Indiana sagan Bandaríkin,


SAGAN
INDIANA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Forsöguleg indíánasamfélög bjuggu á núverandi Indianasvæði fyrir allt að 15.000 árum.  Svokölluð skógamenning (500 f.Kr. – 1000 e.Kr.) þekkist af brenndum leirmunum og greftrunarsiðum.  Mississippi-menningin þekkist af stærri þéttbýliskjörnum, s.s. Angel Site við Ohio-ána ófjarri Evansville.  Helztu ættkvíslir indíána, sem bjuggu þarna, þegar Evrópumenn komu til sögunnar, voru delaware, miami og potawatomi auk piankashaw, shawnee og wea.

Franskir könnunarleiðangrar komu frá Quebec á 17. öld.  Á fyrri hluta 18. aldar byggðu Frakkar þrjú virki á Indianasvæðinu (Vicenennes 1732), sem voru fyrstu varanlegu byggðirnar.  Þeim gekk illa að halda yfirráðum í Wabash-dalnum vegna fábýlis.  Eftir franska-indíánastríðið (1763) fengu Bretar yfirráðin.

Bretar sinntu Indianasvæðiu lítið og þeir mönnuðu ekki frönsku virkin fyrr en sjálfstæðisstríðið var hafið.  Þeir urðu að tjalda því, sem til var, á vesturvíglínunni og sköpuðu þannig vettvanga fyrir dramatískustu atburðina á þeim slóðum.  Meðal þeirra var fall Kaskaskia- og Cahokia-virkjanna í Illinois og Vincennes-virkisinns í Indiana fyrir herliði George Roger Clark 1778-79.  Clark var snilldarherforingi og árangur hans kann að hafa haft sín áhrif við samningaborðið í París 1783, þegar stríðið var gert upp og landamæri hins nýja lýðveldis voru færð að Mississippi-fljóti.

Indianahérað.  Indiana var hluti Norðvesturhéraðs frá 1787-1800, þegar Indianahérað var stofnað.  William Henry Harrison (síðar 9. forseti BNA) var héraðsstjóri frá 1800-1812.  Hann gerði fjölda landasamninga við indíána og réði miklu um stjórnmálaþróunina, sem varð lýðræðislegri, og hann barðist fyrir áframhaldandi þrælahaldi undir yfirskini þjónustusamninga.

Vöxtur landnemabyggða var mestur í suðurhlutanum á þessum tíma og heildarfjölgun íbúa var stöðug.  Fyrir stríðið 1812 voru Tecumseh og bróðir hans, Tenskwatawa, kallaður shawnee-spámaðurinn, aðalbaráttumenn og skipuleggjendur aðgerða indíána gegn ágangi hvíta mannsins.  Haustið 1811 fannst Harrison nóg komið og her héraðsins gjörsigraði indíána við Tippecanoe.  Stríðið í kjölfarið hafði lítil áhrif í Indiana en það olli miklum fólksflutningum í vesturátt, sem urðu til samþykktar aðildarumsóknar Indiana að BNA árið 1816.

Fyrstu áratugina eftir fylkisstofnunina var Indiana frumherjafylki en þjóðfræðileg, efnahagsleg og stjórnmálaleg straumhvörf urðu í landinu.  Mið- og norðurhlutarnir urðu búsetusvæði fólks frá Suður-Indiana og innflytjenda frá Ohio, Mið-Atlantshafsfylkjum o.fl. stöðum.  Aðaláhyggjuefni frumlandnemanna voru samgönguleysið og nærvera indíánanna og þeir börðust af mikilli hörku til að leysa þessi vandamál, oft af mikilli þröngsýni.

Delaware-, potawatomi- og miami-indíánar voru fluttir frá lendum sínum til vesturs á árunum 1820-1850.  Samtímis voru vegir frá norðri til suðurs og austri til vesturs lagðir í gegnum nýju höfuðborgina Indianapolis og árið 1836 voru frekari samgöngubætur skipulagðar með netum vegakerfis, vatnaleiða og járnbrauta um allt land.  Tafir urðu á framkvæmdum vegna kreppunnar 1839-43 og járnbrautadraumarnir rættust ekki fyrr en á sjötta áratugi 19. aldar.

Hinn nýi lýðveldisflokkur (stofnaður 1854) komst til valda í Indiana með kosningu Henry Smith Lane í landstjóraembættið árið 1860.  Í sjálfstæðisstríðinu kölluðu lýðveldissinnar demókrata koparhausa, sem styddu Suðurríkin, en báðir flokkarnir áttu mikinn þátt í sigri Norðurríkjanna.  Eftir stríðið söðluðu íbúarnir um og voru ekki allt of áfjáðir í stuðningi við róttækar tilraunir lýðveldisflokksins til að koma á jafnrétti kynþáttanna í Suðurríkjunum og demókratar komust til valda árið 1872.

Seint á 19. öldinni fór fylkið að blómstra á sviðum iðnaðar, stjórnmála og bókmennta.  Gífurlegur vöxtur íðnaðar byggðist á uppgötvun mikilla birgða náttúrugass í jörðu.  Hundruð nýrra verksmiðja voru byggð.  Elwood Haynes reið á vaðið með framleiðslu bíla rétt fyrir aldamótin 1900.  Fyrsta Indianapolis 500 kappaksturskeppnin var haldin árið 1911 og síðan ár hvert í minningardagsvikunni (30. maí) til minningar um hinn fyrrum kröftuga bílaiðnað í fylkinu.

Indiana lék stórt hlutverk í stjórnmálalífi BNA síðla á 19. öld og snemma á hinni 20.  Á tímabilinu 1868 til 1920 tóku frambjóðendur frá Indiana til embættis forseta BNA þátt í öllum kosningum nema tveimur.  Meðal þeirra voru forsetinn Banjamin Harrison, varaforsetarnir Schuyler Colfax, Thomas Hendricks, Charles Fairbanks og Thomas Marshall og frambjóðandi sósíalista Eugene V. Debs.  Dan Quayle, varaforseti (1989-92) fæddist í Indianapolis.  Eftir 1896 fékk lýðveldisflokkurinn aftur byr í seglin og hefur haldið honum síðan með fáum undantekningum.

Í síðari heimsstyrjöldinni voru næstum 10% íbúanna í herþjónustu.  Heima við fólst hún í framleiðslu hergagna (skipa, flugvélag, skotvopna og skotfæra) og matvæla fyrir herinn.  Eftir stríðið var jafnvægi náð á ný með framleiðsluiðnaði og landbúnaði.  Efnahagslífið stendur traustum fótum og byggist á mörgum stoðum.  Samgöngu- og menntamál eru í góðu ástandi.  Íbúafjöldinn tvöfaldaðist frá aldamótunum 1900 til 1980 og æ fleiri kjósa að búa í þéttbýli.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM