Columbus Ohio Bandaríkin,


COLUMBUS
OHIO

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Columbus er höfuðborg Ohio-fylkis.  Efnahagur hennar byggist að verulegu leyti á opinberri þjónustu, bæði alríkis- og borgarstjórnar, mennta-, rannsóknar- og þróunarstofnunum og iðnaði (bílahlutar, flugvélar, rafeinda- og samgöngutæki, matvæli, vefnaður, skór og útgáfustarfsemi).  Borgin er einnig miðstöð heilbrigðisþjónustu og krabbameinsrannsókna og aðalaðsetur margra tryggingarfélaga.  Meðal áhugaverðra staða eru þinghúsið (grískur endurreisnarstíll; 1861), Vexner-listasafnið (1990), Vísinda- og iðnaðarsafnið, Borgarlistasafnið og Fylkissögusafnið, sem leggur áherzlu á ameríska sögu fyrir daga Evrópumanna.  Rósagarðurinn er einn hinn stærsti sinnar tegundar í heiminum.  Meðal æðri menntastofnana má nefna Fylkisháskólann (1870), Franklínháskólann (1902), Borgarháskólann (1830), Dóminikanaháskólann (1911) og Lista- og hönnunarháskóla Columbus (1879).  Í borginni starfar einnig Efnafræðistofnun, sem býr yfir einhverjum mestu upplýsingum um efnafræði í heiminum.

Árið 1812 ákvað fylkisstjórnin eftir mikla leit, að höfuðborg fylkisins skyldi standa við Sciotoána andspænis Franklinton, sem var blómstrandi byggð frá 1797.  Jafnframt var ákveðið að hún skyldi fá nafn Kristófers Kólumbusar.  Stjórnarskrifstofur voru fluttar frá Chillicothe til Columbus árið 1816.  Borgin óx og dafnaði í góðum samhljómi við indíánaættkvíslirnar Wyandotte og Shawnee í nágrenninu.  Eftir að þverskurður var grafinn á Ohio-skipaskurðinn komst Columbus í gott flutningasamband 1831.  Þjóðvegakerfið tengdist borginni árið 1833 og járnbrautin árið 1850.  Síðla á 19. öldinni varð borgin kunn fyrir hestvagnasmíði og rúmlega 20.000 slíkir voru smíðaðir á ári í 23 verksmiðjum, þegar bezt gekk.  Borgin lifði efnahagslegt blómaskeið frá upphafi síðari heimstyrjaldarinnar.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var 633 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM