| 
           
        Safaqis
        er mikil hafnarborg í miðausturhluta Túnis á norðanverðri strönd
        Gabes-flóa.  Safaqis er næststærsta
        borg landsins.  Hún reis á
        grunni tveggja þorpa í fornöld, Taparura og Thaenae. 
        Snemma á dögum islam varð hún að markaði fyrir hirðingja. 
        Normanar, sem komu frá Sikiley, lögðu hana undir sig um tíma
        á 12. öld og á 16. öld komu Spánverjar. 
        Um tíma var borgin aðsetur Barbary-sjóræningja. 
        Frakkar létu sprengjum rigna yfir borgina árið 1881, skömmu
        áður en þeir lögðu Túnis undir sig, og í síðari heimsstyrjöldinni,
        þegar möndulveldin réðu yfir henni. 
        Þá náðu Bretar henni á sitt vald árið 1943. 
        Bygging nútímahafnarinnar hófst árið 1895. 
           
          Safaqis
        er nú miðstöð samgangna og útflutingshöfn fosfats frá Qafsah-héraðinu
        og er í vega- og járnbrautasambandi við það. 
        Höfnin þjónar líka talsverðum fiskveiðiflota, sem aflar hráefnis
        fyrir niðursuðuverksmiðjur.  Auk
        fosfats er talsvert flutt út af ólífuolíu, espartograsi og svömpum. 
        Gamla arabahverfið (medina) með 10. aldar mosku og kastala
        (casbah) er umkringd upprunalegum múrum, sem voru byggðir á 9. öld. 
        Umhverfis borgina er ræktað espartogras, grænmeti og ólífur. 
        Innar í landinu eru olíulindir og leiðslur. 
        Áætlaður íbúafjöldi árið 1984 var rúmlega 230 þúsund.  |