| 
           
          
        Túnis
        státar af öflugri og einstakri menningu, gamlar hefðir í bland við
        erlend áhrif og nútímaþróun.  Íbúarnir
        eru arabískir múslimar, sem urðu m.a. fyrir frönskum áhrifum í 75
        ár, þegar landið var franskt verndarsvæði til 1956. 
        Flest dagblöð landsins eru á frönsku og franskt efni er í sjónvarpi
        og útvarpi auk efnis á arabísku og ítölsku. 
        Enska er víðast töluð núorðið og stjórn landsins hvetur
        landsmenn til að læra ensku sem annað eða þriðja tungumál. 
           
          Listir. 
        Tungumálin franska og enska eru aðallega notuð í vísindum og
        viðskiptum en arabíska er notuð á bókmenntasviðinu, ljóðagerð,
        skáldsögum og smásögum.  Heimsspekingar og rithöfundar eins og Ibn Khaldun, Ibn
        Rachik, Ibn Charaf og al-Husri eru enn þá í hávegum hafðir.  Nútímabókmenntir landsins þróuðust upp úr
        endurreisnarmenningu fyrri hluta 20. aldar. 
        Ritgerðahöfundurinn Tahar Haddad, ádeiluskáldið Ali Douagi,
        ljóðskáldið Aboul Kacem Chabbi og aðrir ruddu nýrri raunsæisbylgju
        braut í túnískum bókmenntum með sameiningu evrópsks nútímastíls
        og túnískra samtímaþema.  Túnískir
        rithöfundar eru í auknum mæli að hasla sér völl á alþjóðavettvangi. 
        Fjölmiðlar búa ekki við „opinbera ritskoðun” en hið
        opinbera hefur takmarkað frelsi blaðamanna og stjórnmálamanna til að
        viðra skoðanir sínar. 
           
          Samtímamálverk
        eru að mörgu leyti byggð á ákveðnum hefðum og fremstur meðal
        listaskóla í landinu er École de Tunis. 
        Túnískir listamenn á borð við Hamadi Ben Saad og Hassan
        Soufy njóta mikilla vinsælda innanlands og hafa sýnt verk sín
        erlendis.  Tónlist og leikhúslíf kemur m.a. fram í menningarhátíðum,
        s.s. Karþagóhátíðinni, Testour Maalouf-hátíðinni (Andalúsísk
        Malour-tónlist), Sousse-alþjóðahátíðinni og alþjóðlegu jazzhátíðinni
        í Tabargah.  Landsmenn hafa
        gert sér grein fyrir mikilvægi ferðaþjónustunnar og lagt áherzlu
        á fluting þjóðlegrar tónlistar í tónlistahöllinni (Rachidia) auk
        evrópskrar tónlistar.  Þeir eru stoltir af El Azifet, kvennahljómsveit, sem flytur
        aðallega malouf- og mouachah-tónlist, og hefðbundnum tónlistarmönnum
        eins og Anwar Brahem.  Kvikmyndagerð
        hefur aukizt og túnískar kvikmyndir eru farnar að sjást víða um
        heim.  Nokkrar myndanna hafa
        notið vinsælda, s.s. Þögn hallanna og Sumar í La Gouletta. 
        Margar erlendar kvikmyndir hafa verið gerðar að hluta í
        landinu, s.s. Enski sjúklingurinn og Stjörnustríð. 
           
          
          Daglegt
        líf. 
        
          
          Túnismenn hafa áhyggjur af áhrifum vestrænnar menningar og
        þær leystu úr læðingi margs konar íhaldsviðbrögð á tíunda
        tugi 20. aldar, einkum hvað varðar konur á opinberum vettvangi. 
        Götukaffihús hafa í auknum mæli orðið athvarf karlmanna, aðallega
        í dreifbýli, þar sem samskipti kynjanna er enn þá á gömlum, hefðbundnum
        nótum.  Landsmenn telja sig
        frjálslyndari og umburðalyndari en margar aðrar arabaþjóðir en
        halda í áberandi, islamskt yfirbragð., 
        Þeir vilja gjarnan fylgjast með þróuninni erlendis án þess
        að breyta lífsháttum sínum og sjónarmiðum. 
           
          Knattspyrna
        (deildabolti) er vinsælasta nútímaíþróttin í landinu. 
        Lið þeirra taka þátt í bikarkeppnum í Afríku og
        Heimsbikarkeppninni.  Fótbolti
        er líka fjölskylduíþrótt og hefur m.a. kallað á gervihnattasjónvarp. 
        Frjálsar íþróttir eru líka vinsælar og túnískir hlauparar
        hafa náð langt í alþjóðlegum keppnum í miðvegalengdum og löngum
        hlaupum. 
           
          
          
        
        
          Ferðaþjónustan
        hefur skilað drjúgum skildingi, sem hefur leitt til uppbyggingar
        golfvalla, gönguleiða og seglbrettaíþróttarinnar. 
        Túnískar konur hafa ekki verið útilokaðar frá þátttöku
        í íþróttum eins og í öðrum arabalöndum og þær hafa verið
        hvattar til íþróttaiðkana frá unga aldri. 
        Hið hefðbundna sport, villisvínaveiðar, er mest iðkað á
        sandöldusvæðum, hæðóttu landslagi og til fjalla í Tabarqah.  |