Nevada ýmislegt Bandaríkin,


NEVADA
ALMENNUR FRÓÐLEIKUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landslag og lega.  Lægðin mikla (The Great Basin) nær yfir allt fylkið nema norðaustur- og suðvesturhlutana. Það er í vesturhluta hinnar miklu stærri lægðar á milli Klettafjalla í austri og Sierra Nevada í vestri. Lægðin mikla er ekki ein og sér, heldur margar lægðir eða dalir á milli fjallgarða án vatnsrennslis til sjávar.  Lengsta áin er Humboldtá, sem streymir frá austri til vesturs um norðurhluta fylkisins og endar í Humboldt Sink (H.-dældinni).  Í vesturhlutanum streyma Carson-, Walker- og Truckeeárnar til austurs frá snævi þöktum fjallgarðinum Sierra Nevada.  Í suðvesturhlutanum streyma Virgin- og Muddyárnar til Coloradofljótsins.

Loftslag
Nevada er hið þurrasta í BNA vegna þess a Sierra Nevada fjöllin vestast í fylkinu hindra rakt loft frá Kyrrahafinu.  Meðalúrkoma ársins er  við Elko í na-hlutanum er 2300mm og minni en 1000mm á Las Vegassvæðinu í sa-hlutanum.  Talsverður hluti úrkomunnar fellur sem snjór á veturna.  Þegar snjóa leysir á vorin, bólgna ár og lækir og eyðimerkurjurtir blómstra um skamma hríð vegna rakans (kreósót, kaktusar, salvíurunnar, villt írís og villtar perur).

Loftslagið í Nevada er margþætt vegna þess hve fylkið er langt frá norðri til suðurs og einnig vegna hæðarmunar landslagsins.  Vetur eru kaldastir í na-hlutanum (-5°C við Elko og 6°C í Las Vegas í janúar; 21°C og 32°C í júlí).  Hitamunur dags og nætur er víða mikill.  Eftir heitan sumardag kólnar mikið við sólarlag.  Tími gróandans er 220 dagar í suðurhlutanum en 100 dagar fyrir norðan og austan.

Náttúruauðæfi.  Upphaf byggðar í Nevada byggðist að mestu á auðugum námum.  Þrátt fyrir að margar námur hafi verið tæmdar, er ýmiss konar vinnsla jarðefna enn þá mikilvægur þáttur í atvinnulífinu.  Náttúru-fegurð og þægilegt loftslag ásamt skemmtanaiðnaðnum eru samt mikilvægari og laða til sín aragrúa ferðamanna ár hvert.

Skógar og miklar grassléttur eru líka mikilvægar.  Á sléttunum er mikill fjöldi nautgripa og sauðfjár á beit (28.000 km²).  Skóglendi, sem nýtt er til skógarhöggs er u.þ.b. 40 km².

Vatnsöflun hefur löngum verið meðal aðalverkefna í fylkinu.  Fyrstu stóru áveiturnar voru hluti af  verkefni alríkisstjórnarinnar í samræmi við lög frá 1902.  Byggingu áveitnanna var lokið árið 1907, en þær voru kallaðar „Carson-Truckee-verkefnið”.  Árið 1919 var nafninu breytt til heiðurs öldungardeildarþingmanninum Francis B. Newlands, sem var mikill málsvari náttúruverndar, og þær hafa síðan verið kallaðar „Newlands-verkefnið”.  Annað áveituverkefni er Rye Patch- stöðuvatnið í Persingsýslu.  Því var lokið 1938.  Það fól í sér nýtingu Humboldtárinnar í Lovelockdalnum.  Wild Horse-stöðuvatnið er vatnsmiðlun landbúnaðarhéraðs indíánabyggðarinnar Western Shoshone í Elkosýslu.

Á mörkum Nevada og Arizona var lokið við byggingu Hoover-stíflunnar í Coloradoánni árið 1936.  Þá varð uppistöðulónið Lake Mead til.  Davis-stíflan, sem var byggð 113 km neðar, var byggð árið 1949 og þá varð til lónið Lake Mohave.  Bæði lónin eru notuð til framleiðslu rafmagns og til áveitna.

Íbúarnir.  Fyrstu hvítu mennirnir, sem komu til Nevadasvæðisins, fundu þar fyrir nokkra þjóðflokka indíána.  Í norðurhlutanum bjuggu Shoshone- og Paiute-indíánar og í suðurhlutanum voru líka Paiute-indíánar.  Washo-indíánarnir voru í vesturhlutanum, í grennd við Lake Tahoe.  Þessir indíánar voru friðsamir safnarar og veiðimenn.

Núna búa u.þ.b. 14.000 indíánar í fylkinu, rúmlega helmingur þeirra á sérstökum indíánasvæðum.  Hið stærsta þeirra er Pyramid Lake í Washoesýslu.  Walker River-svæðir er austan Carson City og Western Shoshone við mörk Nevada og Idaho.

Þegar Comstock-silfuræðin, hin stærsta í N-Ameríku, var uppgötvuð árið 1859, flykktist að fólk úr öllum heimshornum.  Nú búa u.þ.b. 60.000 afkomendur Mexíkana, Kanadamanna, Breta og Þjóðverja í Nevada.  Svart fólk er u.þ.b. 6% íbúanna og spænskumælandi fólk telur u.þ.b. 50.000.

Helztu borgir.  Meira en helmingur íbúa fylkisins býr í grennd við Las Vegas og Reno.  Las Vegas er stærsta borgin í fylkinu.  Þar var fyrrum áningarstaður við „Spænsku leiðina”.  Hið blómlega skemmtanalíf í borg-inni hefur vaxtarbroddur hennar.  Reno er líka skemmtanaborg og þar eru aðalstöðvar Nevada-háskóla.

Norður-Las Vegas, Sparks, Henderson og Carson City eru aðrar borgir með fleiri en 20.000 íbúa.  Sparks er rétt austan Reno og er hluti af sama verzlunarsvæði.  Elko er aðalborg norðausturhlutans í hjarta landbúnaðar- og námuhéraðs.  Carson City, höfuðborg fylkisins er í grennd við Lake Tahoe.

Rúmlega 20.000 verkamenn starfa við framleiðslu (elektrónísk tæki, stálvörur, matvæli, efnaiðnað og prentun).

Landbúnaður.  Alríkisstjórn BNA á u.þ.b. 87% lands í Nevada.  Hlutar þessa lands er undir stjórn úthlutunarráðs, veiði- og villidýraráðs, þjóðgarðaráðs og varnarmálaráðuneytis.  Stór landsvæði eru almenningar, sem bændur hafa leyfi til að nota til beitar.  Fjöldi stór- og smábýla er u.þ.b. 2400 í fylkinu.  Mörgum þeirra fylgja stór beitarsvæði fyrir naut-gripi og sauðfé.  Bændur verða að fylgja ströngum reglum um beit og hið opinbera fylgist grannt með gróðurþróun.  Stærð meðalbús í Nevada er u.þ.b. 1400 ha.  Vatnsöflun, skammur gróðrartími, jarðvegsgerð og landslag takmarka uppgræðslu.  Ræktun lands er mjög háð áveitum, jafnvel í árdölum.  Rúmlega helmingur tekna fylkisins af landbúnaði fæst frá nautgriparækt.  Hún byggist á 640.000 gripum, en þeim hefur fækkað stöðugt frá 1982.  Mjólk, sauðfé, ull svín og hænsn eru líka veigamikill hluti landbúnaðarins.  Meðal mikilvægustu nytjajurta eru alfalfa, hey, kartöflur, hveiti og bygg.

Námuvinnsla hefur verið einn aðalatvinnuveganna síðan „Comstock-æðin” fannst við Virginia City.  Áður fyrr framleiddi Nevada meira silfur en öll önnur fylki BNA til samans.  Nú eru framleiddar á þriðja tug málmtegunda í fylkinu.  Framleiðsla hvers árs er háð markaðsverði og öðrum þáttum.  Verðmætasti málmurinn er gull og Nevada er mesti framleiðandi þess í BNA.  Þar að auki má nefna barít, magnesít, kvikasilfur, kísilgúr, litíum og eðalsteina.  Stór svæði (40.000 km²) væri hægt að virkja til orkuframleiðslu með því að bora eftir heitu vatni og gufu.

Samgöngur.  Fyrsti vegurinn þvert yfir norðanvert Nevadafylki var „Humboldt-leiðin”, sem var hluti Kaliforníu-leiðarinnar.  Hún lá meðfram Humboldtánni, þar sem vagnalestirnar og síðar eimvagnar járnbraut-anna fengu vatn á leið sinni.  Gamla spænska leiðin á milli Santa Fe og Suður-Kaliforníu lá um Nevada.  Núna liggja nútímaþjóðvegir um sömu slóðir.

Þrjár aðaljárnbrautir og aðrar skemmri voru lagðar til að bæta samgöngur í fylkinu.  SuðurKyrra-hafs (áður Mið-Kyrrahafs-) járnbrautin var fyrst lögð um fylkið.  Hún náði til Reno úr vestri árið 1868.  Síðar sama ár var lagningu hennar lokið yfir Nevada til Utahfylkis.  Sambands-Kyrrahafs-brautin tengdi Las Vegas við Salt Lake City árið 1905.  Tveimur árum síðar náði Vestur-Kyrrahafs-brautin meðfram Humboldtánni til Elko.  Öll stærstu flugfélög BNA fljúga til Nevada.

Afþreying.  Aðalatvinnuvegur fylkisins er þjónusta við ferðamenn.  Þriðjungur vinnuaflsins (500.000 alls) starfa við ferðaþjónustu.  Í fylkinu eru tvö þjóðarminnismerki, Dauðadalur, sem teygist inn í kaliforníu og Lehman-hellarnir í Great Basin þjóðgarðinum.  Aðrir skoðunarverðir staðir eru Hoover-stíflan og Mead-vatnið, Tahoe-vatnið, Cathedral Gorge, Genoa (elzta mormónabyggðin frá 1850), Walker-vatnið (indíánasvæði), Pyramid-vatnið (miðlunarlón í samnefndri indíánabyggð), Valley of Fire State Park, Charleston Peak (í grennd við Las Vegas) og Mount Rose.

Mörg góð veiðivötn og ár eru í fylkinu og einnig er kostur á skotveiðum.  Við Tahoe-vatnið, í Charleston Peak og Ruby-fjöllum eru mjög góð skíðasvæði.

Reno og Las Vegas laða til sín flesta ferðamenn með spilavítunum og lúxushótelum, góðum veitingastöðum og skemmtikröftum.  Virginia City er þekktasti draugabærinn í fylkinu.  Í þjóðgörð-unum er víða mjög fallegt og þar eru margir sögulegir staðir (Cathedral Gorge við Panaca, Red Rock Canyon nærri Las Vegas og Valley of Fire nærri Overton).  Steingervingar risaskriðdýra, sem lifðu í vatni fyrir milljónum ára, þegar mestur hluti landsvæðis fylkisins var hulið vatni, er að finna í Berlin-Ichthyosaur State Park í miðju þess.

Menntun.  Það hefur verið mikið verk að tryggja öllum íbúum þessa dreifbýla fylkis fyrir lögbundinni menntun.  Þegar landsvæði þess var skipulagt árið 1861 var útsvar látið standa undir skólahaldi í öllum sveitarfélögum.  Samkvæmt stjórnarskránni frá 1864 var skólakerfið aukið og eflt.  Árið 1956 var skólahéruðunum breytt í 17 sveitarfélög.  Næsta ár tilnefndi menntamálaráð fylkisins fyrsta fræðslustjórann, en hann hafði verið kosinn í almennum kosningum í 90 ár þar á undan.

Nevadaháskóli, sem var stofnaður í Elko árið 1874, var fluttur til Reno árið 1886.  Hann starfar líka í Las Vegas.  Sierra Nevada háskólinn var stofnaður í Incline Village 1969.  Fjórir aðrir slíkir þjóna dreifbýlinu.

Stjórnsýsla.  Carson City var svæðishöfuðborg þar til Nevada varð Hluti BNA, en þá var hún gerð að höfuðborg fylkisins.  Stjórnarskráin frá 1864 er enn þá í gildi.

Æðsti maður fylkisins er fylkisstjóri, sem er kosinn á fjögurra ára fresti.  Öldungadeildin og fulltrúadeildin annast löggjöfina.  Hæstiréttur er æðsta dómsstigið.

Í undanförnum kosningum hafa lýðveldissinnar haft undirtökin.  Fylkið hefur stutt forsetaframbjóð-endur þeirra í öllum forsetakosningum nema árin 1880, 1892-1900, 1908-1916, 1932-1948 og 1960-1964.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM