Oregon land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
OREGON

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 254.819 ferkílómetrar (9. í stærðarröð BNA).  Sambandsstjórnin á 52,3% landsins.  Það er nokkurn veginn ferhyrningslaga, 475 km frá norðri til suðurs og 605 km frá austri til vesturs.  Hæð yfir sjó er frá sjávarmáli til 3.426 m uppi á Hood-fjalli.  Meðalhæð yfir sjó er 1.006 m og strandlínan við Kyrrahafið er 476 km.

Landslag er allfjölbreytilegt og landfræðileg svæði eru sjö:  Strandfjöllin, Klamath-fjöll, Willamette-dalurinn, Cascade-fjöllin, Columbia-hásléttan, Bláfjöll og Lægðin mikla.  Strandfjöllin þekja mestan hluta strandlengjunnar (hæst 1.219m) og eru lægri en framhald þeirra til norðurs í Washington-fylki og til suðurs í Kaliforníu.  Smápartur Klamath-granítfjallanna er sunnan þeirra.  Bæði þessi svæði eru vaxin skógi og skógagróðri og hafa verið þröskuldur í vegi austur-vesturferða nema meðfram árgljúfrum Columbia-, Umpqua- og Rogue-ánna.  Willamette-dalurinn er lengra inni í landi og er suðurangi Puget Trough.  Þetta er frjósamt aurasvæði Willamette-árinnar og þveráa hennar.  Austar er Oregon-hluti Cascace-fjalla, hallandi hásléttu með háum og áberandi eldfjöllum, þ.m.t. Hood-fjall, Systurnar þrjár og McLoughlin-fjall.

Columbia-hásléttan nær yfir mestan austurhluta fylkisins.  Stór hluti hennar er þakin blágrýtishraunum og árnar hafa grafið sig niður í djúp gljúfur (John Day-áin).  Bláfjöll eru einstakur hluti þessa svæðis og tróna upp í 2.743 m yfir sjó, þannig að þar sátu ísaldarjöklar.  Sunnan Columbia-hásléttunnar er hluti Lægðarinnar miklu, sem lágir fjallgarðar skipta í marga hluta.

Columbia-áin, sem myndar mestan hluta landamæranna að Washington, er hin stærsta í fylkinu.  Aðalþverá hennar er Snáká, sem hefur norður og vestur stefnu.  Hún myndar hluta af norðausturlandamærunum og sameinast Columbia-ánni í Washington.  Aðrar helztu árnar eru Willamette, Deschutes, Rogue, Umpqua og Klamath.

Stöðuvötn eru mörg, einkum í Cascade-fjöllum, en ekkert þeirra er stórt.  Crater Lake (Gígvatn) er hið þekktasta.  Það er í gíg útbrunnins eldfjalls.  Suðastan þess er hið stóra Klamath-vatn og austar eru hin grunnu Harney- og Malheur-vötn.

Loftslagið er stöðugt og rakt úthafsloftslag.  Austan Cascade-fjalla er það þurrt og nær meginlandsloftslagi með meiri dægur- og árstíðasveiflum.  Á strandsvæðunum er meðalhiti kaldasta mánaðarins 8,3°C lægri en hins heitasta.  Á Columbia-hásléttunni er þessi mismunur 22,2°C.  Lægsta skráða hitastig er -47,8°C (1933) og hið hæsta 48,3°C (1938).  Þótt vesturhlutinn sé svalur og rakur, eru sumrin þurrviðrasöm.  Ársúrkoman í vesturhlíðum Cascade-fjalla er 12.900 mm.

Flóra og fána.  Eina fylkið í BNA, sem tekur Oregon fram í skógaþekju, er Alaska.  Helztu skóglendin eru í vestanverðu fylkinu og þau þekja alls 43% landsins.  Barrtré eru ríkjandi en maðal annarra tegunda eru greni, sedrusviður, óðjurt, doglasfura og silfurfura.

Skógar Vestur-Oregon iða af dýralífi (elgir, fjallaljón, refir, bifrar, moskrottur, otrar og minkur).  Sæljón eru algeng með ströndum fram og í ám og vötnum eru lax, regnbogasilungur og bassi.  Í austurhlutanum er stöðvar antilópna, dádýra, sléttuúlfa, kanína og skröltorma.

Auðlindir, framleiðsla, iðnaður.  Gull fannst í grennd við Jacksonville á 19. öld en Oregon býr ekki yfir ríkulegum birgðum jarðefna eins og nágrannafylkin Kalifornía, Nevada og Idaho.  Námugröfturinn skapar aðeins 1% vergra þjóðartekna.  Nýting jarðefna beinist helzt að sandi, möl og kalksteini.  Svolítið nýtist af nikkel, leir, sápusteini, kísilgúr og vikri.

Landbúnaðurinn á 3% af þjóðartekjum.  Aðaláherzlan ár lögð á nautgriparækt til kjötframleiðslu og einnig ræktun svína, sauðfjár og hænsna.  Uppskeran byggist aðallega á hveiti, kartöflum, byggi, höfrum, grænmeti, sykurrófum, perum, kirsuberjum, jarðarberjum, baunum, ferskjum, plómum og hnetum.

Oregon er leiðandi fylki í timburframleiðslu (20% af framleiðslu BNA).  Skógarhögg er stundað í öllum hlutum fylkisins en langmest í Cascade-fjöllum.

Fiskveiðar og vinnsla vega ekki þungt í efnahagslífinu er talsvert er dregið úr sjó, ám og vötnum.  Lax og rækjur eru meðal verðmætustu tegundanna.

Iðnframleiðslan stendur undir 20% vergrar þjóðarframleiðslu.  Helztu framleiðsluvörurnar eru timbur, timbur- og pappírsvörur, matvæli, vélbúnaður til iðnaðar, nákvæmnistæki, rafeindatæki og samgöngutæki.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM