Albuquerque Nýja Mexíkó Bandaríkin,


ALBUQUERQUE
NÝJA-MEXÍKÓ
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Albuquerque, stærsta borg Nýja-Mexíkókylkis, er miðstöð flutninga, viðskipta og iðnaðar (raftæki, matvæli, tæki til geimferða og varnarmála, vefnaðarvörur, fatnaður, útgáfustarfsemi og timburvörur).  Þarna eru rannsóknarstofur á sviðum varnar-, raforku- og varnarmála.  Meðal stærstu vinnuveitenda borgarinnar er þróunarstofnun tengd rannsóknum á kjarnorku og sólarorku. Kirtland flugherstöðin er í næsta nágrenni.  Þar er Kjarnorkusafn ríkisins.  Borgin er setur Fylkisháskólans (1889) og höfuðstöðva verndarsvæðisins Cibola National Forset.  Vegna hæðar sinnar yfir sjó (1615m) er borgin eftirsóttur heilsubótar- og orlofsstaður.  Meðal menningarstofnana eru Listasafn, náttúrugripasafn og mannfræðisafn og gamli borgarhlutinn hefur spænskt yfirbragð.  Uppi í Sandia-fjöllum eru nokkur indíánaþorp (pueblos).  Hið merkasta þeirra er við Coronado ríkisminnismerkið og á Petroglyph ríkisgarðinum, þar sem eru ristur eftir indíána og Spánverja á klettum.

Árið 1706 var stofnað til byggðar á þessu svæði og hún var nefnd eftir hertoganum af Alburquerque (fyrra r-inu var sleppt síðar), sem var varakonungur Nýja-Spánar um þær mundir.  Byggðin óx hratt sem birgðastöð við Chihuahua-leiðina frá Santa Fe til Mexíkóborgar.  Eftir Mexíkóska stríðið (1846-48) varð Albuquerque hluti BNA og þar var mikilvæg herstöð frá 1846 til 1870.  Árið 1880 var ný borg skipulögð í næsta nágrenni vegna járnbrautasamgangna.  Hún óx sem miðstöð landbúnaðar umhverfis gömlu borgina, sem var innlimuð árið 1949.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var 385 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM