Alabama landið náttúran Bandaríkin,
Flag of United States


ALABAMA
LANDIÐ og NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Alabama er 30. stærsta fylki BNA, 135.775 km² og 1,7% þess eru í eigu alríkisstjórnarinnar.  Það er nokkurn veginn eins og ferhyrningur í laginu, 540 km frá norðri til suðurs og 330 km frá austri til vesturs.  Meðalhæð yfir sjó er 152 m.

Landafræði.  Syðst er láglendi upp af austurhluta Mexíkóflóa, Svarta beltið (landbúnaðarsvæði) er í miðhlutanum og Cumberland-sléttan í norðurhlutanum.  Jarðvegur er að mestu leirkenndur, stundum blandaður sandi eða kalki.  Þá er talsvert af kalksteini, árseti, mýrum og fenjum.  Helztu fjöll eru Beaver Creek-fjallgarðurinn, Lookout-, Colvin- og Talladega-fjöll.  Meðal helztu vatnsfalla eru Arnar Mobile, Alabama, Tombigbee, Chattahoochee og Tensaw.  Helztu þverár Alabamaár eru Coosa, Tallapoosa og Cahaba og Black Warrior-áin er aðalþverá Tombigbee-árinnar.  Stærstu stöðuvötnin eru Guntersville, Wheeler, Wilson (öll við Tennessee-ána), Weiss (við Coosa-ána) og Walter F. George uppistöðulónið (við Chattahoochee-ána).

Loftslagið.  Meðalhitinn er á bilinu 15,6°C í norðurhlutanum og 21,1°C við Mexíkóflóa.  Yfir sumarmánuðina er hætta á fellibyljum á svæðunum næst Mexíkóflóa.

Flóra og fána.  Skógar þekja u.þ.b. 65% lands í Alabama.  Loftslagið er heitt og rakt og gróðurinn hefur langan vaxtartíma á ári, þannig að hann er fjölbreyttur, a.m.k. 125 tegundir trjáa og 150 tegundir runna.  Algengustu trén eru fura, eik, hikkorí, kýpressa, og magnolia.  Meðal algengra runna eru rhododendron, fjallalárviður, azalea og sumac.

Helztu villtu spendýrin eru dádýr, rauðrefir, íkornar, múskatrottur, nutria (líkist bjór), bjór og kanínur.  Fuglafánan er fjölbreytt, t.d. gulhamar (fylkisfuglinn), bláfugl, kardínáli, blákráka og hermiþröstur (mockingbird).  Helztu skriðdýrategundirnar eru snákar, alligatorar, skjaldbökur og eðlur.  Mikið er af fiski í stöðuvötnum og ám, s.s. steinbít, bassa, bramakarfa o.fl.  Í Mexíkóflóa eru m.a. ostrur, rækjur, krabbar, lúða og fjöldi annarra matfiska.

Náttúruauðlindir, framleiðsla.  Meðal helztu jarðefna eru kol (aðallega í norðurhlutanum), olía og náttúrulegt gas (aðallega við austurhluta Mexíkóflóa).  Talsvert er um kalkstein, járngrýti, sand og möl, báxít og leir.  Alabama er í „Svarta beltinu”, sem er mjög frjósamt landbúnaðarsvæði, þar sem baðmullarrækt var ríkjandi.  Jarðhnetur eru orðnar aðaluppskeran auk sojabauna, baðmullar og grænmetis.

Helztu iðnfyrirtækin byggjast á framleiðslu fatnaðar, vefnaðar, flutningatækja og pappírs.  Þá er einnig mikið framleitt af vélbúnaði til iðnaðar, matvælum, gúmmí- og plastvörum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM