Michigan sagan Bandaríkin,


SAGAN
MICHIGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Helztu þjóðflokkar indíána, sem bjuggu á Michigan-svæðinu, þegar Evrópumenn hófu landnám , voru ojibwa, ottawa,miami, potawatomi og wyandot (eða huron). Ojibwa, sem voru aðallega veiðimenn, bjuggu í norðurhlutanum.  Miami og potawatomi stunduðu landbúnað og byggðu víggirt þorp í suðausturhlutanum.  Ottawa bjuggu milli hinna fyrrnefndu og stunduðu viðskipti.

Séra Jacques Marquette, franskur jesúíti, stofnaði trúboðsstöð í Sault Sainte Marie árið 1668.  Á árabilinu 1679 og 1686 komu franskir skinnakaupmenn sér fyrir við Mackinac-sund og ósa St Joseph-árinnar.  Antoine de La Mothe, Sieru de Cadillac, stofnaði Detroit árið 1701 og réði yfir siglingum milli vatnanna Huron og Erie.  Bretar bældu niður indíánauppreisn, sem Pontiac efndi til og stýrði (1701), lögðu byggðir Frakka undir sig 1763.

Michigan-svæðið.  Bretar héldu stöðu sinni í Michigan til 1796, þótt Parísarsamningurinn 1783 færði BNA yfirráðin.  Michingan var hluti Norðvestursvæðisins frá 1796 til 1800.  Því var skipt þannig, að hluti þess varð Indiana á árabilinu 1800 til 1803, þegar allt svæðið var fært undir Indiana.  Árið 1805 var Michigan aðskilið sem sérstakt hérað í Bna.  Í stríðinu 1812 leiddi landstjórinn, William Hull, innrás í Kanada en hörfaði undan Bretum og gafst síðan upp í Detroit án þess að skoti hafi verið hleypt af.  Eftir sigur BNA í orrustunni við Erie-vatn, hörfuðu Bretar til Kanada á ný.  Áður en þeir hurfu á braut réðist flokkur brezkra hermanna og indíána á hersveit BNA við Raisin-ána og drap rúmlega 1.000 hermenn (janúar 1813).  Þetta var og er mesta blóðbað í sögu Michigan.

Eftir stríðið stækkuðu byggðir Michigan hægt og sígandi.  Eftir 1825 olli opnun Erie-skurðarins, ný jarðalög og landaafsal indíána mikilli fjölgun landnema.  Íbúum fjölgaði úr 9.000 árið 1820 í 29.000 árið 1830 og 212.000 árið 1840.  Árið 1835 var íbúafjöldinn orðinn nægur til fylkisréttinda en vegna landamæradeilna við Ohio vegna Toledo og umhverfi borgarinnar, vildi sambandsstjórnin ekki efna til stjórnarskrárþings.  Fylkin tvö háðu svokallað Toledostríð, þannig að herir beggja voru í viðbragðsstöðu en ekki kom til átaka.  Ohio var þegar orðið fylki og hafði meiri áhrif.  Michiganstjórn lét Ohio Toledo eftir gegn stærri skerf lands á efri skaga.  Hinn 26. janúar 1837 varð Michigan 26. fylki BNA.

Vöxtur og viðgangur hins nýja fylkis.  Eftir efnahagslægð frá 1840 hófst uppgangur á ný eftir 1850.  Vöxtur landbúnaðarins var hraður og járnbrautir voru lagðar vítt og breitt um fylkið.  Á árabilinu 1840 til 1860 settust 380.000 landnemar að í fylkinu.

Fyrsti flokkur lýðveldissinna (republicans) í BNA var stofnaður í júlí 1854 á ráðstefnunni undir eikunum (Convention Under the Oaks) í Jackson, Michigan.  Andstaðan gegn þrælahaldi átti mikið fylgi í fylkinu og þegar borgara/þrælastríðið brauzt út, skráðu Michiganbúar sig umsvifalaust í sambandsherinn.  Stríðið flýtti iðnþróun í fylkinu, þannig að iðnframleiðslan þrefaldaðist til 1880 og fjárfesting tvöfaldaðist.  Vöxtur iðnaðar hélt áfram og framleiðslan í Detroit varð meiri en í öllum öðrum hlutum fylkisins samanlagt árið 1870.

Á síðari hluta 19. aldar réðu lýðveldissinnar lögum og lofum í fylkinu en umbótasinnar réðust harkalega gegn hömulausum kapitalisma.  Fremstur í flokki þeirra var Hazen Pingree, borgarstjóri Detroit og síðar fylkisstjóri.  Síðari fylkisstjórar, Chase Osborn og Woodbridge N. Ferris, héldu umbótastarfi Pingrees áfram.

20. öldin.  Bílaiðnaðurinn hefur verið í fararbroddi í Michigan mestan hluta 20. aldarinnar.  Detroit varð óumdeilanleg höfuðborg heimsins í bílaframleiðslu af ýmsum sökum, m.a. vegna velmenntaðs vinnuafls á öllum stigum framleiðslunnar, umframfjármagns frá timburiðnaðnum og góðs samgöngukerfis.

Bílaiðnaðurinn óx hratt milli 1900 og 1930, þegar heimskreppan lagði hann í rúst.  Á fjórða áratugnum batnaði efnahagurinn hægum skrefum fyrir styrk frá sambandsstjórninni.  Kosning demókratans Frank Murphy í fylkisstjóraembættið lauk löngum ferli lýðveldissinna í stjórnmálum fylkisins.  Síðari heimsstyrjöldin olli straumhvörfum, atvinnuleysi hvarf og hergagnaiðnaður blómstraði.

Skortur á vinnuafli laðaði fjölda negra frá Suðurríkjunum að og kynþáttaspenna jókst þar til upp úr sauð í óeirðum árið 1943, sem kostuðu 34 líf.  Næstu áratugina unnu leiðtogar þeldökkra og hvítra að málamiðlun.  Óeirðir voru algengar á sjöunda áratugnum og árið 1967 kostuðu þær 43 mannslíf og heilu hverfin voru í rústum.  Viðskiptajöfrar með Henry Ford II í fararbroddi fjárfestu í Endurreisnarmiðstöðinni til viðreisnar miðborgarinnar, sem var í hörmulegu ástandi.  Árið 1974 varð Coleman Young fyrsti þeldökki borgarstjóri Detroit.  Kosning hans bætti ástandið verulega.

Á níunda áratugnum var bílaiðnaðurinn enn þá fremstur í flokki.  Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafði hann veitt þriðjungi vinnuaflsins störf og staðið undir 40% framleiðslu borgarinnar.  Síðla á áttunda áratugarins og fyrrihluta hins níunda fór að síga á ógæfuhliðina vegna hækkandi orkukostnaðar og samkeppnisinnflutnings.  Vaxandi þjónustugeiri tók við mörgum, sem misstu vinnuna í bílaiðnaðnum en þessi kreppa olli efnahagslegum samdrætti.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM