| 
           
        Samfélög veiðimanna 
        og safnara bjuggu á Gíneusvæðinu fyrir a.m.k. 30.000 árum og landbúnaður 
        hefur verið stundaður þar í 3000 ár.  Fyrir u.þ.b. einni teinöld fóru 
        susu- og malinke-menn að þrengja að baga-, koniagi- og nalu-mönnum, sem 
        höfðu búið þar í rúmlega 1000 ár.  Borgir og þorp í Efri-Gíneu voru 
        innlimuð í Malíríkið eftir miðja 13. öld og í kringum 1600 höfðu 
        fulani-menn náð yfirráðum á Fouta Djallon. 
         
        Portúgalar birtust 
        fyrst á 15. öld og þrælasölu lauk ekki fyrr en um miðja 19. öld.  Brezk 
        og frönsk ítök á ströndinni höfðu lítil áhrif á sögulega þróun inni í 
        landi þar til höfðingi (almamy) Fouta Djallon-svæðisins samþykkti að 
        ríki hans yrði franskt verndarsvæði árið 1881.  Hið sjálfstæða 
        Malinke-ríki undir stjórn Samory Touré varðist franska hernum til ársins 
        1898 og litlir skæruliðahópar Afríkumanna héldu áfram baráttunni gegn 
        Frökkum til loka fyrri heimsstyrjaldarinnar. 
           
          Nýlendutíminn.  
        Franska verndarsvæðið Rivieres du Sud var skilið frá Senegal sem sérstök 
        nýlenda árið 1890.  Sem Franska-Gínea varð það hluti Frönsku 
        Vestur-Afríku árið 1995.  Samningar við Líberíu og Bretland ákváðu að 
        mestu núverandi landamæri fyrir fyrri heimsstyrjöldina. 
           
          Samkvæmt 
        stjórnarskrá fjórða franska lýðveldisins 1946 mátti takmarkaður hópur 
        franskmenntaðra Afríkumanna í Gíneu kjósa til fulltrúaþings Frakka.  Í 
        þjóðaratkvæðagreiðslunni 1958 um stjórnarskrá fimmta franska 
        lýðveldisins hafði Sékou Touré þau áhrif, að Gíneumenn greiddu atkvæði 
        gegn henni og kusu sjálfstæði.  
           
          Gínea skipaði 
        sérstakan sess meðal Afríkuríkja vegna þessarar höfnunar en stjórn Touré 
        varð sífellt afskiptasamari.  Frakka neituðu landinu um fjárhagsaðstoð 
        og stjórnin varð að taka lán og gera viðskiptasamninga við fyrrum 
        Sovétríkin og Alþýðulýðveldið Kína.  Þegar Gínea heyktist á að gerast 
        fullgildur aðili að efnahagsbandalagi austurblokkarinnar (COMICON), 
        snéri Gíneustjórn sér til Frakka og annarra Vesturlanda um fjárhags- og 
        tækniaðstoð á síðustu árum stjórnar Touré, sem hafði ekki tekizt að efla 
        efnahag þessa tiltölulega náttúruauðuga ríkis.  |