| 
           
        
        Nigerfljótið er í Vestur-Afríku.  Það á upptök sín í Gíneu og rennur 
        4180 km gegnum Malí, Niger og Nígeríu út í Gíneuflóa.  Aðalþveráin er 
        Benue, sem sameinast Nigerfljóti við Lokoja í Nígeríu.  Ósar 
        Nigerfljótsins eru 36.300 km2, hinir stærstu í Afríku með 190 
        km langri strandlengju.  Port Harcourt er í ósunum.  Inni í miðju Malí 
        myndar fljótið einnig stórt fenjasvæði.  Fljótið er skipgengt næstum 
        allt árið alla leið til Lokoja.  Um regntímann má komast lengra á skipum 
        og bátum.  Fljótið og þverár þess ná yfir 463.000 km2.  
        Úrkoman er mjög mismunandi á þessu stóra svæði, allt frá 254 mm í 
        Timbuktu til 4064 mm á ósasvæðinu á ári.  Meðalrennsli fljótsins í 
        ósunum er 6000 rúmmetrar á sekúndu. 
         
        Við 
        Efra-Nigerfljót voru fornríkin Malí og Songhai.  Þá var Timbuktu við 
        Stórubugðu aðalmenningar- og verzlunarborg þessa landshluta.  Vestrænir 
        landfræðingar eyddu miklum tíma til rannsókna á farvegi fljótsins.  
        Skozki landkönnuðurinn Mungo Park komst að því árið 1796, að fljótið 
        rann til austurs og árið 1830 staðfestu ensku bræðurnir Richard og John 
        Lander, að það rynni út í Gíneuflóa.  |