Mombasa eyja meira Kenja,


MOMBASAEYJA MEIRA
KENJA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Gamli bærinn.  Borgin er að mestu leyti á Mombasaeyju, sem er tengd meginlandinu með hraðbrautarbrúnni Nýjubrú og Likoniferjunni.  Gamli bærinn óx upp meðfram Tudorsundinu en þegar viðskipti jukust á fyrri hluta 20. aldar og höfnin varð of lítil, var ný höfn gerð við Kilindini sunnan eyjarinnar.  Þetta varð til þess, að gamla hafnarhverfið fékk að standa óhreyft og er ómetanlegt minnismerki um fortíðina.  Yfirbragð þess er blanda af arabískum og indverskum áhrifum og þröngar göturnar, sumar óbílfærar, eru eins og völundarhús.  Þar eru margar fallegar útskornar hurðir og svalirnar teygjast út yfir þær.  Þarna er mikið um gull- og silfursmiði auk annarra verzlana, sem stunda margar veruleg innflutningsviðskipti, þótt ytra útlit þeirra bendi ekki til þess.

Við gömlu höfnina er torg umkringt Tollhúsinu, fiskmarkaði og teppabúðum, sem bjóða líka fagurlega útskornar viðarkistur og látúnsmuni frá Persaflóasvæðinu.  Skammt frá torginu er verzlun, sem selur vínandalaus ilmvötn til að mæta kröfum kvenmúslima.  Venjulega liggja nokkur dhowskip frá Lamu eða Sómalíu við akkeri í höfninni.  Þau flytja ávexti, þurrkaðan fisk og aðrar vörutegundir.  Á tímabilinu frá desember til apríl (tími „kusimonsúnsins”) má sjá stór hafskip (seglskip), sem eru lengra að komin.  Fjöldi þessara skipa er aðeins svipur hjá sjón miðað við hinn geysistóra flota slíkra skipa, sem annaðist útflutning og aðdrætti fyrrum.  Þau voru hlaðin alls konar varningi, fílabeini og þrælum.  Flest þessara skipa hafa nú dísilhjálparvélar auk þríhyrndu seglanna.  Þarna nærri stendur Jesúsvirkið (1593) með safni gripa frá strandhéruðunum, s.s. leirmuni og útskornar hurðir.  Virkið er hluti Þjóðminjasafns Kenja og aðgangseyrir er ekki hár.

Mombasa stækkaði hratt á 20. öldinni og eftir 1930 teygðist hún yfir á meginlandið.  Meðfram Digo Road eru mörg guðshús, kirkjur, moskur og hindúahof.  Þar eru stjórnarbyggingar frá fyrstu dögum nýlendutímans, götumarkaðir með minjagripum, ávöxtum og litríkum fatnaði og fjöldi götusala, sem selja kaffi, kókoshnetumjólk, ristaðan maís og „cassava” (sterkja úr rótum manihotjurtarinnar, sem er notuð til brauðgerðar, búðingsgerðar og til að þykkja súpur).  Ný skrifstofustórhýsi stinga í stúf við gömlu húsin, s.s. pósthúsið og nýtízkuverzlanir, sem bjóða allt milli himins og jarðar frá öllum heimshornum.  Moi Avenue tengir gömlu og nýju hafnirnar og hýsir flestar ferðaskrifstofur, skipamiðlara og betri hótelin, bari og veitingahús.  Yfir báðar akbrautir þessarar götu  teygjast kennimerki borgarinnar, fjórar risavaxnar fílstennur úr stáli.  Þetta merki var reist til minningar um heimsókn Elísabetar drottningar árið 1952.  Rétt við minnismerkið er upplýsingamiðstöð ferðamanna og innan seilingar er skemmtigarður með Uhuru- (Frelsis-) minnismerkinu.  Einhverjir ráfa alltaf áfram niður á bryggjurnar við Kilindinihöfnina, sem er nýtískuleg, með öllum tilheyrandi tólum og tækjum og er sífellt að stækka.  Kvöldganga um Mama Mgina Drive gefur kost á því að anda að sér svölu kvöldloftinu í slagtogi við innfædda íbúa borgarinnar.

Mombasa er yfirlætislaus og óstressuð, svo að gestir hennar verða fljótlega jafnrólegir og íbúarnir.  Rétt er að klæðast léttum, áprentuðum baðmullarfatnaði (kikoi sarong, khanzu), sem fæst á sanngjörnu verði eftir nokkuð prútt við útsmogna kaupmennina í Biashara Street (Basargötu).

Á kvöldin hristir borgin af sér hitadrunga dagsins og næturlífið lifnar við.  Það er hægt að fara út að borða kvöldmat og dansa í rólegu umhverfi strandhótelanna eða fara í fatafelluklúbbana eða á sjómannabarina.  Spilavítið er tiltölulega nýtt af nálinni og kvikmynda- og leikhús fyrir þá, sem vilja hvíla sig á raunveruleikanum.

Fjölbreytni í matarvali er mikil í veitingahúsunum, sem bjóða arabískan, kínverskan, indverskan, pakistanskan og evrópskan mat.  Sjávarréttir eru ódýrir og vel úti látnir.  Hótel borgarinnar eru verjulega hvergi nærri því eins nýtízkulega og beztu strandhótelin, því að þau hafa frá upphafi annast fólk í viðskiptaerindum eingöngu.  Engu að síður eru þau flest þægileg og ekki of dýr.

Það eru engar baðstrendur á Mombasaeyju sjálfri en hin ótrúlega „Kóralströnd” norðan og sunnan eyjarinnar er skammt undan.  Skoðunarferðir til fjarlægari staða, Tsavo þjóðgarðsins og Shimba Hills þjóðgarðsins, annast innfæddir skipuleggjendur eða bílaleigur.

Einnig er hægt að fara í skoðunarferðir til nærliggjandi staða, t.d. til Freretown, þar sem er ein elzta kirkja í Austur-Afríku.  Þessi byggð fyrir frelsaða þræla var stofnaði Sir Bartle Frere á áttunda áratugi 19. aldar og margir afkomenda þeirra búa þar enn þá.  Frá Nýjubrú er skammur vegur að minnismerki Dr. Johann L. Krapf, fyrsta kristna trúboðans (eftir veru Portúgala) og gröf hinnar ungu fjölskyldu hans, sem dó úr hitasótt 1844.

Princes skemmtigarðurinn er þar í grenndinni.  Hann nær að Mackenzie Point.  Hertogarnir af Cloucester og Windsor gáfu borgarbúum þetta landsvæði sem útivistarsvæði fyrir borgarbúa.  Nú á dögum er Mombasa landbúnaðarsýningin haldin þar reglulega.  Bein framundan frá brúnni er Nyaliherragarðurinn, fallegasta garðsvæði borgarinnar með mjög góðri strönd, íþróttaklúbbi, 12 holu golfvelli og þremur beztu hótelunum á strandlengju A.-Afríku.

Það er líka gaman að heimsækja wakamba-tréskurðarmennina, sem eru við Flugvallarveginn, þar sem hann kvíslast frá aðalleiðinni til Næróbí við Changamwe.  Mörg útskorin dýr, sem fást í minjagripaverzlunum borgarinnar, komu úr höndum þessara listamanna, sem hafa fjöldann allan af öðrum og óvenjulegum munum til sýnis og sölu.

Í Mazeras, u.þ.b. 19 km (12 m.), áleiðis á Næróbíveginum, eru litlir grasagarðar með alls konar runnagróðri, blómum og trjám, sem mörg hver eru notuð til að skreyta götur borgarinnar og opinbera garða.

Trúboðsstöðvarnar í Rabai og Ribe, stofnaðar af lúterskum prestum á 19. öld, eru nokkra km inni í landi í grennd við Mariakani.  Sautján km lengra er hefðbundið stauragirt þorp (kaya), sem giriamaættkvíslin býr í.

Mombasa er óhjákvæmilega aðalsamgöngumiðstöð strandhéraðanna.  Þar er Moi-alþjóðaflugvöllurinn, sem var stækkaður nægilega til að taka við stærstu flugvélum heims.  Flugfélag Kenja og önnur minni annast innanlandsflug og flug til áfangastaða ferðamanna.  Vilji fólk fara í gamaldags safariferð með lest, hefst hún frá brautarstöð í miðborginni.  Þar eru líka strætisvagna- og umferðarmiðstöðvar til ferða í allar áttir og svo auðvitað leigubílastöðvar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM