Queensland Ástralía,
Flag of Australia


QUEENSLAND
ÁSTRALÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Queensland er fylki í Norðaustur-Ástralíu.  Norðan þess er Carpentaria-flói, að austan Kóralhaf, að sunnan Nýja Suður-Wales, að suðvestan Suður-Ástralía og Norðurhérað að vestan.  Queensland er næststærsta fylkið eftir Vestur-Ástralíu og nær yfir 1.727.200 km² svæði, 22,5% af heldarflatarmáli Ástralíu.  Strandlengja fylkisins er 7400 km löng og úti fyrir henni er Stóra kóralrifið (Great Barrier Reef) alla leið frá Rockhampton að York-skaga.  Höfuðborg fylkisins er Brisbane.

Hvarfbaugur syðri liggur nokkurn veginn um miðju fylkisins, sem nær yfir stærstu og byggilegustu hluta Ástralíu.  Úrkoma á 90% heildarflatarmáls fylkisins er yfir 200 mm á ári.  Fjallgarðurinn „The Great Dividing Range” liggur eftir fylkinu endilöngu meðfram austurströndinni.  Hann skiptir fylkinu náttúrulega í skýrt afmörkuð svæði:  Austurhálendið, Vesturslétturnar, Norðvesturhálendið og Strandslétturnar, eyjar og rif.  Austurströndin, sem nýtur nægilegrar úrkomu, státar af frábærum baðströndum og ræktunarlandi.  Meðal áberandi landslagseinkenna er Stóra kóralrifið, sem er 2010 km langt.

Norðarlega í þessari löngu fjallakeðju er Bartle Frere-fjall í Bellenden Ker-fjallgarðinum, hæsta fjall fylkisins, 1611 m hátt.  Atherton-sléttan er við norðurenda Darling Downs í suðurhluta fjallakeðjunnar.  Vestan hennar er öldótt grasslétta, sem teygist í áttina að hálfeyðimörkum í vesturhluta fylkisins.

Veðrið í Queensland er hlýtt og sólríkt allt árið og stundum er það kallað Sólskinsfylkið.  Stærð þess og fjalllendi valda fjölbreyttum loftslagsskilyrðum, sem eru að mestu óháð árstíðaskiptum.  Helztu framleiðsluvörur landbúnaðarins, sykur, kjöt, korn og ull, eru ræktaðar við veðurskilyrði hitabeltisins og jaðarbeltisins sunnan þess í norðri og tempraðs loftslags í suðri.

Einhverjar stærstu báxítnámur heimsins eru í Queensland.  Þar eru líka miklar birgðir gulls, kola, sulfurs, blýs og sínks.  Birgðir olíu, úraníums, tins og sands til glergerðar liggja enn þá ónýttar.

Íbúarnir.  Áætlaður íbúafjöldi Queenslands í júní 1992 var rúmlega 3 miljónir, 1¾ íbúi á hvern km², sem gerir fylkið eitt hið strjálbýlasta í Ástralíu.  Samkvæmt manntali 1991 bjuggu rúmlega 70.000 frumbyggjar og Torres-eyjaskeggjar í fylkinu, sem samsvarar 2,4% af heildaríbúafjölda Queensland og 26,4% af heildarfjölda frumbyggja í Ástralíu.  Næstum 45% frumbyggja og Torres-eyjaskeggja í fylkinu búa í höfuðborginni. 

Helztu borgir.  Brisbane, höfuðborg Queensland, er þriðja stærsta borgin í Ástralíu (áætlaður íbúafjöldi 1993 var 1.454.800) og ein hinna örast vaxandi.  Íbúafjöldi hennar rúmlega tvöfaldaðist á árunum 1940-1986.  Ólíkt flestum öðrum fylkishöfuðborgum Ástralíu búa aðeins í kringum 45% íbúa fylkisins í höfuðborginni.  Í Nýja Suður-Wales er talan 63% í Sydney og í Viktoríu búa 70% í Melbourne.  Árið 1991 voru rúmlega 80% íbúa Brisbane fæddir í Ástralíu.  Loftslagið í borginni er jaðartrópískt, þannig að það er þægilegt og ýtir undir frekari útþenslu hennar.  Í kringum 1970 var hún þekkt fyrir ókláraðar götur og sveitalegt yfirbragð.  Breytingarnar féllu ekki öllum í geð vegna þess, hve mörgum sögulegum byggingum og stöðum var fórnað á altari þeirra.  Brisbane óx upp úr Moreton Bay-héraði, sem var fanganýlenda árið 1825.  Gullfundirnir á áttunda áratugi 19. aldar ollu uppgangi, þannig að borgin var orðin allstór upp úr 1890.  MacArthur, hershöfðingi og yfirmaður herafla Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöldinni, hafði höfuðstöðvar sínar í Brisbane.  Samveldisleikarnir voru haldnir þar árið 1982 og heimssýningin 1988.

Í Queenland eru fleiri héraðshöfuðborgir og aðrir bæir en önnur fylki landsins.  Meðal þeirra er ferðamannaborgin Gold Coast (226 þús. 1991), Twonsville (101 þús. 1991), Toowoomba (76 þús. 1991), Rockhampton (60 þús. 1991) og Cairns (65 þús. 1991), sem er hafnar- og iðnaðarborg og ferðamannastaður.

Efnahagslífið.  Allt frá árinu 1970 hefur hagvöxtur í Queensland verið meiri en landsmeðaltalið.  Snemma á tíunda áratugnum fjölgaði íbúunum um 2,4% á ári á meðan landsmeðaltalið var 1,4%.

Landbúnaðurinn var undirstaða efnahagsins og er enn þá mikilvægur í því tillite.  Mest er framleitt af kornvöru, ull, kjöti og sykri.  Sykuruppskeran fæst aðallega í frjósömum dölum og dalverpum meðfram ströndinni og við árósa, einkum norðan Mackay.  Sveiflukennt og ótryggt sykurverð á heimsmarkaði hefur valdið verulegum erfiðleikum.  Snemma á tíunda áratugnum ollu miklir þurrkar miklum samdrætti í landbúnaði.  Queensland framleiðir í kringum 40% af nauta- og kálfakjöti álfunnar.  Nautgriparæktin er aðallega stunduð á Vestursléttunum.  Queensland framleiddi í kringum fjórðung allra landbúnaðarvöru árið 1991 en síðan þá hefur efnahagslífið verið að breytast.  Mun meiri áherzla er lögð á námugröft og vinnslu hráefna og fullvinnslu matvæla.  Helztu jarðefnin, sem eru unnin í fylkinu eru báxít, kol, kopar, silfur, blý, og sink.  Gas- og olíubirgðir eru líka nýttar að hluta.  Helztu framleiðsluvörurnar eru landbúnaðarafurðir og jarðefni, vélbúnaður, skip, sement og neyzluvörur.  Ferðaþjónustan vex stöðugt og er orðinn mjög mikilvægur atvinnuvegur.  Gullströndin (Gold Coast) og Stóra kóralrifið eru meðal þeirra staða, sem laða til sín flesta ferðamenn.  Vaxandi fjöldi alþjóðlegra ráðstefna er haldinn í Queensland og gestir koma um alþjóðaflugvellina við Brisbane og Cairns.

Stjórnsýsla.  Queensland er eina fylkið í Ástralíu með einnar deildar þing með 89 þingmönnum, sem eru kosnir til þriggja ára í senn.  Lögum samkvæmt ber öllum, sem eru orðnir 18 ára, að kjósa í samræmi við ákveðnar reglur um búsetu.  Framkvæmdavaldið er í höndum forsætisráðherra og ráðherra hans.  Á Sambandsþinginu sitja 25 kosnir þingmenn frá Queensland í fulltrúadeildinni.

Í kjölfar sjálfstæðisins frá Nýja Suður-Wales 1859 réðu bændur með margs konar stjórnmálaskoðanir lögum og lofum í Queensland.  Stjórnmálaflokkar þróuðust síðla á 19. öld og sterkur Verkamannaflokkur var næstum óslitið við völd frá 1915-57 (ekki á árunum 1928-33).  Flokkurinn klofnaði á sjötta áratugnum og Landsflokkurinn (Þjóðarflokkurinn) varð til.  Hann starfaði með Frjálslyndum.  Helzti leiðtogi íhaldsmanna var Sir John Bjelke-Petersen, sem var við völd á árunum 1968-87.  Stjónartíð hans einkenndist af óheftri þróun á viðskiptasviðinu og andstöðu gegn frumbyggjum, verkalýðsfélögum og réttindabaráttu kvenna.  Hann var rekinn úr eigin flokki árið 1987 og opinber rannsókn árið 1989 leiddi í ljós gífurlega spillingu á valdaárum hans.  Verkamannaflokkurinn komst aftur til valda 1989 eftir 32 ára stjórnarandstöðu vegna þessara hrikalegu niðurstaðna rannsóknarinnar.  Árið 1992 fékk flokkurinn aftur umboð frá kjósendum.

Sagan.  Upphaf byggðar í Queensland var Moreton Bay-fanganýlendan, sem var stofnuð 1823.  Árið 1831 voru þar saman komnir 1100 fangar og þá fékk nýlendan nafn landstjóra Nýja Suður-Wales, Sir Thomas Brisbane.  Refsihlutverki nýlendunnar lauk árið 1839 og frjálsir landnemar fóru að setjast þar að 1842.  Landnám Evrópumanna var mikið áfall fyrir stóran hóp frumbyggja, sem voru um það leyti í kringum 30% heildarfjölda frumbyggja í Ástralíu, þegar þeir sóttu stöðugt lengra til norðurs.  Fórnarlömb þessara blóðugu átaka voru a.m.k. 20.000 frumbyggjar og 1000 Evrópumenn.  Eftir mikla efnahagskreppu um miðjan sjöunda áratug 19. aldar komu gull- og koparfundir sér vel og efnahagurinn blómstraði fram að aldamótum.  Innflutningur ódýrs vinnuafls frá Suðurhafseyjum hófst í kringum 1860 en lauk 1901, þegar sambandsríkið var stofnað.  Þetta kom sér illa fyrir stóru sykurbúgarðana, sem var síðan skipt niður í smærri einingar og þær urðu síðan undirstaða héraðsmiðstöðvanna.  Síðustu áratugi 20. aldar hefur ferðaþjónustu og framleiðsluiðnaði vaxið verulega fiskur um hrygg.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM