Kentucky meira Bandaríkin,

ÍBÚARNIR LAND og NÁTTÚRA SAGAN STJÓRNSÝSLA

KENTUCKY
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Miðslétturnar skiptast í Lexingtonsléttuna (Blágresissvæðið) og Hálendishrygginn.  Elzti berggrunnur fylkisins er undir hluta af Lexingtonsléttunni.  Kalkríkur jarðvegur er góður til ræktunar og beitar.  Á þessum slóðum er mikið ræktað af hestum til kappreiða.  Suðurhluti sléttunnar er kallaður Hnúðarnir (Knobs) vegna hæðanna þar.  Hálendishryggurinn (Pennyroyal –sléttan) er aðallega úr kalki og þar hefur myndast mikið hellakerfi vegna rennslis vatns neðanjarðar.  Vesturkolasvæðin eru í norðurhluta þessa svæðis.

Austurhluti fylkisins er hluti Appalachia- (Cumberland-) sléttunnar.  Berggrunnurinn þar er sandsteinn, flöguset og kalk.  Yfirborðslagið er þunnt, blanda sands og leirs.  Skógi vaxnir fjallgarðarnir er skörðóttir.  Þar er m.a. hið sögufræga Cumberland-skarð (518m).  Austurkolasvæðin eru á Appalacia-sléttunni.

Öll stærstu stöðuvötn fylkisins eru manngerð lón, sem urðu til við stíflugerð í ánum Tennessee (Kentucky-vatn), Cumberland (Barkley- og Cumberland-vötn), Rough (Rough-árvatn), Green (Green-árvatn) og Big Sandy (Dewey-vatn).  Meðal annarra vatnsfalla má nefna Ohio, Mississippi, Licking og Kentucky.  Nokkrir fallegir fossar prýða landslag fylkisins, Cumberland-fossar í grennd við Corbin og fossar Ohio-árinnar nærri Louisville.

Loftslagið er temprað, heit sumur og svalir vetur.  Meðalárshiti er 14°C víðast í fylkinu.  Síðan skráning hófst, hefur hitastig verið skráð lægst –36,7°C árið 1963 við Cynthiana og hæst 45,6°C árið 1930 við Greensburg.  Á veturna snjóar og algeng úrkoma á Appalachia-sléttunni er rúmlega 610 mm.

Flóra og fána.  Næstum 40% fylkisins eru skógi vaxin.  Mest er um harðviðartré (eik, beyki, hikkorí, hlynur og valhnetutré) en einnig kípressur, sedrusviður, fura og óðjurt.  Meðal annarra plantna má nefna hrútsbrá, hundatré, lárvið, azalea, rhododendron, rauðbrúsk, blabber, pennyroyal og gullstilk (fylkisblómið).

Fyrrum var þetta landsvæði bústaður fjölda villtra spendýra, vísunda og dádýra (elk) en nú finnast næstum eingöngu smærri dýr, refir, sléttuúlfar, moskusrottur, pokarottur, kanínur, þvottabirnir, íkornar og dádýr.  Fuglategundir eru margar, allt frá músarrindli til stórra arna.  Kardínálinn er fugl fylkisins og víða sjást litlir hvítir hegrar (egret) og aðrir smærri (spætur).  Mikill fjöldi farfugla fer um vesturhluta fylkisins.

Rúmlega 100 tegundir fiska hafa fundizt í vatnakerfi fylkisins.  Algengastar þeirra eru aborrar, blátálknar og karfi.  Meðal skriðdýra eru fjöldi snákategunda (skröltormar, koparhausar, og vatnasnákar) og eðlur og skjaldbökur.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM