsk yfirráð.  Koma bandarískra 
        mótmælendatrúboða árið 1842 til að opna skóla í ríki Glass konungs, þar 
        sem Bretar, Bandaríkjamenn og Þjóðverjar stunduðu verzlun, varð til 
        þess, að Frakkar byggðu virkið Fort d’Aumale í ríki Louis konungs árið 
        1843.  Næsta ár sendu Frakkar rómversk-katólska trúboða til að útbreiða 
        frönsk menningaráhrif meðal mpongwe-manna og nágranna þeirra.  Franskir 
        umboðsmenn náðu samningum við Glass konung um yfirráð Frakka.  Árið 1849 
        skipulagði Edouard Bouet-Willaumez litla byggð frelsingja, aðallega 
        vili-manna, og kallaði hana Libreville, sem varð að kjarna borgarinnar 
        ásamt virkinu. 
           
          Frakkar náðu smám 
        saman fótfestu víðar á strandlengjunni (1850-70) og sendu landkönnuðu 
        inn í land.  Leiðangur Pierre Savorgnan de Brazza (1875-85) tryggði þeim 
        yfirrðain við efri hluta Ogooué-árinnar, þar sem þeir stofnuðu 
        Franceville árið 1880, og á ströndum Loango.  Gabon varð hluti af 
        Franska Kongó árið 1886, sem landstjórinn í Brazza stjórnaði. 
           
          Árið 1910 varð Gabon 
        ein fjögurra nýlendna innan bandalagsins Frönsku-Miðbaugsafríku.  
        Frakkar komust að samkomulagi við Þjóðverja og Spánverja um landamærin 
        að Kamerún 1885 og Spænsku-Gíneu (Miðbaugs-Gíneu) árið 1900.  Þeir mættu 
        lítilli mótspyrnu, þegar þeir lögðu innlandið undir sig en afskipti 
        þeirra af verzluninni og skattlagning, þegnskylduvinna o.fl. olli 
        mikilli andstöðu.  Einokunarstefna þeirra í efnahagsmálum á árunum 
        1898-1914 fyrir útvalin fyrirtæki olli eyðingu byggða og dró úr 
        framleiðslu bænda og viðskiptum. 
           
          Milli 
        heimsstyrjaldanna óx úr grasi stétt borgara, sem höfðu stundað nám í 
        drengjaskólum Bræðra hl. Gabríels í Libreville og Lambaréné.  Hún var 
        hlynnt Frökkum en andsnúin nýlendustöðu landsins.  Úr hennar röðum 
        spruttu flestir stjórnmálamenn á dögum fjórða franska lýðveldisins 
        (1946-58), þegar Gabon varð að utanlandshéraði Frakklands með eigið þing 
        og fulltrúa í franska þinginu.  Fjárfestingar Frakka í Gabon uxu á þessu 
        tímabili og menntun var aukin.  Árið 1958 fékk Gabon heimastjórn og fékk 
        síðan sjálfstæði 17. ágúst 1960 eftir undirritun samstarfssamings við 
        Frakkland. 
           
          Sjálfstætt Gabon.  
        Gabonbúar voru hlynntir nánu sambandi við Frakkland og hölluðust að 
        franskri tungu og menningu.  Þeir voru andsnúnir stjórnmálatengslum við 
        önnur ríki Miðbaugs-Afríku vegna óánægju með fyrra bandalag við þau og 
        viljans til að þróa nýtingu eigin náttúruauðlinda í eigin þágu. 
           
          Léon M’ba, fyrsti 
        forseti landsins, reyndi að koma einsflokksstjórn 1964 og olli þannig 
        uppreisn ungra liðsforingja í hernum.  Léon M’ba átti stuðning öflugra 
        hagsmunaaðila í Frakklandi og komst aftur til valda með stuðningi 
        hersveita, sem de Gaulle, hershöfðingi, sendi til landsins.  Þessi 
        aðgerð dró úr mætti andstöðuaflanna undir stjórn Jean-Hilaire Aubame, 
        fyrrum fulltrúa Gabons í franska þinginu.  Þetta leiddi einnig til 
        upphefðar Albert-Bernard Bongo (síðar Omar), greiddi leið hans til 
        forsetaembættisins 1967 og stofnunar einsflokksstjórnar.  Árið 1982 
        heimtaði ný andstöðufylking (Mouvement de Redressement Nationale; 
        MORENA) fjölflokka lýðræði, almenn mannréttindi og upprætingu spillingar 
        í ríkisstjórninni en hún var fljótlega bæld niður. 
           
          Árið 1985 olli 
        lækkandi olíuverð efnahagshruni.  Aðgerðir stjórnarinnar ollu almennum 
        mótmælaaðgerðum í Libreville og Port-Gentil árið 1990.  Andstæðingar 
        stjórnarinnar héldu þjóðfund.  Dauði andstöðuleiðtoga í maí 1990 varð 
        kveikjan að blóðugum átökum, sem franski herinn bældi niður til að 
        vernda hagsmuni og eignir Frakka.  Andstöðuhópar unnu þingsæti í 
        september en kosningar þeirra voru dæmdar ógildar í helmingi hinna 120 
        héraða landsins.  |