Sri Lanka sagan,
Flag of Sri Lanka


SRI LANKA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lega eyjarinnar Ceylon svo nærri ströndum indverska meginlandsins á mikinn þátt í þróun sögu Sri Lanka.  Talið er, að þjóðflutningar singalesa til Ceylon hafi byrjað á 5. öld f.Kr. og frumbyggjarnir hafi smám saman orðið að víkja fyrir þeim.  Singalesarnir fluttu með sér Búddatrúna.  Singalesar voru vel að sér í ræktun hrísgrjóna og komu upp litlum tjörnum til vatnsmiðlunar, sem eru notaðar enn þá og eru kenndar við þá.  Fyrsta höfuðborg þeirra og miðstöð Buddhatrúarinnar varð Anuradhapura (ca. 380 f.Kr.- 993 e.Kr.), síðar Polonnaruwa.

Í upphafi 16. aldar hófst nýlendutíminn á Ceylon.  Portúgalar lentu þar   fyrst árið 1505 og komu upp verzlunarstað nokkrum árum síðar.  Þeir tóku jafnframt að sér að verja singalesísku konungana fyrir árásum araba og fengu í staðinn mikið af Ceylonkanil, sem var mjög eftirsóttur í Evrópu.  Árið 1658 hröktu Hollendingar Portúgala brott með stuðningi konungsins í Kandy.  Þeim tókst að ná allri eyjunni undir áhrif sín fyrir árið 1765.  Bretum tókst samt að ná völdum þar árið 1796 og lýstu eyjuna brezka krúnunýlendu árið 1802.  Árið 1816 hröktu þeir síðasta konunginn í Kandy frá völdum eftir blóðug átök. Nýju nýlenduherrarnir hófu mikinn plantekrubúskap og ræktuðu kaffi, te, og gúmmítré.  Efnahagslíf landsins blómstraði við þessa nýsköpun í atvinnulífinu.  Verkafólk af tamílskum uppruna var flutt til landsins frá Suður-Indlandi.

Síðan í lok 19. aldar hefur þjóðin tekið þátt í stjórn landsins.  Brezku nýlenduherrarnir voru tregir til að breyta stjórnarskránni í þá átt, að af því yrði, en 4. febrúar 1948 tóku þeir sjálfstæðisyfirlýsingu Ceylon mótmælalaust.  Landið var áfram hluti af Brezka samveldinu, en það átti í ýmsum erfiðleikum vegna arfleifðarinnar frá nýlendutímanum.  Deilur milli Búddamanna (singalesa) og hindúa (tamíla) hófust á ný.  Auk þess olli plantekrubúskapurinn miklum efnahagslegum þrengingum og aðalfæða þjóðarinnar, hrísgrjón, var aðeins ræktuð í litlum mæli í landinu.  Fyrsti kvenforsætisráðherra heimsins, Sirirmavo Bandaranaike, stóð frammi fyrir þessum vanda árið 1960.  Bæði kjörtímabilin, sem hún var við völd, 1960-1964 og 1970-1977, stjórnuðu ríkisstjórnir hennar með hörku í anda sósíalista.

Þegar ný stjórnarskrá tók gildi 22. maí 1972, varð Ceylon að lýðveldi og nafnið Sri Lanka var tekið upp.  Junius Richard Jayewardene tók við völdum af Bandaranaike árið 1977.  Hann hefur breytt stjórnarskránni einu sinni á valdaferli sínum.  Eftir stjórnarskrárbreytinguna varð Sri Lanka að lýðveldi með þingbundinni stjórn og forseta og var kallað Demókratísk-sósíalíska lýðveldið Sri Lanka.

Aðalvandamál stjórnarinnar var áfram sjálfstæðisbarátta tamíla, sem vildu stofna sjálfstætt ríki á norðurhluta eyjarinnar.  Í lok áttunda og byrjun níunda áratugarins kom til blóðugra átaka.  Eftir friðarumleitanir í júlí 1985, þegar fallizt var á takmarkaða sjálfstjórn tamíla, virðist ástandið hafa batnað.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM