Mississippi land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
MISSISSIPPI

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál Mississippi er 125.443 ferkílómetrar (32. í stærðarröð fylkja BNA).  Sambandsstjórnin á 5,5% landsins.  Fylkið lítur út eins og grófur rétthyrningur á kortinu og mestu vegalengdir frá norðri til suðurs eru 530 km og 290 km frá austri til vesturs.  Landið nær frá sjávarmáli við Mexíkóflóa upp í 246 m á toppi Woodallfjalls í norðausturhlutanum.  Meðalhæð yfir sjó er nálægt 91m.  Strandlengjan er 71 km.

Mestur hluti fylkisins er Austurstrandslétta Mexíkóflóa og hinn hlutinn er árósar Mississippi-fljótsins.  Sléttan er víðast lághæðótt, líkt og Furuhæðir sunnantil og Miðnorðurhæðirnar. Pontotoc- og Fall Line-hæðirnar í norðausturhlutanum eru hærri.  Vestantil er gulbrúnn ársetsjarðvegur og dökkur og frjósamur í Svarta beltinu í norðausturhlutanum.  Standlengjan er skorin nokkrum stórum flóum við St Louis, Biloxi og Pascagoula og er aðskilin frá Mexíkóflóa með langri eyjakeðju og grunnu Mississippisundinu.  Helztar þessara eyja eru Petit Bois, Horn, Ship og Cat.  Árósar Mississippi eru mjóir sunnantil en breikka norðan Vicksburg.  Þeir eru þaktir þykku og frjósömu árseti, sem hefur myndazt við mismunandi stór flóð í fljótinu.

Mississippifljótið er mikilvægasta vatnsfall fylkisins.  Aðalþverár þess eru Yazoo og Big Black.  Árnar, sem streyma til suðurs taka til sín mestan hluta alls afrennslis í mið- og austurhlutum landsins.  Meðal þessara vatnsfalla eru Perluá, Pascagoula og Tombigbee.
Fjöldi stöðuvatna er í fylkinu.  Hin stærstu eru manngerð lón, sem hafa myndast vegna stíflna og varnargarða, s.s. Ross Barnett-lónið í Perluá, Akrabutla í Kaldá, Grenada í Yalobusha og Pickwick, þar sem íbjúg vötn hafa myndast í gömlum árfarvegum.

Loftslagið er heitt og rakt með löngum sumrum og stuttum og mildum vetrum.  Meðalhitinn í júlí er 28°C og 9°C í janúar.  Hitasveiflur eru litlar á sumrin en á veturna er mun heitara við Mississippisundið en annars staðar í fylkinu.  Lægsti skráður hiti er -28,3°C (1966 í Corinth í norðausturhlutanum) og 46,1°C (1930 í Holly Springs í norðurhlutanum).  Fellibyljir geisa stundum síðsumars og á haustin.  Þeir koma úr suðurátt frá Mexíkóflóa.  Hvirfilbyljahætta er einnig á tímabilinu febrúar til maí (tornado).

Flóra og fána.  Skógar þekja u.þ.b. 55% landsins.  Í norðurhlutanum eru harðviðartegundir (álmur, hikkorí og eik auk sedrusviðar, furu og tupelo).  Í suðurhlutanum er mest um furu (loblolly, longleaf og slash).  Þar að auki vaxa magnólíur, pekantré og gúmmítré.  Fjöldi fallegra blómategunda prýða landslagið (azalea, svarteygða súsan, kamelíur, iris, cherokee rós, trillium og fjólur).

Mest ber á dádýrum en einnig er talsvert um bifra, refi, pokarottur, kanínur, þefdýr og íkorna.  Meðal algengra fuglategunda eru endur, gæsir, lynghænur og kalkúnar.  Mikið erum tegundir, sem hafa vetursetu (endur, egret, hegrar og kríur).  Í ferskvatni eru svartbassar, brími, steinbítur og karfi, en krabbar, ostrur, rækjur, makríll, síld og tarpon í sjó.

Auðlindir, framleiðsla og iðnaður.  Mississippi á talsverðar birgðir af olíu og gasi í jörðu og þar að aluki leir, sand, möl, surtarbrand, járngrýti, Kalkstein og salt.

Landbúnaður stendur undir u.þ.b. 3% af vergri þjóðarframleiðslu.  Hann er í þriðja sæti BNA í framleiðslu baðmullar.  Verðmætasta afurðin er sojabaunir.  Einnig er ræktað talsvert af hrísgrjónum, heyi, hveiti, maís, sætum kartöflum, pekanhnetum og kvikfé.

Fylkið er talið meðal fremstu framleiðenda trjávöru í BNA (fura, harðviður, trjákvoða og pappír).

Fiskveiðar byggjast aðallega á síld (menhaden) og rækjum.

Iðnaðurinn stendur undir 28% vergrar þjóðarframleiðslu.  Helztu framleiðsluvörur eru flutningatæki (skipasmíði), fatnaður og vefnaðarvara, timbur, húsgögn og aðrar trévörur, elektrónísk tæki, unnin matvæli, hlutir og tæki til geimferða og bifreiðahlutar.  Landbúnaðarafurðir eru helztar kjöt, kjúklingar, ostar og einnig er talsvert um niðursuðu og frystingu sjávarafurða.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM