| 
           
        
        Höfðaborg
        er hafnarborg og höfuðborg löggjafarþings Suður-Afríku og Vestur-Höfðahéraðs. 
        Hún er á norðurenda Höfðaskagans, u.þ.b. 50 km norðan Góðravonarhöfða.  Svæðið, sem hún stendur á, var fyrst byggt landnemum frá
        Evrópu og því er hún oft kölluð „Móðurborgin”. 
        Lega borgarinnar er rómuð fyrir fegurð þar sem hún liðast
        meðfram undirhlíðum stapafjallsins „Table Mountain” (1086m) og
        annarra fjalla í grenndinni og meðfram ströndum flóans „Table
        Bay”.  Hún teygir sig líka á láglendinu í suðurátt, langleiðina
        að öðrum flóa, False Bay.  Heildarflatarmál
        borgarinnar er u.þ.b. 300 km² (tæplega 60 ferkíkómetrum 
        stærri en Reykjavík). 
           
          Suðurafríska
        safnið 
        
          í Höfðaborg var stofnað árið 1825. 
        Það leggur áherzlu á náttúrusögu og mannfræði Suður-Afríku. 
        Þar er líka stjörnuskoðunarstöð og safn um sögu prentverks. 
           
          
        
          Það er elzta safn landsins og var upphaflega í dýrafræðisafni Sir 
          Andrew Smith, fyrsta forstjóra þess.  
          Það var sett undir stjórn og ábyrgð fullltrúa brezku 
          nýlendustjórnarinnar í Höfðaborg árið 1855 og var flutt í núverandi 
          húsnæði árið 1897.  Allt 
          til ársins 1930 deildi safnið rými húsnæðisins með Þjóðlistasafni 
          Suður-Afríku og fram til ársins 1966 hýsti það muni, sem nú eru til 
          sýnis í Menningarsögusafni Suður-Afríku, sem er líka í Höfðaborg. 
        Safnið á og sýnir fjölda muna tenda dýrafræði, sjávarlíffræði, 
          jarð- og steingervingafræði, fornfræði og þjóðfræði. 
        Sýningargripir, sem snerta Suður-Afríku sérstaklega, eru m.a. 
          steinamyndir og fleiri verk san-fólksins, sem var hirðingjar og 
          safnarar og þekktast sem búskmenn. 
           
          
        
          Suðurafríska þjóðlistasafnið í Höfðaborg var stofnað árið 1872. 
        Að baki stofnuninni stóð Listvinafélag Suður-Afríku, sem byrjaði 
          á einkasafni til varðveizlu málverka, m.a. þeirra, sem Butterworth 
          Bayley ánafnaði safninu sama ár. 
        Brezka nýlendustjórnin tók við rekstrinum 1895 og afhenti fyrstu 
          suðurafrísku ríkisstjórninni safnið árið 1910. 
        Safnið deildi húsnæði með Suðurafríska safninu frá 1897 til 1930, 
          þegar það var flutt í núverandi byggingu. 
        Safnið hefur stækkað í gegnum tíðina, bæði vegna kaupa og gjafa.  
          Það á málverk, höggmyndir og grafísk verk margra evrópskra meistara.  Þarna er líka einstætt safn þjóðlegra afrískra muna, m.a. 
          gullsökkur og skartgripi asanteættbálksins á Gullströndinni (nú 
          Ghana), sem Bretar lögðu undir sig á síðasta áratugi 19. aldar.  |