| 
           
        
        Hitabeltisloftslag ríkir í landinu, sem liggur á milli loftslagssvæða 
        Sahara í norðri og hitabeltisins í suðri.  Um regntímann (marz-nóvember) 
        geisar rok og rigning daglega og snemma á morgnana einkennir þoka 
        veðurfarið.  Meðalársúrkoma er 1800 mm, aðallega í ágúst og sept. á efri 
        svæðum Ubangiárinnar og í Karrefjöllum er hún 1500 mm.  Þegar 
        suðvestanmonsúninn ríkir er meðalhitinn milli 19°C og 30°C.  
        Norðausturstaðvindarnir (harmattan) ríkja á þurrkatímanum (okt./nóv.
        
        - 
        feb./marz) og þá er hitastigið milli 18°C og 40°C.  Á daginn er heitt en 
        talsvert svalara um nætur.  Yfirleitt er himinninn heiður á 
        þurrkatímanum, en smám saman dregur upp á hann, þegar regntíminn nálgast, 
        án þess að rigni.  Allranyrzt í landinu geisa oft sandstormar. 
         
        Landið 
        er að mestu innan steppusvæða Afríku.  Norðurhlutinn er trjálaus en 
        suðurhlutinn er vaxinn þéttum regnskógi, einkum meðfram Ubangi- og 
        Sanghaánum.  Á steppunum er fjölbreyttur gróður, allt frá rytjulegum, 
        eld- og þurrkaþolnum trjám til blómlegra skógarsvæða við ár og læki. 
         
        Á 
        steppunum er fjöldi antílóputegunda, bavíanar, buffalar og fílar.  
        Svartir nashyrningar eru orðnir sjaldgæfir vegna ofveiði.  Í 
        regnskógunum er fánan fjölbreyttari, górillur, simpansar og aðrir 
        mannapar, hlébarðar og bongó, sem er í útrýmingarhættu.  Í ánum er 
        fjöldi fisktegunda, krókódílar og flóðhestar.  Fuglalífið er fjölbreytt 
        og fjöldi snákategunda, leðurblakna og skordýra er mikill.  Fjöldi 
        tegunda fiðrilda og mýflugna er óendanlegt verkefni fyrir dýra- og 
        skordýrafræðinga.  Í landinu eru nokkrir þjóðgarðar og dýraverndarsvæði 
        (Bamingui-Bangoran-þjóðgarðurinn í norðurhlutanum, Manovo-Gounda-Saint-Floris-þjóðgarðurinn 
        í norðausturhlutanum og Dzanga-Ndoki-þjóðgarðurinn og 
        Dzanga-Sangha-verndarsvæðíð í suðvesturhlutanum).  |