New York fylki land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
NEW YORK FYLKI

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 141.089 ferkílómetrar (27. í stærðaröð BNA).  Sambandsstjórnin á 0,8% landsins.  Það er svipað þríhyrningi í laginu en Long Island myndar útkjálka til suðausturs.  Það er 515 km frá austri til vesturs og 500 km frá norðri til suðurs.  Long Island er 195 km frá austri til vesturs.  Hæð landsins nær frá sjávarmáli við Atlantshaf í suðaustri upp í 1.629 m á tindi Marcy-fjalls í norðaustri.  Meðalhæð yfir sjó er 305 m.  Strandlengjan er 204 km.

Landslag er fjölbreytt og því skiptist fylkið í margar landfræðilegar einingar:  St Lawrence-láglendið, Adirondack upplendið, láglendið við austanverð Vötnin miklu, uppland Nýja-Englands og strandsléttuna við Atlantshafið.  St Lawrence-láglendið í norðurhlutanum er mjótt og liggur meðfram samnefndri á og meðfram Champlain-vatni.  Landslagið er flat og lítið eitt öldóttara til suðurs.  Berggrunnurinn er sand- og kalksteinn og jarðvegurinn er kalkríkur og súr.

Adirondack upplendið í norðaustri nær yfir fjórðung fylkisins.  Það era ð mestu fjalllent og rís hæst á Marcy-fjalli.  Hluti berggrunns þess er einhver hinn elzti og harðasti í landinu.  Jarðvegur er víðast þunnur, grýttur og súr.

Láglendið við Vötnin miklu, við Erie- og Ontaríóvatn, er að mestu flat næst vötnunum og hæðótt er fjær dregur.  Milli Rochester og Syracuse eru þúsundir ávalra hæða (drumlins), gamlar jökulöldur frá ísöld.  Berggrunnurinn er setlög, aðallega kalk- og sandsteinn og flöguberg.  Harðari lög í setlagabunkanum, sem hallar lítillegar til suðurs, hafa myndað raðir hlíðarfóta með austur-vestur stefnu.  Niagara-fossarnir steypast fram af einum slíkum.  Jarðvegurinn er víðast kalkríkur og allfrjósamur.

Appalachia-sléttan nær yfir næstum helming fylkisins og henni er skipt í þrennt.  Catskill-fjöll, sem ná upp í 1.280 m, mynda austurhlutann.  Miðbikið er mun lægra, þar sem eru jökulgrafnir dalir.  Þar eru hin frægu Fingurvötn.  Vestantil er sléttan hærri en einnig skorin djúpum dölum.  Berggrunnur sléttunnar er setlög, aðallega kalk- og sandsteinn og flögugrýti.  Þar eru líka talsverðar birgðir jarðsalts.  Jarðvegur er víðast þykkur og súr og í aðalárdölunum er frjósamt árset.

Hudson-Mohawk-láglendið er í mið- og austurhlutunum.  Mjór Hudsondalurinn teygist milli Appalachia-sléttunnar og upplendis Nýja-Englands.  Syðst teygist láglendið um Walkill-dal.  Mohawk-dalur er norðvestan Hudsonárinnar, aðallega milli Adirondack- og Appalachia-sléttnanna.  Allra norðvestast er afmarkað upplendi (610m), sem er kallað Tug Hill-sléttan, milli Adirondack og láglendis Vatnanna miklu.  Jarðfræðilega er upplandið framhald Appalachia-sléttunnar með svipaðan berggrunn.  Jarðvegurinn á Hudson-Mohawk-svæðinu er allt frá frjósömu árseti til tiltölulega frjósams jökulsets.

Nýja-Englands upplendinu er skipt í þrjú svæði:  Taconic-fjöll með austurlandamærunum, hið fagra Hudson hálendi suðvestur yfir Hudsonána og kristallaðar Manhattan-hæðirnar, sem eru tiltölulega lágar og ná yfir mestan hluta Westchester-sýslu og Manhattan-eyju.
Long Island og Staten Island ná yfir mestan hluta strandsléttunnar við Atlantshafið.  Norðurhluti Long Island er lághæðóttur (90m) og sunnantil er eyjan lág og flöt.  Jarðvegur er sendinn og lítt frjósamur.

Fylkið er prýtt fjölda vatnsfalla og stöðuvatna.  Vatnasvið Vatnanna miklu og St Lawrence-árinnar nær yfir mestan vestur og miðhluta fylkisins, þ.m.t. Fingurvötn, Tug Hill sléttan og hlutar Adirondack-sléttunnar auk norðaustasta hluta fylkisins.  Aðrar aðalárnar eru Genesee, Black, Niagara, Oswego, Hudson, Mohawk, Allegheny, Susquehanna og Delaware.  Fallega fossa er að finna í nokkrum þeirra en hinir þekktustu eru Niagara-fossar.  Nokkrir minni fossar eru í Efri-Hudsonánni og Genesee-ánni.

Stöðuvötnin eru mörg í fylkinu og vinsæl meðal ferðamanna.  Champlain-, Erie- og Ontaríóvatn eru að hluta innan fylkismarkanna en Oneida- og Fingurvötn eru innan þess í grennd við Syracuse.  Saranac-vötn, Placid-vatn, Bláfjallavatn, Trönuberjavatn, Georgsvatn, Raquette-vatn og Tuppervatn eru öll í Adirondack og Chautaauqua-vatn í suðvesturhlutanum.  Auk þessara stöðuvatna eru nokkur manngerð lón, aðallega í Catskill-fjöllum.

Loftslagið.  Rakt meginlandsloftslag ríkir í fylkinu.  Loftslagssveiflur er nokkrar og stafa að mestu af mismunandi landslagsdráttum, hæð yfir sjó og nálægð stórra vatnamassa.  Suðausturhlutinn er hlýastur að meðaltali og kaldast er í norðausturhlutanum.  Á veturna snjóar talsvert um land allt.  Lægsta skráð hitastig er -46,7°C við Stillwater-lónið og í Old Forge (1979; í Adirondack) og hið hæsta 42,2°C í Troy í austurhlutanum (1926).  Auk þrumuveðurs og mikillar snjókomu geisa stundum fárviðri í fylkinu og stundum liggja leiðir fellibylja um Long Island og suðausturhlutann.

Flóra og fána.  Skóglendi nær yfir u.þ.b. 52% landsins, að mestu leyti nýrækt á nýttu landi.  Helztu trjátegundir eru birki, hlynur, óðjurt, hvítfura, eik, greni, fura og askur.  Víða vaxa villt blóm, s.s. azalea, alparós, svarteygða súsan, sóley, fjóla, brönugras og fjallalárviður.

Meðal villtra dýra eru dádýr, svartbjörn, bifur, kanína, moldvarpa, refur, þvottabjörn, vísill og íkorni.  Fuglalífið einkennist af fasana, orra, lynghænu, andategundum, rauðbrysting, krákum, bláfugli og spætu.  Í vötnum og ám er mikið af fiski, s.s. svartbassi, áll, gedda, hvítfiskur, krappi og urriði.  Fyrir ströndinni eru margar tegundir:  Marlin, túnfiskur, bláfiskur, bassi og flyðra.  Fyrir ströndum Long Island er mikið af kræklingi.

Auðlindir, framleiðsla, iðnaður.  Fylkið er að langmestu leyti málmgrýtissnautt en þar er nóg af grjóti, sandi og möl, náttúrugasi, kalksteini, maríugleri, hellugrjóti, granasteini, leir, smergli og olíu.  Lítilsháttar er unnið af blýi, sínki, járni og silfri.

Mjólkurvörur eru aðallandbúnaðarafurðirnar en einnig er talsvert selt af nautakjöti, svínakjöti, kjúklingum, eggjum, kalkúnum, öndum og lambakjöti.  Aðaluppskeran byggist á heyi, maís, hveiti, höfrum, kartöflum, lauk, grænmeti, baunum, tómötum, greipaldinum, eplum og kirsuberjum.

Skógarhögg og skógrækt skilar talsverðum tekjum í þjóðarbúið.  Timbrið er aðallegar nýtt til húsgagnasmíði, í byggingariðnaði og til pappírsgerðar.  Fiskveiðar og vinnsla eru ekki mikilvægar greinar en engu að síður er fylkið í 15. sæti BNA á því sviði (karfi (porgy), túnfiskur, lýsa, sverðfiskur, kræklingur, ostrur og humar).

New York er meðal fremstu iðnfylkjanna, þótt dregið hafi úr framleiðslu síðustu áratugina.  Árið 1989 vóg hún 14% af vergri þjóðarframleiðslu en árið 1980 20%.  Helztu framleiðsluvörur eru prentað mál, nákvæmnistæki (myndavélar), sjón- og lækningatæki, mælitæki, rafeindatæki, velar til iðnaðar, kæli- og hitunartæki.

Talsvert er framleitt af fatnaði, vefnaðarvöru, tölvum, leiðsögutækjum, flugvélum, bílahlutum, efnavöru, snyrtivöru, matvælum, drykkjarvöru, pappír, gler- og gúmmívörur og plastvöru.  Ferðaþjónustan er stór atvinnugrein.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM