Sierra Leone íbúarnir,


SIERRA LEONE
ÍBÚARNIR
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Þorp með u.þ.b. 35 húsum og 300 íbúum eru algeng í sveitunum.  Nútíminn heldur hægfara innreið á þeim slóðum.  Hringlaga þorpslagið með húsunum þétt saman er að víkja fyrir ílöngum þorpum meðfram þjóðvegum eða ferhyrningslaginu og meira rými milli húsa.  Tekjur íbúanna byggjast enn þá aðallega á hrísgrjónarækt og grænmeti fyrir markaðina og stórfjölskyldurnar eru vinnuaflið.  Fiskveiðar fara vaxandi.  Mestur hluti nautgriparæktarinnar er í norðurhluta landsins.  Smákaupmenn setja svip á hvert þorp en þar starfa einnig klæðskerar og smiðir.  Járnsmíði, litun og vefnaður eru víkjandi vegna síaukins framboðs tilbúinnar vöru.

Aðrar borgir en Freetown byggðust eftir síðari heimsstyrjöldina.  Borgarmenning er á byrjunarstigi í landinu og því er ekki að vænta hins sama og í þróuðum borgarsamfélögum.  Mest áberandi í borgarlífinu eru daglegir markaðir, þar sem konur eru í aðalhlutverkum.

Freetown er löng og mjó borg.  Miðborgin er stjórnsýslu- og viðskiptahverfi hennar.  Þar eru opinberar byggingar og sendiráð, dómshús, hótel og dómkirkjur katólika og ensku biskupakirkjunnar.  Austurborgin er aðallega íbúðahverfi með verzlunum við allar aðalgötur.  Borgina prýða líka nokkrar moskur.  Austar er hafnarhverfið.  Vesturborginni svipar til austurhlutans.  Þar er einnig aðalíþróttaleikvangur þjóðarinnar, aðalfangelsið og sjórnsýslubyggingar.  Á Aureol-fjalli, ofan borgarinnar, er Fourah Bay-háskólinn, sem var fyrsta æðri menntastofnun svartra Afríkumanna.

Næststærsta borgin, Bo, er í suðausturhluta landsins.  Hún er miðstöð stjórnsýslu og menntunar og hefur vaxið ört, þannig að hún nær nú yfir svæði nokkurra þorpa í nágrenninu.  Í miðborginni eru verzlanir og fyrirtæki, ófjarri hinum daglega markaði.  Menntunarþátturinn hefur farið vaxandi, þannig að skólar hafa stækkað og þeim fjölgað.

Meðal annarra veigamikilla borga eru Kenema, sem er austan Bo og hefur þróazt í kringum demantanám og Makeni í norðurhlutanum (héraðshöfuðborg og viðskiptamiðstöð).  Námuvinnsla hefur einnig valdið aukinni byggð í Koidu, Sefadu, Yengema og Jaima í austurhlutanum og Lunsar í norðurhlutanum.  Hafnarborgin Loko, Kabala, Bonthe, Moyamba, Kailahun, Kambia, Pujehun og Magbruaka eru líka stjórnsýslu- og verzlunarmiðstöðvar.

Landið byggja u.þ.b. 18 þjóðflokkar af svipuðum menningargrunni, s.s. leynireglum, goðaveldi, erfðaveldi og búskaparháttum.  Mendefólkið í austur- og suðurhlutum landsins og temnefólkið í norðurhlutanum eru stærstu þjóðflokkarnir.  Þeir, sem næstir koma eru limba-, kuranko-, susu-, yalunka- og lokofólkið í norðurhlutanum, kono- ogkissifólkið í austurhlutanum og sherbrofólkið í suðvesturhlutanum.  Meðal smærri þjóðflokka eru bullom-, vai- og krimfólkið á ströndinni og malinke- og fulanimenn, sem eru innflytjendur frá Gíneu og búa í norður- og austurhlutunum.  Kreólar, afkomendur frjálsra svertingja, sem settust að á ströndinni á 19. öld, búa aðallega í vesturhlutanum og í Freetown.  Líbanaskir og indverskir kaupmenn í borgunum auka enn á fjölbreytileikann.

Tungumálið krio er blanda ensku og fjölda afrískra tungna.  Það er móðurmál kreóla og almennt samskiptamál landsmanna.  Mest áberandi tungur þjóðflokkanna eru mande, sem er útbreiddust og nær til mende, kuranko, kono, yalunka, susu, vai og malinke.  Mel-tungumálafjölskyldan nær yfir temne, krim, kissi, bullom, sherbro og limba.  Enska er opinbert tungumál landsins og er notuð í stjórnsýslunni, menntakerfinu og í viðskiptum.  Líbanar og múslimar tala arabísku.

Næstum helmingur íbúanna iðkar fjölda andatrúarbragða.  Rúmlega þriðjungur þeirra er múslimar og afgangurinn kristinn.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM