Sri Lanka landið náttúran,
Flag of Sri Lanka


SRI LANKA
NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Jarðfræðilega er Sri Lanka framhald indverska meginlandsins.  Aðalsteintegundir eyjarinnar eru hellugrjót, gneis og granít.  Flæðilönd teygjast langt á haf út.  Aðaljarðvegurinn er rauðleitt laterít.

Yfirborð eyjarinnar er jafneinfalt og jarðfræðilegur grunnur hennar.  Þar eru einkum tvö áberandi einkenni í landslagi:  Í suðurhlutanum er fjalllendi, (Miðhálendið), sem teygir sig hæst í rúmlega 2500 m hæð yfir sjó.  Það nær yfir u.þ.b. fimmtung flatarmáls eyjarinnar.  Láglendissvæðin umhverfis Miðhálendið eru mun víðáttumeiri.  Í suðvestur-, suður- og suðausturhlutunum eru þau að vísu ekki nema mjóar ræmur meðfram fjöllunum, en norðan fjalla er það stórt og óslitið.

Fjöllin hækka í þremur aðalstöllum upp frá ströndinni og meðal fegurstu og áhugaverðustu náttúruperlna landsins eru fossarnir, sem steypast fram af þeim.  Neðsti stallurinn (30 m.y.s.) er í sömu hæð og láglendið umhverfis fjöllin.  Á láglendinu rísa sérkennileg, stök fjöll nokkur hundurð metra yfir umhverfið og þeim fjölgar, þegar nær dregur Miðhálendinu.

Mestur hluti strandlengju eyjarinnar er hafnlaus, líkt og suðurströnd Íslands, með lónum og rifum.  Suðurströndin, á milli borganna Panadura og Hambantota, og norðurströndin, milli Trincomalee og Pulmoddai, er öðruvísi.


Loftslag landsins er hitabeltisloftslag með monsúnáhrifum.  Svona loftslag ríkir í allri Suðaustur-Asíu og regntímabilin eru merkin um árstíðaskipti.  Suðaustanmonsúninn veldur úrkomu frá maí til september, en norðaustanmonsúninn er þurr frá desember til febrúar.  Tímabilin á milli þeirra eru laus við þessa staðvinda.  Landslagið á eyjunni hefur líka áhrif á veðurfarið.  Miðhálendið veldur mikilli úrkomu áveðurs og dregur úr henni hlémegin, þar sem rignir meira á veturna en á sumrin, einkum þegar fjær dregur ströndinni.

Sri Lanka liggur nærri miðbaug og því er hitastig fremur hátt.  Meðalsumarhitinn við ströndina er á milli 26,5°c og 28°C.  Heitasti tíminn er ekki sumarið, eins og vænta mætti, heldur vorið, apríl og maí.  Hitamunurinn milli heitustu og svölustu tímabilanna er mjög lítill.  Í höfuðborginni, Colombo, er hann 1,8°C og undir 5°C á þurrustu svæðunum.  Hitamunur dags og nætur er líka óverulegur, innan við 5°C á ströndinni og 10°C inni í landi.

Hitaskilyrðin á Miðhálendinu eru allt önnur, því að það kólnar með hæð.  Í Nuwara Elyia (1896 m.y.s.) er meðalhitinn á daginn 12°C lægri en í Colombo.  Stundum verður næturfrost þarna uppi.

Gróður:  Leifar upprunalegs gróðurs finnast enn þá á afskekktum og stöðum og illaðgengilegum.  Sums staðar hefur ræktun verið hætt vegna óhagkvæmni.  Þar hefur náttúrulegur gróður fest rætur á ný, en hann er ekki upprunalegur.  Á úrkomusvæðunum í suðvesturhlutanum eru regnskógar, laufskógar, þokuskógar og votlendar gresjur (patana) í mismunandi hæð yfir sjó.  Í norðaustur-hlutanum vaxa monsúnskógar, þurrar gresjur, strand- og þyrnirunnagresjur, þegar fjær dregur Miðhálendinu.

Dýralíf:  Sömu sögu er að segja um villidýrafánuna og flóruna.  Villidýrum (fílum, hlébörðum, kattardýrum (mungo), vatnabuffölum, sjakölum, hálföpum (lori), krókódílum, slöngum o.fl.) fækkað mjög vegna ofveiði og ofsókna.  Nú er reynt að vernda dýrastofnana og koma í veg fyrir, að þeir deyi út.  Það eru 24 náttúruverndarsvæði í landinu, sem ná yfir u.þ.b. 10% flatarmáls þess.  Fjöldi apa í Sri Lanka er óvenjulega mikill.  Aparnir, sem eru flestir af tegundinni langura, eru hreinlega alls staðar, bæði innan og utan borga.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM