Nígería íbúarnir,


NÍGERÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landslag, loftslag og gróðurfar er verulega mismunandi frá suðri til norðurs í landinu og einnig samfélagið, menning og búskaparhættir.  Efnahagsleg þróun er lengst kominn í suðurhluta landsins.  Skógarnir eru gjörnýttir, bæði frá stórum plantekrum og smábýlum.  Öll iðnvæðing, olíusvæði og hafnir landsins eru þar.  Þar eru stór menningarsvæði, yorubafólkið í vestri, edofólkið í miðhlutanum og ibgo-ibibiomenn í austri.

Miðhluti landsins er strjálbýlastur og minnst þróaður.  Hann nær yfir u.þ.b. 40% heildarflatarmálsins en aðeins 20% íbúaanna búa þar.  Þeir eru af rúmlega 180 tungumálahópum.  Fyrir 1970 voru uppi miklar áætlanir um þróun þessa landshluta en aðeins lítill hluti þeirra komst á koppinn (Kainji-stíflan og Bacita-sykurverkefnið auk nokkurs iðnaðar í borgunum Jos og Kaduna).  Eftir stjórnsýslulega endurskipulagningu 1975 varð miðhlutinn veigameiri vegna þess að sjö hinna 19 fylkishöfuðborga (nú 36) og höfuðborgarfylki landsins (7250 km²) eru þar.  Snemma á 9. áratugnum var byggt risajárn- og stálver í Ajaokuta í grennd við Lokoja.

Framundir upphaf 20. aldar, þegar nýir straumar í efnahagsmálum fóru um landið vegna lagningar járnbrauta milli hafnarborganna, var haldið uppi reglulegum ferðum yfir Sahara frá norðurhlutanum (Nígeríska-Súdan) til landa við Miðjarðarhaf og Miðausturlanda.  Menning hausa- og fulanimanna hefur ríkt í Nígeríska-Súdan nema í lægð Chadvatnsins, þar sem kanurimenn stofnuðu ríkið Borno.  Fulanimenn eru hirðingjar, sem færa sig til með hjarðir sínar, en hausafólkið stundar ræktun en báðir þjóðflokkar aðhyllast að mestu islam.

Hlutar landsins, sem igbofólkið byggir, eru þéttbýlustu svæði Afríku sunnan Sahara.  Land yorubamanna, sem rækta kakóbaunir, eru líka þéttbýl en laða til sín aðkomufólk frá löndum igbo- og Ibibio-manna, sem eru ofbyggð.  Nyrzt í landinu eru tvö mjög þéttbýl svæði við Sokoto- og Kano-Katsina.  Þéttbýlið við Kano byggist á mikilli ræktun en þéttbýlissvæðin umhverfis Sokoto og Katsina eru ófrjósöm og framfleyta ekki íbúunum.

Þéttbýliskjarnar eru víðar, s.s. við tinnámurnar á Jos-hásléttunni og á Okene-svæðinu.  Mestur hluti landsins er engu að síður strjálbýll og stór svæði á miðbeltinu, í lægð Chadvatnsins og á Austur-Krossársvæðinu eru næstum óbyggð.

Rúmlega helmingur landsmanna býr í sveitunum.  Þéttbýliskjarnar eru meðfram ströndinni, á Yorubasvæðinu í suðvesturhlutanum og á svæðum hausa- og kanurimanna allranyrzt.  Hlutar igbo- og anang-ibibiosvæðanna í suðausturhlutanum og Tiv-svæðið í miðbeltinu eru strjálbýlir með smáþorpum, þar sem stórfjölskyldur búa.  Nokkur slík þorp mynda sums staðar bæjarfélög folks, sem er meira og minna skylt innbyrðis og upprunalegum stofnendum þorpanna.

Í austurfylkjum landsins er höfðingi í hverju þorpi, oftast einhver öldunganna og efnamanna þess, sem stjórnar með samþykki íbúanna.  Á svæðum yorubamanna, Benínsvæðinu og norðurríkjunum eru höfðingjarnir kosnir með samþykki héraðsstjórnanna.  Eitt einkenna þorpslífsins er aldursgreiningin og jafnaldrar eru látnir halda hópinn.  Fyrrum voru drengir látnir halda hópinn í þrjú ár sem vinnuhópar og til undirbúnings manndómsvígslu.

Húsagerð er mismunandi eftir landshlutum.  Í strandhéruðunum er raffíapálminn aðalbyggingarefnið enda mikið af honum á þeim slóðum.  Ferhyrndir leirkofar með strámottuþökum eru algengir á skógabeltinu en hinir betur megandi nota bárujárn á þökin.  Á steppunum í miðbeltinu og sums staðar norðanlands eru byggðir leirkofar með hallandi stráþökum en flöt leirþök eru notuð á þurrustu svæðunum nyrzt.

Áður en 20. öldin gekk í garð voru yoruba-, hausa-, edo- og kanurimenn auk íbúa strandhéraðanna einu borgarbúar landsins.  Yorubamenn hafa lengstu þéttbýlissögu þjóðflokka Afríku að baki.  Borgir þeirra, margar aldagamlar, voru upprunalega stjórnsýslu- og verzlunarmiðstöðvar.  Næstum helmingur yorubamanna býr í bæjum eða borgum með fleiri en 5000 íbúa (Ibadan, Ogbomosho, Abeoukuta, Ife og Oyo).  Benínborg, líkt og Ibadan og Oyo, er höfuðborg stjórnmála og menningar.  Saga hennar hófst fyrir mörgum öldum, þegar hún var höfuðborg konungsríkisins Benín.

Borgirnar Bonny, Opobo, Okrika, Buguma, Brass, Forcados, Creek og Calabar uxu upp úr fiski- og saltvinnsluþorpum, þegar verzlun jókst milli strandbúa og Evrópumanna.  Þrælasalan var aðalhvatinn í upphafi en svo tók verzlun með landbúnaðarafurðir við.  Í upphafi nýlendutímans voru þessar hafnarborgir alþjóðlegri en borgir yorubamanna og lengst í norðri, en þær voru miklu minni.

Borgirnar Kano, Zaria og Katsina í Nígeríska-Súdan í norðurhlutanum eru miklu eldri en yorubaborgirnar.  Þær þróuðust í tengslum við lestaferðirnar yfir Sahara og landbúnaðinn.  Fyrrum voru þær umgirtar skíðisgörðum til varnar.  Kano er mikilvægust þessara fornu borga.  Hún skiptist í sérstök hverfi hausa- og fulanimanna og Suður-Nígeríumanna og Evrópumanna.

Lagos er alþjóðleg borg á nokkrum eyjum og á meginlandinu.  Hún er stærsta borg landsins og Ibadan næststærst.  Lagos var líkast til stofnuð í tengslum við útþenslu konungsríkisins Benín áður en 15. öldin gekk í garð.  Árið 1861, þegar Bretar náðu henni undir sig, voru þar 250 þúsund íbúar.  Í lok 20. aldar voru þeir orðnir 2 miljónir.  Stofnun margra fylkja síðan 1967 olli nokkurri dreifingu á iðnaði og margir atvinnulausir Lagosbúar fluttust til höfuðborga annarra fylkja í atvinnuleit (Ibadan, Kaduna, Kano og Enugu).  Nokkrar litlar borgir (Minna, Uyo, Makurdi, Maiduguri og Bauchi) uxu mjög hratt eftir að þær urðu fylkishöfuðborgir.

Abuja var skipulögð í miðju landi og hefur verið opinber höfuðborg landsins síðan 1991, þótt nokkrar opinberar stofnanir séu enn þá reknar í Lagos.  Ákvörðunin að byggja nýja höfuðborg var tekin um miðjan áttunda áratuginn og hafizt var handa á hinum níunda.  Staðarvalið réðist m.a. af því, að enginn þjóðfélagshópur ætti að vera öðrum fremri í borginni.  Gwarifólkið, sem bjó á núverandi borgarstæði, varð engu að síður að færa sig um set.

Talið er, að nálægt 250 þjóðflokkar byggi Nígeríu.  Hver þeirra býr á sínu svæði og aðkomufólk, sem býr og starfar með þeim, er ávallt utanveltu og blandast ekki innfæddum.  Víðast í sveitunum getur slíkt fólk ekki eignast land í eigin nafni.  Engu að síður hefur verið stöðugur straumur milli svæða í þeim tilgangi.

Aðalþjóðflokkarnir þrír eru hausa-fulani, yoruba og igbo.  Hausafólkið, sem býr í norðurhlutanum, fjölmennasti hópur landsins, hefur blandazt fulanihópnum.  Forfeður fulanimanna lögðu lönd hausafólksins undir sig á 19. öld.  Langflest þessa fólks er múslimar.  Fulanimenn, sem búa í borgum setja ekki fyrir sig að mæðgast við hausafólkið og aðra þjóðflokka en sitja við stjórnvölinn í hausaborgunum.  Fulanihirðingjar mæðgast sjaldan við aðra hópa og tala tala fremur sitt eigið mál, fula, fremur en hausa.

Yorubamenn í suðvesturhlutanum eru litlu færri og áhrifaminni en hausafólkið.  Þeir hafa verið borgarbúar frá fornu fari og guð þeirra er Oduduwa.  Flestir yorubamenn eru bændur, sem búa í borgum eða þorpum.  Hver undirhópur þeirra er undir stjórn höfðingja, oba, sem er oftast studdur höfðingjaráði.  Trúarleiðtogar yorubamanna, obi, í Ife og alafin í Oyo, sem er stjórnmálaleiðtogi þeirra, eru valdamestir og áhrifa þeirra gætir í stóru sem smáu.

Þriðji stærsti þjóðfélagshópurinn er igbofólkið í suðausturhlutanum.  Það býr í smáum, lýðræðislegum byggðum.  Þorpin eru aðalmiðstöðvar þeirra.  Þau eru undir stjórn öldunga, sem hafa áunnið sér sess en ekki erft hlutverkið, fremur en höfðingja.  Lítill hluti þeirra býr í stórum borgum og eru menningarlega skyldari edofólkinu í nágrannaborginni Benín en igbomönnunum, sem búa í neðri hluta Nígerdalsins.

Meðal fámennari hópa eru ibibiomenn, sem búa í grennd við igbofólkið og eru menningarlega skyldir því, og edofólkið í Benínborg, sem stofnaði konungsríkið Benín fyrir nýlendutímann, þótt það hafi orðið fyrir nokkrum áhrifum frá nágrönnum sínum, yorubamönnum.  Í miðbeltinu er að finna flesta þjóðfélagshópana (>180).  Tiv- og nupefólkið er þeirra fjölmennast.  Báðir hópar stunda ræktun.  Nupefólkið býr við höfðingjastjórn en tivfólkið hefur mun frjálslegri stjórnarhætti.

Tungumálum landsmanna má skipta í þrjá aðalflokka:  Niger-Kongó, Nílar-Sahara og afró-asísk.  Hinn fyrstnefndi er mjög fjölmennur en skiptist í kwa (yoruba, edo, iio, igbo, iglala, idoma, nupe og gwari), vesturatlantsískar mállýzkur fulatungunnar og tiv, jukun og fjölda annarra mállýzkna í Krossárdalnum (efik, Ibibio, anang, ekoi) og adamawa (awak, waja, waka og tula).  Nílar-Sahara-málin í Nígeríu eru aðallega kanuri, þótt nokkrir tali einnig bagirmi og zerma.  Afró-asíska málafjölskyldan er miklu stærri og nær yfir hausa, margi, bade o.fl.  Sumir þjóðflokkar (Fulani og tiv) eru tiltölulega nýfluttir til landsins.  Samkvæmt rannsóknum er talið, að flest tungumálin, sem eru töluð í landinu, megi rekja allt að 4000 ár aftur í tímann á þeim slóðum, sem þau eru töluð enn þá.

Hausamálið er útbreiddasta tunga landsins vegna þess að hún var opinbert tungumál í norðurfylkjunum á árunum 1951-67 og hausa-fulanimenn hafa haldið völdum sínum í landinu síðan.  Enska er víða töluð og ausa og pidgin eru mest notuð meðal almennings.  Mörg þessara tungumála eiga sitt eigið ritmál.

Í upphafi nýlendutímans voru flestir Nígeríumenn fylgjendur hinna mismunandi, fornu trúarbragða í landinu en brezku nýlenduherrarnir beittu slíkum trúarbragðakúgunum, að flestir landsmenn voru orðnir múslimar eða kristnir, þegar landi fékk sjálfstæði árið 1960.  Þá gátu margir múslimar og kristnir tekið upp helgisiði fornu trúarbragðanna, þar sem þau voru ekki lengur bönnuð.  Fylgjendur þeirra ákalla hinn almáttuga guð (Olorun Olodumare hjá yorubamönnum, Chukwu hjá igbofólkinu, Osalobua hjá edomönnum, Allah meðal hausamanna og Abasi Ibom meðal ibibiomanna) í gegnum fjölda miðla eða lægra settra  guða.

Trúfrelsi er tryggt samkvæmt stjórnarskrá landsins og múslimar og kristnir búa og vinna saman, þrátt fyrir stöðugar erjur milli þeirra innbyrðis og einnig fólks af öðrum trúarbrögðum.  Flestir eru múslimarnir í norðurfylkjunum, þar sem rúmlega 75% íbúanna játa islam.  Islam er einnig ríkjandi í suðurfylkjunum Lagos, Ogun og Oyo.  Kristnir eru rúmlega 75% íbúanna í austurfylkjunum.  Kristnir skiptast milli katólskra, meþódista, biskupakirkjunnar og baptista.  Vaxandi fjöldi sérsöfnuða er litinn hornauga og sem ógnun við hinn hefðbundnu.  Sérsöfnuðirnir hafa oft bætt ýmsum fornum hefðum við helgisiðina, s.s. trumbuslætti og dansi, sem gömlu trúfélögin hafa einnig tekið upp til að halda söfnuðunum saman.  Bæði kristnir og múslimar hafa bætt fjölkvæni við trúarbrögð sín.  Opinberlega viðurkennir kristna kirkjan það ekki en islam leyfir allt að fjórum eiginkonum.  Margir sérsöfnuðir hafa ekki sett neinar takmarkanir á helgisiði og athafnir.

Líkt og í öðrum þróunarlöndum er fæðingatíðni og barnadauði hár í landinu.  Eftir 1950 hefur dregið verulega úr barnadauða og lífslíkur hafa stöðugt aukizt, þannig að fólksfjölgun er mikil.  Talsvert er um búferlaflutninga, einkum í milli norðurs og suðurs.  Fjöldi sunnanmanna hefur setzt að í norðurborgunum Kano, sokoto, Kaduna og Jos og margir norðanmanna flytjast árstíðabundið til kakóræktarhéraðanna í suðri.  Enn fleiri hafa flutzt frá löndum igbo- og ibibiomanna og frá Nígerósum til iðnvæddari fylkja (Lagos, Oyo og Ogun) eða landbúnaðarfylkja (Ondo og Edo).  Fjöldi Nígeríumanna hefur flutzt úr landi til Stóra-Bretlands, Þýzkalands, Kanada og BNA.

Fyrir lok síðustu aldar olli borgarastyrjöldin 1970 miklum brottflutningi til Benín, Ghana, Miðbauggíneu, Kamerún og Sierra Leone.  Aðstreymi fólks til Nígeríu hófst 1972 og yfirvöld hvöttu til meiri innflutnings, þegar Efnahagsbandalag ríkja Vestur-Afríku var stofnað 1978.  Snemma á níunda áratugnum neyddust yfirvöld til að snúa blaðinu við vegna efnahagskreppu og meintrar þátttöku útlendinga í trúarbragðaóeirðum.  Í kringum 1985 var búið að reka 2,7 miljónir útlendinga úr landi en ekki var haldið áfram á sömu braut eftir það.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM