Myanmar sagan,
Flag of Burma


MYANMAR, BÚRMA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

„Saga Myanma hefst í Tagaung” segir gamall málsháttur.  Hann er byggður á stofnun kongungsríkis á fimmtu öld fyrir Krist í Tagaung, þorpi við efri hluta Irawadifljótsins, u.þ.b. 160 km norðan núverandi Mandalay.  Fimmtíu konungar af sömu ætt ríktu í Tagaung þar til tatarar réðust inn í landið úr norðri og lögðu það undir sig.  Afkomandi síðasta konungsins í Tagaung flúði suður til Sri Khettara, í grennd við núverandi prome (320 km nv Rangun), og stofnaði nýtt konungsríki meðal Pyu-ættbálksins, forfeðra núverandi Búrmana.  Um svipað leyti settist hópur Mon-Kmera frá Indlandi að í óshólmum Irawadi.  Þetta fólk, sem var annaðhvort kallað Mon eða Talaing (indverska: Telegana), kom með búddatrúna með sér.

Á fyrstu öld fyrir Krist urðu innbyrðis ágreiningur og aðsteðjandi ógnir til þess, að konungsríki Pyu komst undir stjórn Mon.  Frændi 27. Pyu-konungsins safnaði dreifðum hópi landa sinna saman og leiddi þá í tólf ára göngu til Pagan í Mið-Myanma, þar sem annað fólk af ættbálki Pyu hafði setzt að.  Þar varð til hin fræga Paganhöfðingjaætt.  Mestur konunga hennar, hinn 42. (Anawrahta), ríkti á mesta blómaskeiði ríkisins á 11. öld.

Innrás Mongóla á 13. öld olli endalokum Paganríkisins, þegar fimmtugasti konungur hennar sat að völdum.  Ríkið skiptist í lítil furstadæmi.  Avahöfðingjaættinni, með aðsetur í Ava (nærri núverandi Mandalay; 1364-1555), tókst að sameina ríkið á ný.  Næstu tvær aldirnar á eftir ríkti Toungoo-höfðingjaættin (1486-1752).  Mestur konunga hennar var Bayinnaung (1651-1681).  Honum tókst að gera Búrma að öflugasta og virtasta ríki SA-Asíu.  Árið 1767 kom til styrjaldar við nágrannaríkið Tæland og meðal stríðstjóna var eyðilegging borgarinnar Ayudhia (Ayutthaya) í Tælandi.

Á þessu tímabili hafði Mon-höfðingjaættinni tekizt að endurreisa ríki sitt í Pegu og Toungoo-ættin missti völd sín.  Undir stjórn Alaungpaya konungs í Shwebo (norðan Mandalay) tókst Búrma að ná fyrri yfirburðum árið 1752.  Monættin rak landvinningastefnu og lagði m.a. undir sig Arakan (1785) og Manipur og Assan (1819).  Misklíð milli uppreisnarmanna á þessum svæðum leiddi til árekstra við Breta í Indlandi.  Þrjár styrjaldi milli Búrmana og Breta, 1824-26, 1852 og 1885, leiddu til ósigurs Búrmana og innlimun landsins í Bretaveldi.  Árið 1886 fluttu Bretar síðasta konung Mon-ættarinnar, Thibaw (1878-1885), til Indlands, þar sem hann lézt árið 1916, og gerðu landið að indversku héraði.

Árið 1937 fékk Myanma eigin stjórnarskrá og var aðskilið frá Indlandi.  Fimm árum síðar fóru Bretar brott áður ein Japanar gerðu innrás.  Japanar hersátu landið í fjögur ár og á meðan tókst 30 ungum Búrmönum að afla sér menntunar í hernaði í Japan, sem var nýtt til uppbyggingar hers landsins að hersetunni lokinni.  Búrmanar voru hliðhollir Japönum í upphafi stríðsins en í lok þess gegnu þeir til liðs við bandamenn.  Bretar réðu landinu eftir að hafa hrakið Japana á brott 1945, en leiðtogi Búrmana, Bogyoke Aung San, hóf harða baráttu fyrir sjálfstæði landsins.  Hann var forseti leppstjórnar Breta.  Skömmu áður en Búrma lýsti yfir sjálfstæði myrtu fylgjendur þess forsætisráð-herra, sem var við völd fyrir stríð, Bogyoke og flesta ráðherra hans.  Hinn 4. janúar 1948 var lýst yfir sjálfstæði landsins eftir blóðug átök við kommúnista og minnihlutahópa (kara, shan, kachin, mon o.fl.).  Á sjötta áratugnum tókst að lægja þessar ófriðaröldur í landinu.  Hinn 2. maí 1962 stýrði Ne Win hershöfðingi (einn þrjátíumenninganna) valdatöku hersins til að hindra skiptingu landsins í kjölfar sjálfstæðiskrafna minnihlutahópanna.  U Nu forsætisráðherra og fleiri framámenn landsins voru hnepptir í stofufangelsi til árisins 1966.  U Nu reyndi árangurslaust að velta herstjórn-inni úr sessi 1971-72.

Ne Win stjórnaði undir kjörorðunum „Leiðin til sósíalisma”.  Hann vildi þjóðnýta alla mikilvægustu atvinnuvegi landsins, þ.á m. alla einkaverzlun.  Foringjar í hernum settust í allar lykilstöður ríkisrekstrar og viðskipta.  Eini löglegi stjórnmálaflokkurinn var hinn nýstofnaði „Búrmanski sósíalistaflokkur”.  Árið 1973 sögðu Ne Win og aðrir háttsettir foringjar í miðstjórn flokksins sig úr hernum til að koma borgaralegu yfirbragði á stjórn landsins.  Hinn 2. marz 1974, 12 árum eftir valdatöku hersins, leysti Ne Win herstjórnina upp og skipaði nýja á vegum flokksins.  Árinu áður hafði hann fengið nýja stjórnarskrá samþykkta í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Samkvæmt henni er æðsta valdastofnunin þjóðþingið (Pyithu Hluttaw), þar sem 475 þingmenn starfa (451 til 1981).  Þjóðernislegir minnihlutahópar eiga þar líka fulltrúa, en það hefur ekki nægt til að draga úr kröfum kara, kachin, shan og mon til sjálfstæðis.

Ríkisstjórnin leggur megináherzlu á baráttuna gegn kommúnisma í landinu.  Kommúnista er aðallega að finna í grennd við kínversku landamærin.  Hvað sem því líður rekur Búrma vinsamlega utanríkisstefnu gagnvart Kína, Víetnam og öðrum ríkjum.  Áherzla er lögð á sjálfstæði þjóðarinnar, hlutleysi og afskiptaleysi, þegar um innanríkismál annarra þjóða er að ræða.  Búrma var meðal þeirra þjóða, sem hvöttu til stofnunar samtaka þjóða utan Austur- og Vesturblokkanna.  Þegar kom að fundi æðstu manna hverrar þjóðar þessara samtaka í Havana á Kúbu í september 1979, sagði Búrma sig úr þeim á þeirri forsendum, að einstök ríki misnotuðu þau sér til framdráttar.

Landið er nokkurs konar dempari milli fjandþjóðanna Indlands og Kína og milli kommúnistaríkja Indókína (Laos, Víetnam) og ASEAN-landanna (Malasía, Singapúr o.fl.), þannig að það gegnir mikilvægu hlutverki með viðhaldi friðar innanlands.  Sósíalisminn í Búrma er blanda af marxisma, þjóðernissósíalisma og þrautseigju og þolinmæði búddismans.  Búrma er aðili að Sameinuðu þjóðunum, þar sem Búrmaninn Sithu U Thant var aðalritari 1961-1970.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM