Sri Lanka skoðunarvert,
Flag of Sri Lanka


SRI LANKA
SKOÐUNARVERÐIR  STAÐIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Colombo (800.000 íb.) er höfuðborg og aðalhafnarborg Sri Lanka á vesturströndinni.  Stjórnarbyggingar landsins eru í úthverfinu Sri Jayewardenepura, þar sem hét áður Kotte.  Mörk borgarinnar í norðri er áin Kelani-Ganga og þaðan teygist hún u.þ.b. 10 km til suðurs.  Colombo er ein fegursta borg og mikilvægasta hafnarborg Asíu.  Miðborgin er, þar sem áður var bær, sem bar nafn portúgalsks virkis.  Þar er nú hafnar- og markaðshverfið Pettah og strandgatan Galle Face með grænum görðum, þar sem áður var brezkur skeiðvöllur, norðan við Beiravatnið.

Ekki er vitað nákvæmlega um upphaf borgarinnar.  Höfnin (Kalamba á singalesísku) var til á 8. öld, þegar arabar notuðu hana sem umskipunarhöfn fyrir fílabein, krydd og eðalsteina.  Blómaskeið borgarinnar hófst við komu Portúgala.  Þá varð hún miðstöð viðskipta, stjórnsýslu og menningar.  Á dögum Breta varð hún að alþjóðlegri hafnarborg.  Árið 1855 var fyrsta járnbraut eyjarinnar lögð milli Colombo og Kandy.  Núna er Colombo líka kölluð garðaborg Asíu vegna hinna mörgu garða þar og hún er líka meðal snyrtilegustu og hreinlegustu borga Asíu.

Bezt er að byrja skoðunarferð um borgina við rústir virkisins bak við Queen's House.  Markaðshverfið Pettah er ekki langt þaðan til austurs.  Eins og í öðrum austurlenzkum borgum er markaðurinn í einni götu, þar sem búa aðallega islamskir márar.  Þeir eiga sér stóra *mosku við New Moor Street.  Þar, í næsta nágrenni, eru hindúahofin tvö, Kali Kovil og Kadhiresen Kovil.  Í hverfinu norðan Pettah býr hér um bil eingöngu kristið fólk.  Þar er hin skraut-lega katólska kirkja *Santa Lucia.  Hún er aðallega í barokstíl og byggingu hennar lauk árið 1910 eftir 34 ára byggingartíma.

**Þjóðminjasafnið í Viharamahadevi-garðinum sunnan Beiravatnið er áhugaverðasti skoðunarstaður borgarinnar.  Þar eru m.a. munir frá tímaskeiðunum, sem kennd eru við Anurhadapura, Polonnaruwa og Kandy, bronzmunir og málverk og Búddalíkneski frá 5. öld, sem talið er eitt hið fegursta sinnar gerðar.

Skammt suðaustan er Sjálfstæðishöllin.  Hún er opin, með bogaþaki, sem margar súlur bera uppi.  Bretar gáfu íbúum landsins þetta hús, þegar það varð sjálfstætt árið 1948.  Í Borella-hverfinu, austan Þjóðminjasafnsins, er musterið Gotami Vihara, sem er þekkt fyrir málverk samtíðarmálarans George Keyt.  Málverkin lýsa atvikum úr lífi Gautama Buddha á nýjan hátt.

*Galla Face strandgatan sunnan virkisins við Indlandshaf er fallegust við sólarlag.

*Wolfendahl-kirkjan í samnefndu hverfi, norðvestan Pettah, var byggð árið 1749 í 'hárfléttustíl' á dögum Hollendinga.

Cinnamon Gardens-hverfið er íburðarmikið íbúðahverfi suðaustan Viharamahadevigarðsins.  Þar voru fyrrum hinir frægu kanilgarðar Colombo, sem var breytt í lystigarða.

*Issipatanarayama-Buddhahofið er sunnar í Havelockhverfinu í fallegum garði.  Þak hofsins er tvístallað og inni í því eru frægar veggmyndir.

Fjallið Lavinia gnæfir yfir leiðinni milli Colombo og Galle, 13 km sunnar.  Þar er eitt vinsælasta útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar.  Við rætur fjallsins er falleg baðströnd og nokkur hundruð metrum utan hennar eru kóralrif.

Tíu km norðan Colombo er hið fræga Buddhamusteri í Kelaniya, *Raja Maha Vihara.  Ár hvert í jan./febr. er haldin þar Duruthu-Perahera-hátíðin, sem fílar taka þátt í, til minningar um heimsókn Buddha.  Þá er dansað og fleira gert til gamans.

Negombo, 32 km norðan Colombo, er ein mikilvægasta miðstöð katólskra á Sri Lanka.  Þar eru góðar *baðstrendur.  Í nærliggjandi pálmum prýddum sjávarþorpum eru sérstæðar kirkjubyggingar.

AÐRIR  SKOÐUNARVERÐIR  STAÐIR
Ratnapura
(35 m.y.s.), eðalsteinabær Sri Lanka, er 92 km sunnan Colombo.  Þangað sigldu arabar, sem verzluðu með safíra, gimsteina, túrmalínsteina, rúbína, tópasa og aðra eðalsteina.  Gimsteinasafnið ('Gem Museum') er skoðunarvert.

*Adamstindur (Sri Pada; 2243 m), fimmti hæsti tindur Sri Lanka, er Helgafell Búddamanna, hindúa, múslima og kristinna.  Pílagrímar ganga á fjallið á nóttunni til að vera á tindinum við sólarupprás.  Helgi fjallsins fyrir Buddhamenn byggist á 1,60 m löngu og 75 sm breiðu fótafari Buddha þar uppi.  Hindúar álíta það fótspor Shiva, kristnir og múslimar segja það spor Adams.

Beztu *baðstrendur vesturstrandarinnar eru sunnan Colombo, í Galle og sunnar.  Þjóðvegurinn liggur um pálmaplantekrur, þar sem er gert áfengt 'toddý' úr pálmasafanum.  Beruwelaströndin, u.þ.b. 55 km sunnan Colombo er frábær.  Utan hennar er kóralrif, sem skýlir henni og myndar vík (hótel).  Skammt sunnar er heilsubótarstaðurinn Benota.  Rétt hjá Galle er Hikkaduwa með fallegum *Kórallagörðum.  Þangað sækir fólk, sem stundar köfun, einkum á veturna, þegar sjórinn er sléttur og tær.

Galle er nærri suðurodda eyjarinnar.  Þar eru enn þá merki um veru Hollendinga.  Virkismúrar, sem liggja meðfram ströndinni og enda í virki á skaganum, lokuðu leið innrásarmanna.  Byggingu *Hollenzku kirkjunnar við Kirkjustræti var lokið árið 1755.  Anglíkanska allraheilagrakirkjan er frá árinu 1871.  Borgin er þekkt fyrir knipplinga og listaverk úr skjaldbökuskeljum.  Þar eru líka slípiverkstæði fyrir eðalsteina.  Norðan borgarinnar eru gúmmí- og kókospálmaplantekrur.

Á suðausturodda eyjarinnar, 150 km frá Galle, er Yalaþjóðgarðurinn, þar sem hægt er að skoða buffala, dádýr, fíla og fjölda fuglategunda.

Miðhálendið.  Hver, sem vill líta yfir hið sérkennilega terunnalandslag á hálendinu, ætti að aka í rútu eða lest til Nuwara Eliya (1896 m.y.s.), sem á miðju teræktarsvæði, þar sem verðmætasta og bezta teið er ræktað.  Nuwara Eliya er 170 km austan Colombo.  Þar er góður golfvöllur og gott göngusvæði. Frá *Hakgalalystigarðinum er gott útsýni yfir Uvadalinn.

Umhverfis Nuwara Eliya er fjöldi heilsubótarþorpa:  Bandarawela, Diyatalawa og Ella, öll innan 50-70 km.  *Dova-musterið, rúmlega 5 km sunnan Ella er skoðunarvert.  Í grennd við Diyaluma-fossana og við Buduruvagala, sunnan Ella, eru **klettahöggmyndir, þ.á.m. 15 m hátt Buddha-líkneski.  Í Ramboda-skarðinu, 23 km norðvestar, eru samnefndir fossar og 35 km sunnar eru Horton-slétturnar (2000 m.y.s.), þar sem vaxa margar tegundir villtra blóma, s.s. orkideur.  Fjalllendið er í fegurstum blóma í apríl og þá gefast flest tækifæri til afþreyingar, s.s. tennis, golf, stangaveiði, fílaveðreiðar o.fl.  Á veturna er allsvalt þarna uppi.

Badulla er 60 km austan Nuwara Eliya við austurjaðar Miðhálendisins. Bærinn er upplagður dvalarstaður fyrir göngufólk.  Járnbrautin, sem liggur þangað, nær 1800 m hæð yfir sjó og lestirnar fara um stór teræktarsvæði.  Landslagið á leiðinni er ákaflega fallegt.

Kandy er við vesturenda hins bogalagaða Kandy-vatns 125 km norðaustan Colombo.  Hún var fyrrum höfuðborg singalesísku konunganna, en er nú höfuðborg Miðhéraðsins.  Í hinu fræga *Dalada Maligawamusteri er varðveitt heilög tönn Buddha.  *Esala Perahera-hátíðin, helguð hinni heilögu tönn, er ein mesta skrúðgönguhátíð í Suðaustur-Asíu og hefur verið haldin frá fyrstu tímum Buddhatrúarinnar á eyjunni.  Síðar 1774 hefur þessi mesta skrauthátíð Sri Lanka verið haldin í Kandy.  Hún er haldin í 10 nætur í júlí/ágúst.  Meðal þátttakenda í skrúðgöngunum eru fílar, dansarar og bumbuslagarar, sem fara um götur á eftir skreyttum fíl, sem ber eftirmynd af hinum helga dómi.

Skammt sunnan musterisbygginganna er hús í hollenzkum stíl frá 1756.  Þar er *Þjóðminjasafn Kandy, sem hýsir m.a. gullkórónu Raja Sinha II konungs (1635-1687), fílabeins- og tréskurðarmuni, handrit úr pálmablöðum o.fl.

Á suðurströnd Kandyvatnsins er Buddhaklaustrið *Malwatte Vihara, sem var reist á 18. öld.

Skammt suðaustan Kandy er **Peradeniya-lystigarðurinn með fjölbreyttri hitabeltisflóru.

Í Kandy er ágætisgolfvöllur.  Listamenn borgarinnar og nágrennis hennar skapa lakkaða trémuni, gripi úr messing og vefa tágamottur.  Úrval listmuna fæst í Arts & Crafts Centre í Kandy.

**Vestara musterissvæðið frá 14. öld er 15 km suðvestan Kandy.  *Gadaladeniya Vihara-musterið er steinbygging á fallegum stað.  Það er skreytt lágmyndum.  *Lankatilaka Vihara-musterið prýða fallegar, útskornar hurðir og veggmyndir.  *Embekke Devale-musterið hýsir tréskurðarlistaverk.  Musteri, sem eru kunn fyrir veggmyndir sínar eru:  *Hindagala hellahofið og *Degaldoruwa Vihara hellahofið.  Þau eru bæði skammt frá Kandy.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM