Portland Oregon Bandaríkin,


PORTLAND
OREGON

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Portland er stærsta borg Oregonfylkis, mikilvæg hafnarborg og efnahagsmiðja stórs landsvæðis, sem byggir á margs konar iðnaði, flutningi, viðskiptum og opinberri þjónustu.  Mest er framleitt af vélbúnaði, rafeindatækjum, málmvörum, flutningatækjum, timbri og timburvöru.  Borgin er veltengd aðalþjóðvegakerfinu, járnbrautum og millilandaflugvelli.  Þessi landshluti er kunnur fyrir náttúrufegurð.  Þarna tróna margir snævi þaktir tindar Þrepafjalla (Cascade Range; Mt Hood) og blasa við frá borginni og tiltölulega stutt er að Columbia-gljúfrinu.  Ferðaþjónusta er því einnig mikilvæg tekjulind borgarbúa.

Meðal æðri menntastofnana borgarinnar má nefna Lewis og Clark-háskólann (1867), Portlandháskóla (1901), Reed-háskóla (1909), Fylkisháskólann (1946),  Norðurvestur-Kyrrahafslistaháskólann (1909), Læknavísindaháskólann (1974), Condordia-háskólann (1905), Warner Kyrrahafsháskólann (1937), Multnomah-biblíuskólann (1936) og Guðfræðiháskóla baptista (1927).  Áhugaverðir staðir eru allmargir, s.s. Listastofnun Oregon (indíánalist frá norðvesturhéruðunum), Vísinda- og iðnaðarsafn ríkisins og Leiklistarmiðstöðin (óperan, symfóníuhljómsveitin og ballettinn).  Leikvangur Portland Trail Blazers (körfubolti) er kallaður Memorial Coliseum.  Portland er þekkt undir nafninu Rósaborgin meðal fólks með græna putta, því þar eru tilraunarósagarðar bandaríska Rósafélagsins og þar hafa verið haldnar árlegar rósahátíðir síðan 1907.

Hvítir landnemar skipulögðu byggðina árið 1845 og nefndu hana eftir Portland í Maine-fylki, þar sem einn fyrsti landneminn bjó áður.  Byggðin óx og dafnaði sem birgðastöð og verzlunarstaður gull- og málmleitarmanna, sem voru m.a. á leið til Kaliforníu á sjötta tugi 19. aldar og síðar til Alaska og Klondike skömmu fyrir aldamótin.  Iðnvæðingin efldist, þegar fyrsta járnbrautin hafði verið lögð þvert yfir BNA með viðkomu í Portland á níunda áratugi 19. aldar.  Bygging vatsorkuvera við Columbia- og Willrnette-árnar á fjórða áratugi 20. aldar ýtti undir enn frekari iðnað.  Árið 1980 féll eldfjallaaska á borgina, þegar Helenufjall gaus í nágrannafylkinu Washington.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var rúmlega 437 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM