| 
           
        Flóra og 
                    fána.  Þétt 
        skóglendi þekur miðnorðurinnlandið og Chimoio-hásléttuna en mestur hluti 
        norð- og austurinnlandsins er þakin gisnari skógi.  Í suðurhlutanum 
        breytist gisið skóglendi austurhlutans í runna og steppusvæði til 
        vesturs.  Stærstu skógaleifarnar eru á Chimoio-hásléttunni, vestan 
        og suðvestan Beira, og á norðurinnlandinu, sunnan Lúrio-árinnar, eru 
        fjórir þjóðgarðar, Gogongosa, Zinave, Bazaruto og Banhine. 
         
        Meðal villtra dýra eru buffalar, fílar, vörtusvín, hlébarðar, 
        bavíanar, gíraffar, sebrahestar, antilópur, ljón og fjöldi tegunda 
        hófdýra og katta.  Krókódílar og flóðhestar finnast enn þá í lygnu 
        straumvatni.  Snákar (pýton, adder, kóbra og viper) eru um land allt. 
        Flamingóar, trönur, storkar, hegrar, pelikanar, íbísfuglar og fleiri 
        tegundir vatna- og vaðfugla eru víðast hvar um landið en þó mest, þar 
        sem votlendast er í norðausturhlutanum.  Hræfuglar eins og krákur, 
        gammar og músafálkar sjást víða.  Einnig gíneufuglar, akurhænur, 
        lynghænur og fjöldi tegunda gæsa og anda.  Dýraverndarsvæði og 
        veiðisvæði eru aðallega í mið- og suðurhlutunum að Niassa-, við 
        landamæri Tanzaníu og Gilé- verndarsvæðunum, suðvestan Nampula, 
        undanskildum.  Stærstu verndarsvæðin eru rétt sunnan Zambezifljótsins í 
        grennd við Chimoio-hálendið.  Fimm veiðisvæði landsins eru Niassa, Gilé, 
        Marromeu, Pornene og Maputo.  |