| 
           
        
         Dakar er höfuðborg 
        Senegal og ein aðalhafnarborganna við strendur Vestur-Afríku.  Hún er 
        miðleiðis milli ósa fljótanna Gambía og Senegal á Grænhöfða, í grennd 
        við vestasta hluta Afríku.  Höfnin er ein hin bezta í Vestur-Afríku í 
        skjóli við kalkkletta höfðans og brimvarnargarða.  Nafnið er dregið af „dakhar”, 
        sem þýðir tamarind-tré á volofmáli.  Löngu horfið þorp lebumanna, þar 
        sem nú er fyrsta bryggjan, bar sama nafn. 
           
          Árið 1857 byggðu 
        Frakkar virki, þar sem nú er Sjálfstæðistorg, til að vernda hagsmuni 
        kaupmanna, sem höfðu verið að koma sér fyrir á staðnum næstu 20 árin á 
        undan, og íbúa Gorée-eyjar skammt undan höfðanum.  Árið 1862 var kominn 
        upp stuttur brimvarnagarður við Dakarhöfða og skipulag borgarinnar á 
        lágum kalksteinspalli upp af sandströndinni var tilbúið.  Heill 
        mannsaldur leið áður en mikilvægi Dakar varð meira en Gorée og Rufisque 
        (21 km austar) sem útflutningshöfn.  Opnun fyrstu járnbrautar 
        Vestur-Afríku, milli St Louis og Dakar, árið 1885 varð til hraðfara 
        þróunar borgarinnar og aukinnar ræktunar jarðhnetna meðfram 
        brautarteinunum.  Árið 1904 tók Dakar við höfuðborgarhlutverkinu af St 
        Louis í Frönsku Vestur-Afríku. 
           
          Mikilvægi Dakar 
        jókst enn í fyrri heimsstyrjöldinni.  Árið 1924 var opnuð járnbraut til 
        Franska-Súdan (nú Mali), þannig að þaðan bárust vörur til útflutnings.  
        Miklar bætur voru gerðar á hafnarmannvirkjum og á fjórða áratugnum var 
        útflutningur jarðhnetna mestur þaðan.  Í síðari heimsstyrjöldinni 
        viðurkenndu yfirvöld í Dakar Vichy-stjórnina, sem yfirvöld í allri 
        Frönsku Vestur-Afríku gerðu og tilraunir Frjálsra Frakka til að leggja 
        Dakar undir sig hlutu slæman endi árið 1940.  Frekari þróun borgarinnar 
        tafðist þar til Franska Vestur-Afríka gekk til liðs við bandamenn 1943. 
           
          Vinnsla jarðhnetuolíu varð mikilvægur iðnaður í borginni í síðari 
        heimsstyrjöldinni vegna efttirspurnar í Norður-Afríku, sem hafði áður 
        verið sinnt frá Frakklandi.  Fleiri verksmiðjur voru byggðar í borginni 
        en árið 1961 skiptist Franska Vestur-Afríka í átta sjálfstæð ríki og 
        markaðir Dakar minnkuðu.  Dakar var höfuðborg hins skammlífa Mali-ríkjasambands 
        (1959-60) og árið 1960 varð hún höfuðborg lýðveldisins Senegal.  Eftir 
        stríð hefur borgin þanizt út. 
           
          Borgarhlutarnir eru miklar andstæður.  Í suðurhlutanum eru opinberar 
        byggingar, sjúkrahús og sendiráð.  Í norðurhlutanum er viðskiptahverfið, 
        aðallega umhverfis Sjálfstæðistorgið.  Norðan- og austantil eru 
        hafnarhverfin og allranyrzt er iðnaðarhverfið Hann. 
           
          Dakar er leiðandi miðstöð iðnaðar og 
          þjónustu í hitabeltishluta Afríku.  Iðnaðurinn byggist á 
          framleiðslu jarðhnetuolíu, niðursuðu fisks, hveitis, bjórs, vörubíla 
          (samsetning) og olíuvöru.  Mörg söfn borgarinnar eru afbragðsgóð 
          (mann- og fornleifafræði í Dakar og saga og sjávarlíffræði í Gorée).  
          Frá Corniche-veginum, sem er höggvinn í klettana umhverfis 
          Manuelhöfða, er frábært útsýni yfir höfnina og nærliggjandi eyjar.  
          Þarna eru margar góðar baðstrendur.  Yoff-flugvöllur, norðan 
          borgarinnar, er m.a. nýttur til millilendinga á leiðinni milli Evrópu 
          og Suður-Afríku.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1985 var 1,4 miljónir.  |