Kalahari eyðimörkin,
Flag of Botswana

Flag of South Africa


KALAHARI EYÐIMÖRKIN
.

.

Utanríkisrnt.

 

smoking bushmanKalahari er stórt lægðarsvæði á innsléttum Suður-Afríku.  Það nær yfir mestan hluta Botswana, austurþriðjung Namibíu og nyrzta hluta Norður-Cape-hérað í Suður-Afríku..  Suðvesturhlutinn sameinast strandeyðimörk Namibíu, Namib.  Mesta lengd Kalahari frá norðri til suðurs er 1600 km og mesta breidd frá austri til vesturs er um 1000 km.  Heildarflatarmálið er í nánd við 930.000 km2.

Landslagseinkenni eru engin önnur en lágar öldur og sandur í 900 m eða meiri hæð yfir sjó.  Berggrunnurinn sést aðeins í fáum og þverhníptum klettum lágra hæðanna (kopjes).  Önnur yfirborðseinkenni eru sandlög, sandöldur og pönnur (vleis).  Sandflekarnir virðast hafa myndast á síðari helmingi ísaldar (1.600.000-10.000) og hafa verið á sínum stað síðan.  Sums staðar virðist vatn hafa leikið um stór svæði á tímabilum meiri úrkomu en annars staðar hefur hita- og vindveðrun ráðið ríkjum.  Flekarnir eru á austurhluta eyðimerkurinnar.  Yfirborð þeirra er nokkurn veginn í sömu hæð yfir sjó og dýpt sandsins í kringum og rúmlega 65 m.  Víða er sandurinn rauðleytur vegna járnoxíðs, sem hylur sandkornin.

Allur vesturhluti Kalahari er þakinn löngum keðjum sandaldna með norð- og norðvestlæga stefnu.  Öldurnar eru að meðaltali 1700 m langar, nokkur hundruð metra breiðar og 6-60 m háar.  Á milli þeirra eru lægðir (straat), sem eru beztu ferðaleiðirnar.

Vatnasvið.  Pönnurnar (vleis) eru miðpunktar vatnakerfa eyðimerkurinnar, þurrir vatnsbotnar árstíðabundinna farvega.  Margar þeirra eru leifar frá skeiðum meiri úrkomu.  Fyrrum rann sáralítið vatn til sjávar frá Kalaharisvæðinu, því flestar ár og lækir runnu til afrennslislausra lægða.  Þar settist ársetið fyrir, blandað uppleysanlegum kalk og saltkristöllum.  Þar sem jarðvegurinn í pönnunum er minnst saltur, sprettur gróður (aðallega grös) eftir úrkomu.

Í suður- og miðhlutum Kalahari finnst yfirborðsvatn aðeins á litlum blettum, sem langt er á milli.  Næstum allt regnvatn hverfur samstundis í djúpan sandinn.  Nokkuð af því geymist í gropnum berggrunninum, sumt leitar aftur til yfirborðs fyrir hárpípukraft og gufar upp og sumt ná trjárætur að nýta.  Lítill hluti úrkomunnar, sem fellur á sandlaus svæði, streymir stuttan veg niður í pönnurnar á meðan rigningin varir.  Þarna eru merki um ævaforn vatnasvið, sem hafa fundizt af landi og úr lofti.  Engin þeirra eru virk á okkar dögum.

Vatnasvið Norður-Kalahari er mjög sérstakt.  Á sumrin er úrkomusamt á hálendi Angóla, langt norðvestan Kalahari.  Mikið vatnsmagn fyllir farvegi dragáa, sem falla til fljóta með suðurstefnu og mynda Okavango- og Cuandoárnar.  Okavangoáin rennur til suðausturs, inn í nyrztu hluta Kalahari, og kvíslast þar og rennur til mýranna í Norður-Botswana.  Sé úrkoman óvenjumikil í Angóla, yfirfyllast mýrarnar og Ngami-vatn, lengra til suðurs, yfirfyllist og flæðir til Botetiárinnar, sem rennur til Xau-vatns og Makgadikadi-pannanna.  Cuandoáin rennur einnig til suðurs, að hluta inn í norðausturhluta sömu mýra.  Þarna eru því miklar andstæður, gífurlegt þurrkasvæði og mikið votlendi hlið við hlið.

Jarðvegur er aðallega sendinn, rauður og lítt lífrænn.  Hann er einnig talsvert súr og mjög þurr.  Í pönnunum og nágrenni þeirra er hann yfirleitt mjög kalk- og saltríkur, þannig að fáar plöntur þrífast í honum.

Loftslagið.  Svæði, sem njóta minna en 250 mm úrkomu á ári, eru kölluð eyðimerkur.  Þó má skilgreina þetta hugtak betur með því að bæta við, að uppgufun slíkra svæða sé tvöföld á við úrkomuna.  Hvort tveggja á við í suðvesturhluta Kalahari.  Norðausturhlutinn nýtur miklu meiri úrkomu og getur því ekki talizt eyðimörk, þótt þar skorti algerlega yfirborðsvatn.  Þar hverfur úrkoman strax í sandinn, þannig að enginn raki verður eftir í jarðveginum.

Rakt loft berst frá Indlandshafi og úrkoman er mest í norðausturhlutanum (>500 mm) og minnkar til suðvesturs (<250 mm).  Úrkoman er engu að síður mjög mismunandi.  Mestur hluti hennar fellur á sumrin, þegar þrumuveðrin ganga yfir.  Hún er mjög mismunandi milli svæða og ára.  Veturnir eru geysiþurrir og rakastig lágt.  Svæðið er úrkomulaust í 6 til 8 mánuði á ári.

Dægur- og árstíðasveiflur hitans eru mjög miklar, einkum vegna hæðar Kalahari yfir sjó.  Loftið er oftast tært og þurrt, þannig að það safnar miklum hita á daginn, þegar sólin skin, en um nætur er útgeislun gríðarleg.  Meðalhitinn í skugga á sumardegi er 43-46°C en 21-27°C á nóttunni.  Um vetrarnætur getur hitastigið farið langt niður fyrir frostmark (12°C).

Flóran.  Sandurinn, sem hylur mestan hluta eyðimerkurinnar, hefur mikil áhrif á gróðursamfélagið.  Grunnrættar plöntur ná ekki að þrauka en rótardýpri plöntur þroskast hratt og sá sér eftir úrkomu.  Séu tré nægilega rótardjúp, ná þau vætu úr rökum sandlögum og þrífast vel.

Í þurrum suðvesturhlutanum eru fá tré og stórir runnar, aðeins þurrkaþolinn runnagróður og lágvaxin grös.  Í miðhlutanum, þar sem úrkoma er meiri, eru tré á stangli (akadíur), runnar og grös. Norðurhlutinn líkist alls ekki eyðimörk.  Þar eru skógasvæði, pálmar, barr- og lauftré, sem verða allt að 16 m há og nýtast í timbur.  Meðal hæstu og sérstæðustu trjánna er tegundin baobab.  Okawangofenin eru undirstaða þétts sefgróðurs, papýrus, vatnalilja og annarra vatnajurta.

Fánan er einnig ríkulegri og fjölbreyttari í norðurhlutanum.  Margar dýrategundir hafast við í suðurhlutanum mánuðum saman ár hvert, þrátt fyrir vatnsleysi á yfirborðinu.  Aðaltegundirnar þar eru stökkantelópan, gnýrinn og harte-antelópan (Bubalis og Alcelaphus), sem eru oft í stórum hjörðum, oryx-antelópan, eland-antelópan og margar minni tegundir, sem eru ekki hjarðdýr, s.s. kudu-antelópan (á þéttum runnasvæðum), steenbok-antelópan og duiker-antlópan.

Talsvert er um gíraffa, sebradýr, fíla, buffala og antelópur (roan-, sverð-, tsessebe- og impala-) í norðurhlutanum.  Þar eru einnig rándýr, ljón, blettatígrar, hlébarðar, villihundar og refir.  Meðal annarra miðlungsstórra spendýra eru sjakalar, hýenur, vörtusvín, babúnar, greifingjar, mauraætur, maurabirnir, hérar og broddgeltir.  Smærri dýrin eru m.a. nagdýr, nokkrar tegundir snáka og eðlna og fuglalífið er mjög fjölbreytt.

Fólkið og afkoman.  Íbúar Kalahari eru aðallega bantumælandi afríkumenn og khoisamælandi sanfólk auk nokkurra Evrópumanna.

Bantufólkið, tswana, kgalagadi og herero, er tiltölulega nýkomið á þetta svæði.  Síðla á 18. öld dreifðust tswanar til vesturs frá Limpopolægðinni um Norður- og Austur-Kalahari.  Kgalagadimenn fluttust úr norðri og vestri inn á Suður- og Vestur-Kalahari.  Hererofólkið, sem var á flótta frá þýzku nýlendustríðunum í Suðvestur-Afríku (Namibíu), settist að í Vestur- og Norður-Kalahari í upphafi 20. aldar.

Afskekktari íbúar, sem búa á vanþróuðum svæðum í 200-5000 manna þorpum.  Húsin eru að mestu hefðbundnir eins herbergis kofar með leirveggjum og stráþökum.  Byggðirnar eru þar sem drykkjarhæft vatn finnst.

Nautgripir eru undirstaða búskapar þeirra.  Þeim er haldið í útjöðrum þorpanna eða í úthögum, allt að 80 km að heiman.  Í Ghanzi-héraði í Botswana fer nautgriparæktin fram á stórum, einkareknum búgörðum, sem eru margir í eigu Afríkumanna, en beitilöndin eru eign ríkisins, sem sér um nýtingu þeirra.  Brunnar og borholur eru í eigu ríkisins, nautgripabænda eða einstaklinga.  Nautgripunum er beitt á ríkislendunum í grennd við búgarðana allt árið.  Þegar sumarúrkoman er meiri en í meðallagi eru gripirnir reknir til fjarlægra beitarlanda, þar sem hægt er að finna vatn til að brynna þeim.  Lítil áherzla er lögð á beitarstjórnun, þannig að ofbeit er mikil.  Þessi beitarsvæði blása upp og eyðimörkin verður æ stærri.  Naugripir eru verðlagðir langt umfram verðgildi þeirra, þar sem þeir eru tákn þjóðfélagsstöðu eigendanna.  Af þessum sökum fjölgar þeim stöðugt og beitarálagið eykst að sama skapi á þegar ofnýttum svæðum.  Helztu afföllin eru tengd þurrkum, sjúkdómum, sníkjudýrum og rándýrum en þau hafa minnkað í samræmi við fjölgun vatnsbóla (borholna), aukinni þjónustu dýralækna og fækkun villtra dýrategunda á þessum svæðum.  Auðugir bændur hafa bætt hjarðir sínar með kaupum úrvalsgripa og vísindalegri ræktun.

Geitur sjá íbúunum fyrir mestum hluta kjöts og mjólkur og langflest heimili rækta maís, fóðurgras (sorghum) og grasker.  Oftar en ekki bregst uppskeran vegna þurrka.  Villtar, ætilegar jurtir og villibráð eru mikilvæg uppistaða í fæðunni í smærri og afskekktari byggðum.  Flest gamalgróin þorp hafa eigin verzlun eða reiða sig á reglulegar heimsóknir farandsala, sem selja matvæli og aðrar nauðsynjar.

Ríkisbarnaskólar eru í öllum stærri byggðum og langflest börn sækja þá, þótt fæst þeirra haldi áfram í skóla að þeirri menntun lokinni.  Heilsugæzlustöðvar og sjúkrahús ríkisins í þessum byggðum eru nauðsynleg viðbót við grasalækna og töframenn.

Samgöngur innan byggðarlaganna byggjast á ösnum og hestum en vörubílar kaupmanna eða námufyrirtækja eru notaðir til lengri ferðalaga.

Miklar birgðir demanta fundust í Botswana skömmu eftir að landið varð sjálfstætt.  Opnun demantanámunnar í Orapa árið 1971 markaði upphaf námuvinnslu á svæðum vítt og breitt um Kalahari.  Ferðaþjónusta og sala handverksmuna eru orðin mikilvæg tekjulind.

Sanfólkið eða basarwa, eins og það er kallað víðast hvar, eru nú annaðhvort skjólstæðingar bantufólksins og vinna við nautgriparæktina eða stunda störf á búgörðunum í Ghanzi-héraði.  Enn þá lifa nokkrir sanmenn sem veiðimenn og safnarar.  Ríkisstjórn Botswana hefur flutt marga þeirra frá heimkynnum sínum til nýrra þorpa við dýraverndarsvæðið í Mið-Kalahari.

Ættbálkar sanfólksins bjuggu við mismunandi félagslegar aðstæður og menningu, þótt líf þess byggðist á veiðimennsku og söfnun.  Fjöldi þeirra hafði löngum verið í tengslum við bantubændur, þegar aðrir ættbálkar snéru frá veiði og söfnun á áttunda áratugi 20. aldar.  Meðal hinna síðarnefndu voru !kung- og /xong- og G/wifólkið (! og / = klikkhljóð), sem mannfræðingar kynntu sér rækilega.  Hver hópur hafði sín sérkenni en G/wifólkið á miðverndarsvæðinu telst hefðbundnast þessara ættbálka í veiðum og söfnun.

G/wifólkið bjó saman í hópum, 5-16 heimili, sem tengdust ættar- og vináttuböndum.  Hver hópur helgaði sér afmarkað svæði (300-400 fermílur) til að safna ætum jurtum, sem voru aðaluppistaða fæðunnar.  Þar eru vatnsból á regntímanum í 6-8 vikur, tré, sem veita skugga, skjól, eldivið og við í ýmsa muni, og beitarlönd fyrir villta grasbíta, sem g/wifólkið veiddi.  Sjálfsþurftarbúskapurin byggðist á fjölda tegunda ætilegra plantna og villibráð (antelópur og aðrir grasbítar, skjaldbökur og kjöt og egg gamma og annarra ránfugla).  Söfnun planta og róta var að mestu hlutverk kvenna innan 8 km radíuss bústaðanna en karlarnir stunduðu veiðar á miklu stærra svæði.  Helztu vopn þeirra voru léttir bogar og eitraðar örvar.  Þeir drógu lengst 23 m, þannig að veiðmennirnir urðu að beita allri sinni hæfni til að komast nálægt bráðinni.  Antelópuhúðir voru notaðar til klæðagerðar.  Skykkjur úr þessu efni voru algengar og þær voru einnig notaðar sem ábreiður og burðarpokar.

Frá nóvember til loka júní eða ágústbyrjunar er næga fæðu að finna og hóparnir bjuggu saman en færðu sig milli staða á þriggja til fjögurra vikna fresti, þegar fór að ganga á fæðubirgðirnar.  Plönturnar visna í frostum á veturna (maí-september) og hóparnir dreifðust til síns heima á mismunandi stöðum á svæðinu.  Snemmsprottnar plöntur juku fæðuvalið áður en regntíminn gengur í garð og hóparnir sameinuðust aftur.  Á þurrkatímanum voru skýli fólksins lítið annað en skjólveggir úr trjágreinum og stráum.  Um regntímann skýldi fólkið sér undir vatnsþéttum stráþökum.

Evrópumenn.  Fyrstu Evrópumennirnir komu til Kalahari sem ferðamenn, trúboðar, fílaveiðimenn og kaupmenn snemma á 19. öld.  Eina byggð þeirra var í Ghanzi-héraði, þar sem fjöldi fjöldskyldna fékk land til búskapar eftir 1890.  Fram til sjöunda áratugar 20. aldar lifðu þeir í einangrun og fátækt en síðan þá hefur þeim tekizt að eignast land og bæta lífsskilyrði sín.  Flestir annarra hvítra manna á Kalaharisvæðinu eru embættismenn eða sjálfstæðir atvinnurekendur.

Samgöngur.  Vegna þess, hve Kalahari er strjálbýlt svæði, liggja fáir vegir og slóðar um það og víðast eru þeir einungis færir fjórhjóladrifnum farartækjum.  Vegir, sem er haldið við, liggja milli stjórnsýslumiðstöðva, stærstu byggða og landbúnaðarsvæða í suður-, suðvestur- og norðvesturhlutunum.  Uppbyggðir vegir tengja nú Austur-Botswana og Okavangofenin og námusvæðin sunnan Makgadikgadilægðanna (pannanna).

Rannsóknir og könnun.  Skortur á yfirborðsvatni og þykk sandlög voru aðalhindranir í vegi fyrstu ferðamannanna um Kalahari.  Skozki trúboðinn og landkönnuðurinn David Livingstone komst yfir Kalahari með miklum harmkvælum með aðstoð innfæddra árið 1849.  A árunum 1878-79 fór hópur búa yfir eyðimörkina frá Transvaal til Mið-Angóla.  Alls dóu 250 manns á leiðinni og 9000 nautgripir féllu, aðallega úr þorsta.  Vélknúin farartæki ollu samgöngubyltingu en allt fram á sjötta áratug 20. aldar höfðu engir aðkomumenn heimsótt erfiðustu og afskekktustu svæði Kalahari.  Um miðjan áttunda áratuginn voru farartækin orðin nógu fullkomin til að leggja alla eyðimörkina undir til könnunar, veiða og skoðunarferða.

SPRENGISANDUR
Ódáðahraun

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM