| 
           
          
        Sjálfstæði. 
        Frakkar veittu Túnis fullt sjálfstæði með samningum, sem náðust
        20. marz 1956 og Bourguiba var kjörinn forsætisráðherra. 
        Konungsveldið var afnumið og hinn 25. júlí 1957 var lýst
        yfir stofnun lýðveldis með Bourguiba sem forseta. 
                    
        Innanlandsþróun. 
           
                    Eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna lofaði Nýi stjórnarskrárflokkurinn
        hröðum umbótum, einkum á sviði menntunar, aukins frelsis kvenna og
        löggjafar. 
        Flokkurinn skipti um nafn á árunum 1964-88 og hét þá Sósíalíski
        stjórnarskrárflokkurinn og síðan Demókratíski stjórnarskrárflokkurinn
        (RDI). 
        Þróun efnahagsmála var hæg og ríkisstjórnin lagði áherzlu
        á stuðning við hin fátæku héruð landsins. 
        Árið 1961 tók Ahmad Ben Salah að sér skipulagningu fjármála
        landsins. 
        Hann geistist áfram í umbótum á mörgum sviðum, þó einkum
        í landbúnaði, en mætti andstöðu íhaldsafla. 
        Hann var rekinn úr flokknum og fangelsaður 1969 en slapp úr
        haldi 1973 og lifði í útlegð. 
        Eftir þessa tilraun til umbóta var ríkisstjórnin hófsamari
        í aðgerðum sínum. 
           
          
        Árið
        1975 samþykkti þingið, að hinn aldraði og sjúki Bourguiba yrði
        forseti til lífstíðar. 
        Hann setti æ meiri svip á stjórn landsins og hafði alla tauma
        í sinni hendi. 
        Hedi Amira Nouira, sem var kunnur fyrir viðskipta- og stjórmálakænsku,
        varð forsætisráðherra í nóvember 1970. 
        Stjórn hans mistókst samt að leysa efnahagsvandann og vaxandi
        kröfur frjálslyndari arms flokks hans um umbætur. 
        Áratug síðar tók Muhammad Mzali við embættinu og reyndi að
        snúa óánægðum flokksmönnum til stuðnings flokkinn á ný. 
        Árið 1981 náðaði hann marga, sem höfðu verið fangelsaðir
        fyrir aðgerðir gegn stjórnvöldum. 
        Honum tókst að sannfæra Bourguiba um kosti fjölflokkakerfis,
        þótt útkoman yrði aðeins einn löglegur stjórnarandstöðuflokkur. 
           
          Úrslit
        kosninganna í nóvember 1981 ollu frjálsræðisöflunum í landinu
        vonbrigðum. 
        Þjóðarflokkurinn, bandalagsflokkur Sósíalíska stjórnarskrárflokksins,
        og verkalýðshreyfingin fengu öll 136 þingsætin og skildu stjórnarandstöðuflokkin
        eftir áhrifalausan í stjórn landsins. 
        Samtímis var andstöðuflokkur múslima í vexti (MTI). 
        Árið 1984 gerði Bourguiba sér grein fyrir áhrifum islamskra
        öfgamanna í uppreisnum og mótmælaaðgerðum vegna hækkandi verðlags. 
        Hann lét herinn fást við MTI á óvæginn hátt. 
        Bourguiba var vinsæll meðal þjóðarinnar í upphafi ferils síns
        nema meðal íhaldshópa en honum förlaðist og hlutlaus andstaða þjóðarinnar
        gegn honum óx. 
        Heilsu hans fór hrakandi og honum tókst ekki að fela einræðistilhneigingu
        sína. 
        Helztu andstöðuflokkarnir fengu ekki að taka þátt í
        kosningunum árið 1986 og Þjóðarflokkurinn fékk öll atkvæðin. 
        Í kjölfar mikilla óeirða og vaxandi stuðnings við islamskar
        hreyfingar var Boruguiba lýstur óhæfur til að sinna embætti og var
        settur af í nóvember 1987. 
        Eftirmaður hans var Zine el-Abidine Ben Ali, hershöfðingi, sem
        Bourguiba hafði skipað forsætisráðherra einum mánuði áður. 
           
          Ben
        Ali forseti lofaði frjálsræði í stjórnmálum og lýðræði. 
        Fyrstu aðgerðir hans beindust að því að efla samhug þjóðarinnar. 
        Margir stjórnmálaflokkar voru leyfðir en MTI (Al-Nahda) ekki. 
        Þessar aðgerðir dugðu ekki til samkeppni milli margra flokka
        í kosningunum 1989. 
        Forsetinn fékk 99% atkvæðanna og RDI náði öllum sætum
        (141) á þingi. 
        Stjórnarandstöðuflokkarnir tóku ekki þátt í sveitarstjórnarkosningunum
        árið 1990, þannig að þar unnu stjórnarsinnar öll sæti. 
        Í kjölfar sigurs alsírískra bókstafstrúarmanna árið 1990
        og andstöðu þeirra gegn Flóabardaga 1991 gerði stjórnin gangskör
        að því að berja niður stjórnmálastarfsemi þeirra. 
           
          Stjórnarandstæðingar
        urðu brátt óánægðir með þessa nýju stjórn landsin, þrátt
        fyrir meira frjálsræði í blaðaútgáfu og lausn pólitískra fanga. 
        Stjórnin brást hart við andstöðunni og hefur verið gagnrýnd
        fyrir mannréttindabrot og misnotkun öryggissveita hersins. 
        Málamyndabreytingar á kosningafyrirkomulaginu hafa ekki orðið
        til þess, að aðrir flokkar hafi deilt völdum með flokki forsetans. 
        Fjölmiðlar og ýmis samtök og flokkar hafa misst hið takmarkaða
        frjálsræði, sem tókst að knýja fram, og stjórn Ben Ali hefur legið
        undir vaxandi ámæli fyrir einræðistilburði. 
        Stjórnin hefur margtuggið, að breytingar í lýðræðisátt
        taki langan tíma og ekki megi koma uppbyggingu þjóðareiningar og
        efnahagslífsins úr jafnvægi. 
           
          Utanríkismál. 
        Utanríkisstefna Bourguiba byggðist á þeirri sannfæringu, að
        framtíð Túnis byggðist á samskiptum við vestrænar þjóðir,
        einkum Frakka og Bandaríkjamenn. 
        Snemma á valdaferli hans kom til nokkurra árekstra við Frakka,
        m.a. þegar þeir gerðu sprengjuárás á þorpið Saquyat Sidi Yusuf
        árið 1958. 
        Frakkar sögðust vera í fullum rétti að elta alsírska hryðjuverkamenn
        og koma þeim fyrir kattarnef, hvar sem þeir fyndu þá. 
        Þá varð árekstur við Frakka í Bizerte 1961 varðandi áframhaldandi
        afnot þeirra af höfninni og flugvellinum í hernaðarskyni. 
        Frakkar hættu öllum stuðningi við Túnis á árunum 1964-66,
        þegar allt land í eigu útlendinga í Túnis var tekið eignarnámi. 
        Að frátöldum þessum árekstrum hefur samband Túnis og Frakka
        batnað með tímanum og svipaða sögu má segja um BNA, þótt óánægju
        hafi gætt í Túnis vegna hlutverks Bandaríkjamanna í Flóabardaga og
        stefnu þeirra í samskiptum við lönd þriðja heimsins. 
           
          Sambandið við Vesturlönd var ekki látið trufla jákvæða
        stefnu landsins í viðskiptum við þróunarlöndin og Sovétríkin. 
        Bourguiba tók ekki afstöðu með eða móti Vestur- og
        Austurblokkunum og átti vinsamleg samskipti við báða aðila, þannig
        að landið var hvorugum háð. 
        Þetta raunsæi Bourguiba náði einnig til annarra arabaríkja.  Hann
        afneitaði hugmyndafræðilegum rökum deiluaðila í Miðjarðarhafsbotnum
        og færði rök að því, að arabar ættu að viðurkenna Ísraelsríki,
        og að eining araba byggðist fremur á hagkvæmri samvinnu en pólitískum
        samruna. 
           
          Ben
        Ali forseti hefur fylgt svipaðri stefnu. 
        Þörfin fyrir öryggi og baráttan fyrir bættum efnahag, einkum
        með erlendum viðskiptum og fjárfestingum, mótar stefnuna í utanríkismálum. 
        Óviss framtíð og stöðugleiki Bandalags Maghreb-ríkjanna
        undanfarin ár hefur leitt til þess, að Túnis hefur gert gagnkvæma
        samninga við önnur arabaríki um að stofna til fríverzlunar milli ríkja
        Arababandalagsins og styrkingu efnahagslífs landanna. 
        Túnis undirritaði samning við ESB árið 1998 og treysti þannig
        sambandið við önnur lönd við Miðjarðarhafið. 
        Einnig hefur tekizt að treysta viðskiptasambönd í Austur- og
        Suðaustur-Asíu. 
        Sambandið við BNA er sterkt og hefur gert Túnis kleift að
        koma fram sem stöðugt, traustvekjandi og hófsamt ríki. 
        Túnis er aðili að mörgum alþjóðlegum stofnunum, s.s.
        Sameinuðu þjóðunum, sem stjórn landsins lítur á sem verndara smáríkja
        og tryggi virkni alþjóðalaga.  |