Lesótó sagan,


LESÓTÓ
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Khoisan-mælandi veiðimenn og safnarar bjuggu á landsvæði Lesotho á steinöld.  Frá því á 16. öld fluttust afrískir bændur, forfeður núverandi íbúa, yfir gresjur Suður-Afríku og settust að í frjósömum dölum Kaledónárinnar, þvar sem þeir réðu yfir veiðimönnum svæðisins.  Þessir kvikfjárræktarbændur voru hluti hins stóra sotho-kynþáttar og skiptust í fjölda ættbálka, sem voru undir stjórn höfðingja og bjuggu í þorpum.

Sotho-konungsdæmið 1824-69.  Ósætti og ofbeldi milli ættbálkanna í Suður-Afríku snemma á 19. öld magnaðist í Lesotho á þriðja tugi 19. aldar.  Á þessum óróatímum (lifaqane = yfirbugun) var mörgum ættbálkum útrýmt, margir hraktir að heiman eða innlimaðir í stærri og öflugri ríki. 

Leiðtogar hinna nýju ríkja gátu boðið meiri vernd.  Einn þeirra var Mshweshwe af moketeli-ætt, afsprengi kwena-ættarinnar (bakwena).  Árið 1824 lagði hann Thaba Bosiu (Bosigo) (Næturfjall) undir sig, kom sér vel fyrir þar og efldi varnir.  Þaðan fór hann í herferðir og lagði smám saman undir sig stórt svæði, sem varð að Konungsríkinu Sotho (Basutoland).  Mshweshwe var kænn stjórnmálamaður.  Með samstarfi við mörg höfðingjadæmi og mægðum við höfðingja tókst honum að skapa samhyggð og samheldni íbúa ríkis sins og nýta sér hana til varnar gegn árásarmönnum, sem ógnuðu veldi hans.  Hann lagði áherzlu á, að sífellt fleiri bændur, landnemar, veiðimenn og ævintýramenn, sem komu úr suðri og settust að í ríki hans, væru þekkingarlind fyrir aðra landsmenn.  Hann bauð trúboða Evangelísku trúboðasamtakanna í París velkomna, þegar þeir komu til Thaba Bosiu árið 1833, því hann vildi fræðast um heiminn.  Hann kom þeim fyrir á hernaðarlega mikilvægum stöðum í ríkinu, þar sem þeir voru fyrstir til að boða kristni, kenna lestur og skrift og framleiðslu vörur til að verzla með. 

Árið 1834 hófu margir búar frá Höfðanýlendu landnám á vesturjaðri konungsdæmisins og ágirntust jarðir sotho-manna.  Næstu þrjá áratugina linnti ekki deilum og blóðugum átökum af þessum sökum.  Loks misstu sotho-menn mestan hluta landsins vestan Kaledónárinnar og þar stofnuðu búar fríríkið Orange.  Mshweshwe leitaði til Breta, sem tóku þátt í átökunum, en gátu ekki leyst deiluna um landamærin.

Í skálmöldinni síðla á sjöunda áratugi 19. aldar bað Mwhweshwe Breta aftur um aðstoð, því hann óttaðist, að þegnar hans yrðu annaðhvort hraktir að heiman eða þeim yrði útrýmt.  Sir Philip Wodehouse, landstjóri Höfðanýlendu, hafði áhyggjur af stöðugleikanum á svæðinu og hagsmunum Breta í Suður-Afríku, setti konungsríkið undir brezku krúnuna.

Basutoland var brezkt verndarsvæði þar til Mshweshwe lézt árið 1870.  Hann var grafinn á Thaba Bosigo.  Næsta ár var verndarsvæðið innlimað í Höfðanýlendu án samþykkis íbúa Basutolands.  Þetta fyrrum sjálfstæða konungsríki missti mikinn hluta frjósamasta lands sins til búa og stjórnmálalegt frelsi sitt til Breta.  Engu að síður héldu sotho-menn nokkru af landi sínu og félagslegu og menningarlegu sjálfstæði.

Basutoland (1871-1966).  Tilraunir yfirvalda Höfðanýlendu til að afvopna sotho-menn leiddu til Byssustríðsins 1880-81.  Höfðanýlenda afsalaði sér Basutolandi til Brezka æðstanýlenduráðsins 1884.  Þróunin í Suður-Afríku á þessum tímum átti eftir að hafa afgerandi áhrif á framtíð Basutolands og verða grundvöllur sambandsríkisins Suður-Afríku (1910).  Smám saman rúði hvíti minnihlutinn innfædda mannréttindum og landi til að öðlast yfirstjórn, ódýrt vinnuafl og drepa niður samkeppni óháðra bænda.  Bændur sotho-manna seldu afurðir sínar á mörkuðum hinna sístækkandi námuborga og aðrir fóru að vinna í námunum fyrir kaupi í beinhörðum peningum eða fengu greitt með skotvopnum.

Saga Lesotho á 20. öldinni einkenndist af sívaxandi þörf fyrir farandverkafólk í Suður-Afríku.  Hún skapaðist m.a. vegna aukinnar skattheimtu, fjölgunar íbúa innan lokaðra landamæra, jarðvegseyðingar og nýtingar náttúruauðæfa, sem kom í stað landbúnaðar.  Verkamenn frá Basutolandi urðu mikilvægir fyrir námuiðnaðinn og þeir byggðu lífsafkomu sína á þessari vinnu.

Bretar komu upp valdaskiptingu og fólu aðalhöfðingjum sotho-manna, sem voru allir afkomendur Mshweshwe,  talsverð völd (Letsie 1870-91; Lerotholi 1891-1905; Letsie II 1905-13; Griffith 1913-39; Seeiso 1939-40; Mantsebo 1940-60).  Þessir höfðingjar fólu ættstórum héraðshöfðingjum hluta valdsins.  Þeir beittu hefðbundum lögum sotho-manna, þar sem höfðingjarnir réðu skiptingu landsins milli þegnanna og skipuðu málum þeirra að öðru leyti.  Nýlendustjórnin var í höndum landstjórans, sem naut aðstoðar Þjóðarráðs Basutolands.

Brezka stjórnin hafði aðallega hönd í bagga með fjárlög Basutolands, sem byggðust að talsverðu leyti á tekjum þegnanna af vinnu í Suður-Afríku.  Héraðshöfðingjar gátu lítið gert til að stemma stigu við vaxandi vandamálum á sviði félags- og efnahagsmála.  Trúboðasamtök sáu um menntunina.  Á árunum 1929-33 olli heimskreppan og miklir þurrkar fólksflutningum til Suður-Afríku, þannig að næsta áratuginn var fólksfjölgun í Basutolandi mjög hæg.

Andstaðan gegn nýlendukerfinu óx en engine samtök voru nógu sterk til að standa uppi í hárinu á nýlendustjórninni og bandamönnum hennar.  Einn sameiningarþátturinn var andstaðan gegn innlimun Basutolands í Suður-Afríku og óttinn við, að Bretar létu af henni verða án þess að hafa samráð við sotho-menn.

Á fjórða áratugi 20. aldar var reynt að fækka höfðingjum en eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar rúmlega 20.000 sotho-menn voru í herþjónustu Breta í Norður-Afríku, Evrópu og Miðausturlöndum, varð áherzla þjóðernisflokka á sjálfstæði Basutolands sett ofar félagslegum umbótum.  Þrír aðalflokkar fæddust á þessu tímabili, Þingflokkur Basutolands (BCP) 1952 (Ntsu Mokhehle), hinn íhaldssamari Þjóðarflokkur Basutolands (BNP) 1958 (Leabua Jonathan; höfðingjavald og katólska kirkjan) og Frelsisflokkur Marema-Tlou árið 1963, sem lagði áherzlu á völd höfðingja landsins.

Í kosningunum 1965 náði Þjóðarflokkur Leabua naumum meirihluta fram yfir Þingflokk Ntsu með dyggum stuðningi katólsku kirkjunnar og hvítra hagsmunaaðila í Suður-Afríku.  Hinn 4. október 1966 fékk Basutoland sjálfstæði frá Bretum sem konungsríkið Lesotho með Moshoeshoe II, landsföðurinn, í fararbroddi.

Konungsríkið Lesotho, fyrstu tveir áratugirnir.  Vegna fátæktar og ofsetningar var landið ofnýtt, ríkisstjórn þess stólaði á styrki frá Bretum, greiðslur frá tollabandalaginu við Suður-Afríku og tekjur farandverkamanna.

Í fyrstu almennu kosningunum eftir að landið fékk sjálfstæði (janúar 1970) fékk stjórnarandstaðan, Þingflokkur Mokhehle, meirihluta.  Niðurstöður kosninganna voru aldrei birtar og höfðinginn Jonathan afnam stjórnarskrána, fangelsaði leiðtoga stjórnarandstöðunnar og rak konunginn úr landi um tíma.  Andstaðan gegn þessum aðgerðum brauzt út í talsverðu ofbeldi og að skömmum tíma liðnum viðurkenndu Bretar nýju stjórnina.

Hinn ríkjandi flokkur beitti lögum og ofbeldi til að þagga niður í andstæðingum sínum.  Árið 1974 reyndi Þingflokkurinn að steypa stjórninni en hafði ekki árangur sem erfiði.  Formaður flokksins, Mokhehle fór í útlegð.

Á áttunda áratugnum fékk Lesotho vaxandi aðstoð erlendra ríkja til að berjast gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.  Þessi stuðningur stuðlaði að nútímavæðingu og þróun borga, efnahagsumbótum, bættri menntun og samgöngum.  Talsvert af efnahagsaðstoðinni rann í vasa útvaldra, þannig að samtímis varð til forréttindastétt í landinu.  Aðstoðin dugði því ekki til að stuðla að langvarandi hagsbótum og fátæktin var ekki yfirunnin.  Laun farandverkamanna í námum Suður-Afríku hækkuðu einnig á þessu tímabili.  Þetta aukna fjármagn var ekki nýtt nægilega skynsamlega, þannig að Lesotho hélt áfram að vera háð Suður-Afríku.

Fjandskapur ríkisstjórnar Lesotho í garð Suður-Afríkumanna jókst til muna, þegar hún fór að taka við flóttamönnum frá Suður-Afríku.  Hluti af aðgerðum stjórnar Suður-Afríku til að skapa glundroða í Lesotho var stuðningur við hernaðarvæng BCP og frelsisher Lesotho.  Í desember 1982 réðist suðurafríska varnarliðið (SADF) á hús í Maseru, sem þeir töldu hýsa skæruliða Afríska þjóðarráðsins, og drápu rúmlega 40 manns.  Sumir þeirra voru Lesotho-búar.  Sambandið milli stjórna þessara landa versnaði stöðugt, þegar Suður-Afríkumenn kröfðust brottreksturs suðurafrískra flóttamanna frá Lesotho.

Klofings fór að gæta í  ríkisstjórn Lesotho.  Einn hópurinn hvatti til hógværari stefnu gagnvart Suður-Afríku.  Í janúar 1986 settu Suður-Afríkumenn strangar reglur um umferð fólks og vöruflutninga um landamæri ríkjanna, þannig að þau lokuðust í rauninni.  Viðbrögð vinveitta klofningshópsins undir forystu Justin Lkhanya, hershöfðingja, voru að setja Jonathan af og koma á herstjórn með konunginn í æðstu stöðu.

Þegar herstjórnin bannaði stjórnmálastarfsemi og rak fjölda suðurafrískra flóttamanna úr landi, opnaði Suður-Afríkustjórn landamærin.  Í október 1986 undirrituðu ríkin samning um vatnsnotkun (Highlands Water Treaty) og næsta ár kom suðurafrísk viðskiptanefnd sér fyrir í Lesotho.  Efnahagur Lesotho breyttist ekki til batnaðar og kreppan í Suður-Afríku versnaði vegna samdráttar í gullframleiðslu.

Konungsdæmið eftir 1990.  Í febrúar 1990 komu upp deilur meðal ráðamanna og Moshoeshoe konungur neitaði að samþykkja nokkrar ákvarðanir herstjórnarinnar.  Hann var sendur í útlegð og elzti sonur hans settist í hásætið sem Letsie III.  Í apríl 1991 neyddist Lekhanya til að segja af sér og eftirmaður hans, Elias Tutsoane Ramaema, ofursti, afnam bann við stjórnmálastarfsemi og lofaði nýrri stjórnarskrá.  Efnahags- og stjórnmálakreppunni linnti ekki og óreirðir brutust út í Maseru í maí.  Í almennum kosningum í marz 1993 komst BCP til valda undir forystu Ntsu Mokhehle.  Letsie III reyndi árangurslaust að hrekja stjórnina frá völdum og faðir hans var kallaður heim í stað hans í janúar 1995.  Hann lézt innan árs og Letsie III settist aftur í hásætið.

Ástandið í Suður-Afríku hafði mikil áhrif í Lesotho og ekki bætti innanlandskreppan, og stjórnmálaóreiðan úr skák.  Þegar alþjóðasamfélagið aflétti viðskiptaþvingunum gegn Suður-Afríku, glataði Lesotho forskoti sínu sem ríki innan landamæra Suður-Afríku en ekki hluti.  Einu kostirnir, sem eftir stóðu, voru hið ódýra vinnuafl landsins.  Minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli í Suður-Afríku olli miklu atvinnuleysi, aukinni stjórnmálaóreiðu og glæpatíðni jókst.  Óeirðir, sem beindust gegn asískum fyrirtækjum ollu miklum samdrætti í erlendum fjárfestingum.

Árið 1997 rak BCP leiðtoga sinn, Mokhehle, sem stofnaði þá eiginn flokk, Demókrataþing Lesotho (LCD).  Þessi nýi flokkur vann stórsigur í almennum kosningum í maí 1998.  Mokhehle sagði af sér og Pakalitha Mosisili varð forsætisráðherra.  Erlendir eftirlitsmenn með kosningunum kváðu þær hafa farið rétt og vel fram en engu að síður voru uppi háværar raddir um svik.  Stjórnarandstaðan hafði uppi mótmæli í Maseru og fjöldi ungra atvinnuleysingja tók undir með henni.  Eftir að mótmælendur vopnuðust stóð stjórnin frammi fyrir uppreisn og bað Suður-Afríkumenn og ríkisstjórn Botswana að senda herdeildir til Lesotho til að bæla hana niður.  Rán og íkveikjur voru daglegt brauð í Maseru og nærliggjandi borgum.  Lokst tókst hersveitum Suður-Afríkumanna að koma á lögum og reglu eftir að margar opinberar byggingar og flest fyrirtæki höfðu verið lögð í rúst.  Suður-Afríkumenn kröfðust nýrra kosninga um mitt ár 2000.  Stöðugleiki ríkti loks og hersveitirnar snéru heim í maí 1999.  LCD-stjórnin tók aftur við völdum 1998 undir stjórn Mosisili og undirritaði samning við Suður-Afríku um alræði stjórnarinnar með áheyrnarþátttöku stjórnarandstöðunnar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM