Melbourne Ástralía,
Flag of Australia


MELBOURNE
ÁSRALÍA
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Melbourne er höfuðborg Viktoríufylkis við mynni Filipshafnarflóa á suðausturströndinni.  Þótt íbúar hins litla svæðis, sem borgin nær yfir, séu færri en 65.000, er stórborgarsvæðið mun stærra, þannig að hún er suðlægasta miljónaborg heimsins.  Heildarflatarmál stórborgarsvæðisins er 6109 km².  Melbourne er næststærsta borg Ástralíu eftir Sidney og góðlátleg samkeppni ríkir milli borganna, sem eru landfræði- og sögulega ólíkar.  Flatlendi Melbourne leiddi til ferhyrninglagaðs skipulags en þar eru engu að síður margir fallegir garðar og þeir, sem hafa gott auga fyrir byggingarlist og sögu, finna margt við sitt hæfi.  Borgarbúar eru þekktir fyrir íhaldsemi og skynsemi í fjármálum, sem hefur leitt til vaxtar borgarinnar og kemur fram í byggingum miðborgarinnar og austurúthverfunum, sem eru í örum vexti.

Borgarmyndin.  Aðalborgin er við norðurenda Filipshafnarflóa, 55 km frá mjóu mynni hans.  Mestur hluti flats landslagsins er lægri en 120 m yfir sjávarmáli.  Frá mynni Yarra-árinnar fylgir borgin landslaginu og vatnshallanum.  Vestan upprunalegu borgarinnar fylltu blágrýtishraun dalina í landslaginu á tertíertíma og skildu þá eftir sem flatneskju.  Austurhlutinn er í öldóttu landslagi úr sandsteini, flögusteini og völubergi á silurían- og devontímum.  Þykkur jarðvegur austurhlutans og meiri úrkoma þar elur af sér mun fleiri tré en í vesturhlutanum.  Borgin hefur stækkað til austurs á svæðinu milli Darebin-gils, Plenty- og Yarra-ánna og Koonung- og Gardiners-giljanna.  Ósamræmið í þróun borgarinnar meðfram allri austurströnd Filipsflóa frá mynni Yarra-árinnar að Nepean-skaga (97 km) og aðeins 17 km til vesturs er áberandi.

Loftslag.  Veðurlagið í borginni ræðst aðallega af austanvindum frá háþrýstisvæðum, sem lágþrýstidrög skilja að.  Þetta veðurbelti liggur sunnan álfunnar á sumrin en yfir norðurhluta Viktoríufylki á veturna.  Meðalársúrkoman , 657 mm, er nokkuð jöfn allt árið, þótt október sé úrkomusamasti mánuðurinn og janúar hinn þurrviðrasamasti.  Hitafarið er temprað og frost er sjaldgæft.  Meðalhitinn er 13°C í júlí og 26°C í janúar.  Austanvindarnir bera brott mestu mengunina í borginni.

Skipulag.  Upprunalega borgarstæðið, sem er nú fjármála- og stjórnsýsluhverfið og miðstöð starfsemi kirkjunnar, var grundvallað á ferhyrningsreglunni og hefur ekki breytzt hvað það snertir.  Hverfið snýr að Yarra-ánni á tæplega 2 km löngu svæði og tæpan 1 km upp frá henni.  Innan þessa kjarna eru aðalstrætisvagna- og járnbrautarstöðvarnar, þinghús Viktoríufylkis, dómkirkjur katólíka og ensku kirkjunnar, dómshúsin, fylkisbókasafnið og fjöldi fjármálafyrirtækja, þ.m.t. kauphöllin og aðalstöðvar stærstu bankanna.  Flestar byggingar borgarinnar eru nútímalegar en ráðhúsið, dómshúsin og sýningarhöllin eru góð dæmi um hinn opinbera byggingarstíl á 19. öld.

Fyrstu úthverfin, sem risu, Carlton, Collingwood, Richmond, Prahran, St. Kilda og Brighton, eru líka ferhyrningslöguð.  Raðhús, oft með smíðajárnskreyttum svölum, voru algeng í úthverunum næst miðborginni og í hlutum Carlton og Suður-Melbourne hafa slík hús varðveitzt.  Nú er meira um einbýlishús úr múrsteini í stað skarsúðaðra timburhúsa, sem voru algeng fram yfir 1940.

Íbúarnir.  Fyrsta manntalið var gert 1836, þegar 177 manns bjuggu í bænum (þar af 35 konur).  Á sjötta áratugi 19. aldar greip um sig gullæði á nærliggjandi svæðum í Viktoríufylki og alda innflytjenda reið yfir.  Fólkið, sem dreif að, kom aðallega frá öðrum hlutum landsins og Bretlandseyjum.  Á þriðja áratugi 20. aldar var borgin orðin að heimili rúmlega helmings íbúa fylkisins og í lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru þeir orðnir að einni miljón.

Næsta, stóra bylgja innflytjenda kom á sjötta áratugnum, þega ástralska stjórnin hvatti Evrópumenn til að flytjast til Ástralíu til að mæta þörf vaxandi iðnvæðingar fyrir vinnuafl.  Ríkið tók þátt í ferðakostnaði og aðstoðaði innflytjendurna við að koma sér fyrir, læra ensku, ef þörf var á og koma þeim til starfa.  Í fyrstu kom fólk frá Eystrasaltsríkjunum og Austur-Evrópu, einkum stríðsflóttamenn, og síðan fjöldi Breta og Íra.  Þá voru undirritaðir innflytjendasamningar við Hollendinga, Maltverja, Vestur-Þjóðverja, Ítala, Grikki og Austurríkismenn.  Þessar aðgerðir leiddu til fjölmenningarlegs yfirbragðs Melbourne.  Ítalar, Grikkir og Júgóslavar mynduðu fjölmennustu hópa þeirra, sem töluðu ekki ensku, og árið 1976 talaði í kringum fimmtungur borgarbúa önnur tungumál en ensku.  Snemma á níunda áratugnum fjölgaði innflytjendum frá Suðaustur-Asíu, einkum Víetnam og Kambódíu.

Árið 1966 var íbúafjöldi borgarinnar kominn yfir 2 miljónir og mörk hennar færðust stöðugt lengra til austurs.  Innflytjendur frá Suður-Evrópu komu sér fyrst fyrir í gömlu iðnaðarhverfunum, þar sem leiga var lægst og atvinnutækifæri innan seilingar.  Á þessum svæðum nutu þeir einnig aðstoðar fyrri innflytjenda og samtaka þeirra.  Þegar hagur þessa fólks fór að vænkast, vildi það eignast þak yfir höfuðið og fór að sækja til úthverfanna.  Á fjórða áratugnum bjuggu 90% íbúanna innan 17 km radíuss frá miðborginni en á níunda áratugnum var þetta hlutfall komið niður í tæplega 50% og úthverfin höfðu stækkað og þeim fjölgað.  Þótt hægt sé að flokka nokkur hverfi í vesturborginni sem verkamannahverfi, er stéttablöndun mikil, þegar á heildina er litið.

Efnahagslífið.  Meirihluti íbúa Viktoríufylkis býr í Melbourne og borgin heldur á efnahagslegu fjöreggi þess.  Borgin er fjármálamiðstöð þess og setur fylkisstjórnar og miðstöð samgangna innan og utan fylkis.  Upprunalegi kjarni borgarinnar býður flest atvinnutækifæri en þeim fjölgar nú hraðar í úthverfunum.  Miðborgin hýsir aðallega þjónustuiðnað, banka, tryggingarfélög, smásölu, skemmtiiðnað, opinbera þjónustu og járnbrautasamgöngur.  Umhverfis hana er ófullkominn innri hringur iðnaðarhverfa, þar sem fyrstu vefnaðar- og fataverksmiðjurnar voru stofnaðar á 19. öld.  Í ytri úthverfunum, einkum í austurhlutanum, þróaðist smáiðnaður eftir síðari heimsstyrjöldina, því að land var ódýrt, umferðarvandamál lítil og íbúafjölgun bauð upp á vinnuafl.  Vinnuaflsfrekustu iðnfyrirtæki borgarinnar tengjast málmiðnaði (farartæki o.fl.) og nákvæmnisiðnaði.  Þar að auki er mikill vefnaðariðnaður, fata-, matvæla- og pappírsframleiðsla og prentun, efnavöru-, húsgagna- og byggingavöruframleiðsla.  Mesta tölvuframleiðsla í landinu er í Melbourne.

Höfn borgarinnar nær yfir útgrafið svæði við ósa Yarra-árinnar, suðvestan viðskiptahverfisins í miðborginni.  Hún er stærsta frakthöfn landsins.  Aðalinnflutningsvörurnar, sem fara um höfnina, eru vélbúnaður, vélknúin farartæki, vefnaðarvörur, prentað efni og pappír, járn og stál og efnavara.  Aðalútflutningsvörurnar eru ull, olíuvörur, kjöt, ávextir, hveiti og mjólkurvörur.

Allt frá sjöunda áratugnum hafa sprottið upp verzlanamiðstöðvar í ytri úthverfunum og miðborgin hefur glatað miklu af smásölunni.  Æ fleiri íbúanna gera öll sín innkaup í úthverfaverzlununum fremur en að leggja leið sína niður í bæ.

Samgöngur.  Innanborgar er gott kerfi rafmagnslesta, strætis- og sporvagna.  Á sjöunda og áttunda áratugnum drógu umbætur á gatnahverfinu úr umferðaröngþveitinu, þannig að fólk kemst leiðar sinnar á einkabílunum, sem leiddi til þess að auka þurfti styrki til almenningssamgangna.  Westgate-brúin yfir neðri hluta Yarra-árinnar var gífurleg samgöngubót, sem leiðir umferðina fram hjá miðborginni.  Sömu sögu má segja um opnun neðanjarðarkerfis í viðskiptahverfinu í miðborginni.  Innanlands- og millilandaflugvöllur borgarinnar er á blágrýtissléttu 19 km norðvestan miðborgarinnar.

Stjórnsýsla.  Fylkisstjórnin ber ábyrgð á aðalskipulagi borgarinnar og þjónustu á sviðum heilbrigðismála, menntunar og samgangna.  Rúmlega 50 borgir og sveitarstjórnir hafa afskipti af þessari stjórnun.  Borgarráðsmenn eru kosnir árlega í ágúst.  Þeir þjóna í sjálfboðavinnu en fá þó greiddan útlagðan kostnað.  Borgarráðin samþykkja reglur fyrir sín hverfi og stjórna fjölda þjónustustofnana í tengslum við byggingarstarfsemi, velferðarmál, sorphirðu og bílastæði.  Fjármagns til þessara verkefna er aflað með fasteingagjöldum.

Heilbrigðis- og menntamál.  Síðan frí heilbrigðisþjónusta var tekin upp með byggingu sjúkrahúsa fyrir almenning 1846 hefur heilbrigðiskerfið fært út kvíarnar og mörg einkarekin sjúkrahús hafa bætzt við.

Háskóli borgarinnar (1853) er meðal elztu slíkra í landinu, þótt hann hafi ekki tekið til starfa fyrr en 1855.  Tveir aðrir háskólar starfa í borginni, Monash og La Trobe.  Þeir voru stofnaðir á sjöunda áratugi 20. aldar.  Allir njóta þeir styrkja frá ríkinu.  Framhaldsskólar er víða um borgina.

Menningarlífið blómstraði fyrir 1968, þegar Viktoríulistamiðstöðin á suðurbakka Yarra-árinnar var byggð nærri miðborginni.  Hún hýsir sýningarsali, tónlistarsal og þrjú leikhús auk aðstöðu fyrir ýmsar aðrar listgreinar.  Þjóðlistasafnið var opnað 1861 og var flutt í listamiðstöðina 1968.  Þar eru frábær söfn ástralskrar listar allt frá nýlendutímanum.  Það á líka evrópsk listaverk, þ.m.t. verk frá 18. öld.  Tónlistarhöllin tekur 2600 manns í sæti.  Hljómburðurinn þar er frábær og hún er fagurlega skreytt í litum, sem sóttir eru til gimsteina og námuvinnslu og gefa henni yfirbragð manngerðs hellis.  Eitt hinna þriggja leikhúsa, Ríkisleikhúsið, er aðallega notað fyrir óperuuppfærslur og listdans, Playhouse fyrir leikrit og Studio fyrir létt verk, kabaretta, sjónvarpsefni og sem tilraunaleikhús.  Ár hvert taka alþjóðlegir listamenn á sviðum leik-, tón- og danslistar þátt í uppfærslunum.  Synfóníuhljómsveit borgarinnar var stofnuð 1949 og hefur ferðast um Norður-Ameríku, Japan og Nýja-Sjáland og til helztu borga Ástralíu.

Afþreying.  Bílnúmeraplötur Viktoríufylkis eru merktar „Victoria-Garden State” og Melbourne er verðug höfuðborg þess með 27% af rými innborgarinnar undir almenningsgörðum og auðum svæðum. Þessi svæði voru tekin frá um miðja 19. öldina, þegar skipuleggjendur annarra borga voru uppteknir af fullnýtingu sinna borgarsvæða í viðskiptaskyni.  Stór svæði í úthverfunum hafa verið nýtt fyrir almenningsgarða.  Þekktasti garðurinn í borginni er Konunglegi grasagarðurinn, sem nær yfir 35 hektara lands.  Svæðið undir hann var tekið frá árið 1845 og nú eru þar manngerð stöðuvötn, grasflatir og þúsundir merktra trjáa og runna.  Í jurtahúsinu eru 1,5 miljónir þurrkaðra plantna, sem náttúruunnendur og grasafræðingar alls staðar að úr heiminum skoða og kynna sér.

Í borginni eru hundruð íþróttasvæða, tennisvalla, sundlauga og golfvalla.  Áhorfendaíþróttir eru stundaðar á Krikketvellinum (100.000 áhorfendur), sem er notaður fyrir krikket og ástralskan ruðningsbolta, og á Flemington skeiðvellinum, þar sem bikarkeppnin er haldin í nóvember ár hvert.  Árið 1956 voru sumarólympíuleikarnir haldnir í Melbourne.  Siglingar og stangaveiðar eru stundaðar á Filipsflóa og brettabrun fyrir baðströndunum.  Skíðasvæðin kringum Bullerfjall eru innan seilingar.

Sagan.  Evrópumenn fundu Filipsflóa 1802, þegar skipstjórarnir John Murray og Matthew Flinders komu þangað með nokkurra mánaða millibili.  Þetta svæði var hluti af nýlendunni New South Wales og landstjóri hennar var Philip Gidley King.  Hann fól aðalmælingamanni sínum, Charles Grimes, að kanna Strendur flóans með það í huga að finna svæði til landnáms.  Árið 1803 fundu Grimes og félagar hans Yarra-ána og fóru upp með henni neðanverðri.  Grimes var ekki eins hrifinn af þessu svæði og sumir félaga hans.  Síðar sama ár kom David Collins, skipstjóri, með hersveit og fanga og stofnaði til byggðar í grennd við Sorrento, rétt utan flóamynnisins austanverðs.  Innan nokkurra mánaða ákvað hann að flytja þaðan til Tasmaníu.  Frambúðarbyggð þróaðist ekki fyrr en árið 1835, þegar fyrsti landneminn og athafnamaðurinn John Batman komst að samkomulagi við öldunga frumbyggjanna um kaup á hálfri miljón ekra við botn Filipsflóa.  Hann greiddi með 40 ábreiðum, 30 öxum, 100 hnífum, 50 skærum, 30 speglum, 200 vasaklútum, 100 pundum af hveiti og sex skyrtum.  Batman og erfingjar hans voru skuldbundnir til að greiða árlega leigu í sömu mynd.

Nokkrum dögum eftir að samningurinn var undirritaður fór Batman og tveimur mánuðum síðar settist annar hópur undir stjórn John Fawkner að á bökkum Yarra-árinnar.  Mikið hefur verið deilt um það, hvor þeirra, Batman eða Fawkner, eigi að teljast stofnendur Melbourne.  Batman var aðeins 38 ára, þegar hann dó innan fjögurra ára frá því að samningurinn var gerður og landstjóri New South Wales hafði ógilt hann.  Fjármál Batmans voru í óreiðu, þegar hann dó, og langvarandi málarekstur vegna erfðaskrár hans gerðu eignir hans að engu.  Fawkner varð 76 ára og dó í Melbourne árið 1869 eftir að hafa byggt hótel, stofnað dagblað og bóksölufyrirtæki.  Hann keypti stór landsvæði og var á fylkisþingmaður í 18 ár.

Melbourne fékk kaupstaðaréttindi 1842 og borgarréttindi 1847.  Á sjötta áratugi 19. aldar fannst gull í grennd vi Bendigo og Ballarat í 170 km fjarlægð frá borginni og hún tók vaxtarkipp, þannig að Íbúafjöldinn fjórfaldaðist á þremur árum og varð 80.000.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM