Freetown Sierra Leone,


FREETOWN
SIERRA LEONE

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Freetown er höfuðstaður Sierra Leone, aðalhafnarborgin og stærsta borg landsins.  Hún stendur á Sierra Leoneskaga, sem er framhalda skógivaxins hæðahryggs, sem portúgalskur sæfari, Pedro da Sintra, nefndi Sierra Leôa (Ljónsfjöll), þegar hann kannaði strönd Vestur-Afríku árið 1462.  Um miðja 17. öldina urðu Portúgalar að sætta sig við samkeppni frá Bretum, Frökkum, Hollendingum og Dönum í viðskiptum í þessum heimshluta.  Brezkur andstæðingur þrælahalds, Granville Sharp, settist að sunnan mynnis Sierra Leone-árinnar árið 1787 og stofnaði þar hæli fyrir afríska þræla, sem höfðu fengið frelsi í Englandi og gátu ekki séð sér farborða.  Árið 1792 hóf Sierra Leone-fyrirtækið aðstoð við landnám þræla frá Nova Scotia, sem höfðu barizt með Bretum í Sjálfstæðisstríði Bandaríkjanna, flóttaþrælum frá Jamaica (maroons) og öðrum frelsingjum af þrælaskipum.  Þeir stigu á land á stað, sem fékk nafnið Brynningarstaður Jimmys konungs, sem er nú fjögugt markaðssvæði.  Aðflutt fólk úr sveitunum (mende og temne) er nú orðið fjölmennara en afkomendur þessara fyrrum þræla, sem eru kallaðir kreólar.  Árið 1821 varð Freetown stjórnsetur allra yfirráðasvæða Breta í Vestur-Afríku.  Þessari stöðu hélt bærinn með litlum breytingum til 1874 og fékk borgarréttindi árið 1893 og varð höfuðborg 1961.

Freetown hefur mjög góða náttúruhöfn (mikilvæg herstöð í síðari heimsstyrjöld), sem er búin góðri aðstöðu fyrir stór hafskip við Bryggju Elísabertar II.  Um hana fer mikill útflutningur pálmaolíu og kjarna, kakós, kaffis, engifers og kólahnetna.  Borgin er aðalmiðstöð viðskipta og samgangna í landinu.  Fjöldi iðnfyrirtækja er takmarkaður.  Þarna er þó demantaiðnaður, framleiðsla sælgætis, málningar og skófatnaðar, hrísgrjóna- og kjötvinnsla.  Gumastíflan var byggð til að uppfylla vatnsþörf borgarinnar og jók á rafmagnsframleiðsluna.  Innanlandsflug fer um Hastings-flugvöllinn 16 km suðaustan Freetown.  Millilandaflugvöllurinn er við Lungi handan Sierra Leone-árinnar.

Fourah Bay skólinn á Aureolfjalli var stofnaður 1827 og er hluti háskóla Sierra Leone síðan 1969.  Njala-háskólinn var stofnaður 1963 og Milton Margai kennaraskólinn í Goderich 1960.  Fleiri kennaraskólar eru í borginni auk tækniskóla og ríkisrekinna og múslimskra framhaldsskóla.  Fort Thornton (1796), sem er nú stjórnarráð og forsetasetur, og Þinghúsið, sem standa á Turnhæð, eru skoðunarverðir staðir.  Borgina prýða nokkrar moskur og kirkjur, aðallegar enskar, s.s. St George dómkirkjan (1852).  Þjóðminjasafnið er í fyrrum járnbrautarstöð (Cotton Tree Railroad Station).  Það hýsir söguleg skjöl, útskorna muni úr tré og höggmyndir.  Áætlaður íbúafjöldi 1985 var 470 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM