| 
           
        
        Saharasvæðið í norðurhlutanum, þar sem fólkið býr aðeins í vinjum, er 
        alger andstaða Sahel-steppnanna í suðurhlutanum, þar sem regluleg úrkoma 
        gerir íbúunum kleift að rækta kvikfé og nokkuð af nytjaplöntum.  Stóru 
        háslétturnar Adrar og Tagant, sem eru þekktari undir nafninu Trab el-Hajra 
        (Steinaland), er Kjarni Máritaníu.  Þar eru nokkrar vinjar (Chinguetti, 
        Ouadane, Tîchît, Tidjikdja og Atar), sem voru stæði nokkurra kunnra 
        borga á miðöldum.  Norðar og vestar eru stórar eyðimerkur.  Nýting 
        Zouîrât-námanna og þróun Nouadhibou hafa breytt þessum landshluta, sem 
        var áður yfirgefinn, í efnahagslegan kjarna landsins. 
           
          Suðvesturstrandlengjan (Trarza cercle á nýlendutímanum) er þakin mjög 
        reglulegum sandöldum, sem eru mikilvæg beitilönd.  Márísku (berba) 
        marabout-fjölskyldurnar, sem þar búa, halda uppi arabískri menningu.  
        Inni í suðvestanverðu landinu búa márar og fulanimenn, sem stunda bæði 
        kvikfjárrækt og ræktun nytjaplantna.  Allrasyðst eru þorpin umkringd 
        hirsisökrum.  Í suðausturhl. er hin gríðarstóra Hodh-lægð með sandöldum 
        sínum, sandsléttum og geysivíðáttumiklum malar- og hnullungasléttum, þar 
        sem kvikfé er ræktað og talsvert samband er milli íbúanna og Malimanna. 
           
          Máritanía er hentugt land fyrir hirðingja.  Búfénaður þeirra sér þeim 
        fyrir mjólk og kjöti og þeir ferðast aðallega um á drómedörum og kamelum 
        auk þess sem þeir nota uxa og asna sem burðardýr í suðurhluta landsins.  
        Konurnar lita ull sauðfjárins, sem þær vefa síðan í dúk til tjaldagerðar.  
        Þær lita einnig geitaskinn til að gera úr þeim vatnsbelgi (querba).  
        Ferðir hirðingja ráðast af leit að vatni og beitarsvæðum.  Í Sahara 
        ráðast þær af óreglulegri úrkomu.  Í Sahel eru þær reglulegar eftir 
        árstíðum, til suðurs á þurrkatímanum og til baka um regntímann.  Stærðir 
        tjaldbúða hirðingjanna eru mismunandi frá norðri til suðurs.  Í 
        strandhéruðunum má búast við að finna allt að 300 tjöldum á sama staðnum 
        en í norðurhlutanum sjást aldrei nema nokkur tjöld í tjaldbúðunum. 
           
          Hið hefðbundna hirðingjalíf er á undanhaldi af ýmsum sökum, s.s. 
        breytingum í landbúnaði, stjórnmálum og viðskiptum.  Stíflur hafa verið 
        byggðar í árfarvegum til að geyma flóðvatn og ræktun pálma hefur aukizt 
        talsvert.  Hirðingjarnir hafa því dvalið lengur á slíkum áveitusvæðum í 
        grennd við hirsiakrana og pálmalundina í suðurhlutanum.  Allt frá 
        sjöunda áratugi 20. aldar hefur föst búseta meðal hirðingja aukizt, 
        aðallega vegna harðræðis hirðingjalífsins.  Þó hefur vatnsskortur verið 
        hemill á þessa þróun.  Einu landsvæðin, sem eru nýtileg til fastrar 
        búsetu eru allrasyðst, á bökkum Senegalfljóts.  Á áttunda áratugnum komu 
        þurrkar í veg fyrir búskap á Sahel-svæðinu.  Bæði hirðigjar og bændur 
        urðu þar fyrir miklum búsifjum. 
           
          Nýting járnnámanna í Ijill-fjalli og sjálfstæði landsins hafa gjörbreytt 
        búsetuháttum landsmanna.  Hinar fornu borgir, sem þróuðust í tengslum 
        við úlfaldalestirnar (Tîchît, Chinguetti, Ouadane og Oualâta) og 
        byggðust á viðskiptum við Dakar og Casablanca, muna fífil sinn fegri.  
        Atar og Tidjikdja eru hinar einu, sem einhvers athafnalífs gætir enn þá 
        í.  Kaédi við Senegalfljót hefur vaxið og vex enn.  Þrjár nýjar borgir 
        hafa byggzt, Nouakchott (höfuðborgin), Fdérik (Fort-Bouraud) og 
        Nouadhibou (Port-Étienne). 
        
        
        Nouakchott var stofnuð 1958.  Á tímum Ríkjasambands Vestur-Afríku var 
        Saint-Louis í Senegal höfuðborg Máritaníu.  Nouakchott er nærri sjó og 
        veitir aðgang að Sahara og Sahel.  Auk þess að vera aðalstjórnsýslusetur 
        landsins eykst mikilvægi hennar á viðskiptasviðinu.  Þar eru 
        prentsmiðjur, sjúkrahús og skólar.  Vatnsveita borgarinnar byggist á 
        verksmiðjum, sem eima sjó. 
           
          Fdérik er stjórnsýslumiðstöð í 25 km fjarlgæð frá námubænum Zouîrât.  
        Höfn Nouadhibou var löngum lítt nýtanleg var endurbætt verulega vegna 
        aukins útflutnings járngrýtis og fiskiðnaðar, sem var komið þar á fót.  
        Nokkrum kílómetrum sunnar er Cansado-íbúðahverfið. 
           
          Márar 
        eru fjölmennasti þjóðfélagshópurinn (2/3) og u.þ.b. helmingur þeirra er 
        hvítt fólk (bidan).  Hvítir márar eru af kyni berba og araba og hinir 
        svörtu súdanskir.  Samfélag mára byggðist á höfðingjaveldi.  Aðalsmenn 
        voru arabar (stríðsmenn) og murabits (marabouts) eða prestar og 
        fræðimenn kóransins.  Stríðsmennirnir voru oftast arabar og marabous 
        voru berbar.  Mestur hluti hvítra mára myndaði hina ráðandi stétt, sem 
        naut verndar stríðsmannanna eða marabouts gegn greiðslu. 
           
          Meðal mára störfuðu járnsmiðir og „griots” (tónlistarmenn og 
        ættfræðingar).  Meðal svörtu máranna myndaðist stétt þjóna, sem skiptist 
        í þræla (‘abid) og frelsingja (hartani).  Með tímanum urðu hinir svörtu 
        menntaðri og gátu því tekið við störfum á sviðum tækni og embættum 
        innanlands og utan, þegar landið fékk sjálfstæði.  Þessi þjónastétt varð 
        að embættismönnum og skriffinnum og meðal hennar gætti ört vaxandi 
        vitundar um borgararétt.  Þrælahald var afnumið á nýlendutíma Frakka og 
        opinberlega afnumið 5. júlí 1980.  Engu að síður berast sífellt fréttir 
        um ánauð. 
        
        
        Márar tala hassaniyah, sem er mállýzka byggð að mestu á arabískri 
        málfræði og blöndu af arabísku og berbamáli.  Flestir aðalsmenn eru 
        læsir og skrifandi á arabísku. 
           
          Aðrir 
        þjóðfélagsþegnar, sem eru oftast kallaðir kewrin, eru tukulor, sem búa í 
        árdal Senegalfljóts, fulanimenn, sem eru dreifðir um suðurhlutann, 
        Soninke, sem búa allrasyðst og volof (oulof), sem búa í umhverfi Rosso í 
        strandhéruðunum.  Tukulor og fulani tala Fulfulde (poular) og hinir 
        hóparnir hafa haldið eigin tungum.  Talið er, að fjórðungur íbúanna séu 
        hirðingjar og þriðjungur búi í borgum.  Vegna henna stóru eyðimarka er 
        Máritanía strjálbýlasta land Vestur-Afríku.  Í Senegaldalnum búa u.þ.b. 
        75% íbúa landsins.  Lífslíkur karla eru 44 ár og kvenna 47 ár.  Flestir 
        aðkomumenn í landinu eru Frakkar, sem starfa á sviðum tækni, viðskipta 
        og námuvinnslu.  Spánverjar er næststærsti hópur aðkomumanna.  Landsmenn 
        eru múslimar (99%).  Flestir márar tilheyra qadiriyah-grein islam.  
        Tukulor og hluti tagantmanna tilheyra tijaniyah-greininni.  |