| 
           
        
        Malí er flatt og eiginlega ekkert
        nema sléttur og hásléttur auk afmarkaðs hálendissvæðis. 
        Suður- og suðvesturháslétturnar (framhald Fouta Kjallon- og Gíneuhálendisins
        á Fílabeinsströndinni og í Gíneu) er í 300-500 m hæð yfir sjó
        en ná rúmlega 600 m á Mandingue-sléttunni í grennd við Bamako og
        allt að 700 m í grennd við Satadougou. 
           
                    Háslétturnar í suðaustur- og
        austurhlutunum eru einnig framhald Gíneuhálendisins og þaktar lágum,
        stökum hæðum í allt að 300 m hæð yfir sjó á Sikasso-svæðinu
        en allt að 527 m á Minafjalli.  
        Austan Nígerflóts hallar Dogonsléttunni smám saman til vesturs að 
        fljótsdalnum en endar í þverhníptum hömrum að suðaustanverðu. 
        Þessi klettabelti eru allt að 1000 m há við Bandiagara. 
           
          
        Eina áberandi landslagseinkennið í norðurhlutanum
        er Iforasfjöll.  Þau eru
        framhald Hoggar-fjalllendisins í Sahara og eru mjög veðruð
        sandsteinsslétta, sem nær 600 m hæð yfir sjó. 
        Sléttur Nígerdalsins ná til mið- og norðurhluta landsins, þar
        sem Sahara tekur við. 
           
          Tvö aðalvatnasvið
        landsins eru tengd fljótunum Senegal og Níger. 
        Senegalfljótið rennur til norðvesturs, 670 km leið í gegnum
        Mali til Atlantshafsins.  Aðalkvíslarnar,
        Bafing og Bakoye (Bakhoy), eiga upptök sín á Fouta Djallon og
        sameinast við Bafoulabé.  Þaðan
        streymir fljótið til vesturs yfir slétturnar, þar sem það fellur
        niður tvo stalla og myndar fossana Gouina og Félou. 
           
          Nígerfljótið rennur rúmlega 1800 km leið um Malí, u.þ.b. þriðjung
        heildarlengdarinnar.  Það
        á upptök sín á Fouta Djallon og er orðið allstórt, þegar það
        kemur inn í landið í grennd við Kangaba. 
        Það rennur til norðausturs yfir Mandingue-hásléttuna, þar
        sem Sotuba-fossarnir myndast.  Þegar
        það nær til Koulikoro, dreifist það um breiðan dal og stemmir að
        ósi ásamt Baniánni við Mopti.  Nígerfljótið
        myndar mikið óshólmasvæði vegna þess hve landið er flat og
        straumurinn hægur.  Þarna
        er það í ótal kvíslum og vötnum. 
        Við Gourem sveigir það í stórri bugðu til suðurs (Nígerbugðan)
        og rennur fram hjá Gao og Ansongo að landamærum Níger við
        Labbezanga. 
           
          Rennsli Nígerfljótsins er mismunandi eftir árstíðum. 
        Á tímabilinu júlí til október er flóðvatn í efri hluta
        vatnakerfisins, á óshólmasvæðinu frá september til nóvember og í
        Nígerbugðunni frá desember til janúar. 
        Regluleg flóð og frjósamur framburður fljótsins gera Nígerdalinn
        að mikilvægu landbúnaðarsvæði. 
           
          Mali er í hitabeltinu og loftslagið er heitt og þurrt. 
        Sólin skin næstum í hvirfilpunkti allt árið, sem skiptist í
        þurrka- og regntíma.  Þurrkatíminn
        er frá nóvember til júní.  Þá
        er loftraki mikill og hiti hár og alize- og harmattanvindarnir ríkja. 
        Alizevindurinn kemur úr norðaustri frá desember til febrúar
        með 25°C hita en frá marz til júní ríkir hinn heiti og þurri
        harmattan úr austri frá Sahara (40°C-45°C). 
           
          Á regntímanum frá júní til október blæs monsúnvindurinn úr
        suðvestri.  Á undan honum kemur þykkur og dökkur skýjabakki og mikið
        rignir með kröftugum vindhviðum, þrumum og eldingum. 
        Talsvert dregur úr hita í ágúst, þegar mest rignir. 
           
          Landinu má skipta í þrjú loftslagsbelti, hið súdanska, Sahel og
        eyðimerkursvæðin.  Hið
        fyrstnefnda nær yfir svæðið frá suðvestur landamærunum að 15°N. 
        Þar er meðalársúrkoman 510-1400 mm og meðalhitinn
        24°C-30°C.  Í Sahel, sem nær að Sahara, er meðalúrkoman milli 200 og
        500 mm og hitinn milli 23°C og 36°C. 
        Í Sahara er hitinn á daginn milli 47°C og 60°C en á
        nóttunni fer hann niður í 4°C til 5°C.  |