Colorado sagan Bandaríkin,
Flag of United States


COLORADO
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Eftir að forsögulegir hellabúar frá Mesa Verde komu sér fyrir í Kóloradó voru fyrstu íbúar í fjöllum fylkisins ættkvíslir ute-indíana frá eyðimörkum Utah.  Snemma á 18. öldinni áttu þeir í vöruskiptum við Spánverja og Pueblo-fólkið í árdal Rio Grande.  Þeir greiddu með elg- og dádýraskinnum og fengu m.a. spænska hesta í staðinn.  Þeir notuðu hestana til að flytja sig um set, út á Kólorado-slétturnar, þar sem þeir fengu óbíðar viðtökur hjá cheyenne- og avapaho-indíánum, sem höfðu setzt þar að skömmu áður.  Ute-indíánarnir bjuggu ofar öllum öðrum kynþáttum indíána í Ameríku, í allt að 3000 m hæð yfir sjó.

Landkönnun.  Spánverjar frá Nýja-Mexíkó könnuðu hluta Kóloradó á 18. öld.  Fyrstu Ameríkanarnir á þessum slóðum voru hermenn frá St Louis undir forystu Zebulon Pike, sem sambandsstjórnin sendi til landkönnunar vestan Mississippi-árinnar árið 1806.  Annar leiðangur, undir stjórn Stephen H. Long, majors, fór upp á South Platte, alla leið til núverandi borgarstæðis Denver, árið 1820.  Í kjölfarið komu amerískir gildruveiðimenn í leit að bifrum og öðrum loðdýrum.  Landnám Ameríkana hófst 1832 eftir að lokið var við byggingu virkisins í Bent’s Fort, þar sem var verzlunarstaður við Arkansasána.  Í kringum 1840 voru nokkrir bændur frá Nýja-Mexíkó farnir að stunda búskap í Suður-Kóloradó.  Árið 1851 var San Luis stofnuð í San Luis-dalnum, fyrsta þéttbýli fylkisins.

Námuæðið.  Gullfundir í Klettafjöllum árið 1858 ollu flutningi þúsunda manna frá miðvesturríkjunum.  Denver byggðist á landi, sem sambandsstjórnin hafði ætlað cheyenne- og avapaho-indíánum.  Við stofnun Kóloradóhéraðs 1861 voru innfæddir hraktir brott af löndum sínum að Arkansasánni.  Í mótmæla- og hefndarskyni drápu þeir smábændur og fjöldkyldur þeirra og réðust á póstvagna á leiðinni milli Denver og Missouri-árinnar.  Í refsingarskyni réðist þriðja herfylki John M. Chivingtons ofursta á sofandi indíána (cheyenne og avapaho) í dögun 29. nóvember 1864.  Þar var hunduðum þeirra slátrað, mönnum, konum og börnum.  Þessi atburður, sem hlaut nafnið Sand Creek fjöldamorðin, olli því, að Bandaríkjamenn fóru að leggja eyrun betur að orðum indíána.  Þrátt fyrir þessa þróun neyddu uppgjafahermenn úr borgarstríðinu alla indíána til að flytjast brott af Kóloradósléttunum til verndarsvæða í Oklahoma.

Fylkisréttindi.  Fljótlega dró úr gullæðinu í Kóloradó og íbúafjöldi svæðisins náði ekki 60.000 fyrr en upp úr 1870, þegar lagning járnbrautanna náði þangað og áveitukerfi voru grafin við austanverð Klettafjöll.  Þá fyrst var hægt að sækja um fylkisréttindi.  Vegna þess, að fólk óttaðist hærri skatta og líkaði ekki stjórnmálabröltið í Washington DC, dróst að senda umsókn um fylkisréttindi til 1876, þegar BNA héldu upp á 200 ára afmæli þjóðarinnar.  Næstu 20 árin ríkti hagsæld vegna fundar auðugra silfurnáma í Leadville.  Eftir 1890 var mikið gull grafið upp í Cripple Creek nærri Colorado Springs.

Ákvörðun sambandsstjórnarinnar að hætta silfurkaupum 1893 gerði námueigendum gramt í geði og lýðveldissinnar meðal þeirra sögðu sig úr flokknum þremur árum síðar til að styðja demókratann William Jennings Bryan til forsetaembættisins.

20. öldin.  Á fyrstu arum 20. aldar dró aftur úr gull- og silfuræðinu og margir landsmenn fjárfestu í ferðaþjónustu, sem byggðist á náttúrunni og heilsusamlegu loftslagi.  Gyðingaspítalinn í Denver og Cragmor heilsuhælið í Colorado Springs urðu fræg fyrir meðhöndlun berklasjúklinga.  Járnbrautir voru lagðar um fögur fjallaskörð (Hagerman, Corona og Cumbres), lúxushótel voru byggð og Fjallaþjóðgarðurinn var opnaður 1915.  Þrátt fyrir aukinn ferðamannastraum, staðnaði efnahagurinn í heimskreppunni.  Síðari heimsstyrjöldin olli miklum breytingum, þegar herinn kom sér upp stöðvum og skrifstofum í borgum fylkisins.  Á sjöunda og áttunda áratugnum óx aðsókn að skíðasvæðunum í Aspen og Vail vegna hins langa skíðatímabils.  Á áttunda áratugnum fluttu mörg fyrirtæki tengd elektróník og geimferðaáætluninni til Front Range-borganna.  Uppgangurinn  og fólksfjölgunin á síðustu tveimur áratugum 20. aldar krafðist æ víðtækari ráðstafana til náttúruverndar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM