| 
           
                    
                     Durban
        (áður Port Natal) er stærsta borg KwaZulu-Natal-héraðs og aðalhafnarborg
        S.-Afríku við Natalflóa í Indlandshafi. 
        Evrópskt landnám hófst þar, þegar hópur kaupmanna undir
        forystu Francis G. Farewell kom þangað, kortlangði flóann og skírði
        hann Natal Bay árið 1824. 
        Konungur Zúlúmanna, Shaka, lét þeim í té landrými og Old
        Fort (Gamlavirki) var reist. 
        Þar er nú safn. 
        Durban var stofnuð við flóann 1835 og nefnd eftir Sir Benjamin
        D’Urban, landstjóra Höfðanýlendu. 
        Þegar nær dró 1840 og skömmu síðar urðu árekstrar milli Bóa
        og Breta vegna yfirráða í Durban. 
        Bærinn varð að borg 1854 og stórborg 1935. 
           
                    Borgin
        stendur á ströndinni og sunnan hennar er hæðótt landslag, Bluff,
        sem nær yfir Umgeniána að hæðunum í norðri. 
        Borgarstæðið sjálft er á flatlendi, sem smáhækkar upp í
        íbúðarhverfið Berea með hæðadrögum, sem liggja umhverfis höfnina
        og ströndina. 
        Meðal fjölda garða borgarinnar er Lystigarðurinn með 
                    orkideuskála, Jameson Park með rósareitum og Snákagarðurinn með
        safni eitraðra skriðdýra. 
        Durban-Westville-háskólinn var stofnaður 1961 fyrir indverska
        stúdenta í upphafi en eftir 1979 var engum af indverskum uppruna
        veittur aðgangur. 
        Natalháskóli var stofnaður 1910. 
        Nokkur söfn eru í borginni og útimarkaðir, reknir af svörtum
        og indverjum. 
           
          Þróun
        hafnarinnar, sem er meðal stærstu verzlunarhafna heims, hófst 1855. 
        Hún þjónar m.a. Witwatersrand iðnaðarsvæðinu, sem þarfnast
        mikils hráefnis, véla- og tæknibúnaðar. 
        Útflutningur byggist aðallega á kolum, sykri og kornvöru. 
        Olíuhreinsunarstöð birgir Jóhannesarborg um olíuleiðslu. 
        Eftir fyrri heimsstyrjöldina breyttist Durban úr viktorískri
        borg í nútímaborg með háhýsum og skýjakljúfum. 
        Þar eru aðalstöðvar sykurframleiðenda í landinu og fjölþætt
        framleiðsla. 
        Ferðaþjónustan er mikilvægur atvinnuvegur og byggist m.a. á
        nálægð KwaZulu-Natal villidýrasvæðunum og fólkvöngunum, ströndunum
        og aðstöðunni þar, s.s. sædýrasafni. 
        Í Durban og nærliggjandi Pinetown búa fleiri indverjar en hvítir. 
        Vesturhverfin, Ntuzuma, Umlazi og Embumbulu eru aðallega byggð
        svertingum, einkum zúlúmönnum. 
        Fjöldi svertingja var fluttur þangað frá Durban síðla á áttunda
        áratugi 20. aldar. 
        Áætlaður íbúafjöldi 1991 var 715.700 (borgin) og 1.137.400
        (Stór-Durban og Pinetown).  |