Concepción Síle,
Flag of Chile


CONCEPCIÓN
SÍLE

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Concepción (de la Madre Santísima de la Luz) er höfuðborg samnefnds héraðs og Bío-Bío-svæðisins í miðhluta Suður-Síle við mynni Bío-Bío-árinnar.  Hún er næststærsta borg landsins, stofnuð á svæði, sem nú heitir Penco, árið 1550.  Araucan-indíánar brenndu byggðina tvisvar skömmu síðar.  Árin 1730 og 1751 reið fjöldi jarðskjálfta með miklum sjávarflóðum yfir borgina og árið 1754 var hún flutt á núverandi stað, 10 km frá ármynninu og 13 m yfir sjó.  Þrátt fyrir að vera á miklu jarðskjálftasvæði er borgin orðin mikilvæg viðskipta- og iðnaðarmiðstöð vegna hagstæðrar legu.

Norðan borgarinnar er stór og skjólsæll Concepción-flóinn.  Bío-Bío-áin er samgönguæð um strandfjöllin til velnýttra landbúnaðar- og skógasvæða í dölunum.  Vatnsmikil áin dugar einnig vel til framleiðslu rafmagns í framtíðinni og mestu kolanámur landsins eru í grennd við borgina, sem er tengd þeim og innanlandssvæðunum með járnbrautum.  Itatabrautin tengir iðnaðar- og baðstrandarbæina við Concepción-flóa og sérstök járnbraut tengir bæina Talcahuano, Huachipato og San Vincente við Concepción við suðvestanverðan flóann.

San Vincente er bæði fiski- og baðstrandarbær, sem sér höfuðborginni Santiago fyrir fiskafurðum.  Huachipato-stálverksmiðjurnar, hafa verið starfræktar síðan 1950, olíuhreinsunarstöð síðan 1966 og efnaiðnaður síðan snemma á áttunda áratugnum sem mikilvæg viðbót við iðnaðarstarfsemi í Concepción.  Þar er einnig framleitt mikið af vefnaðarvöru, matvælum, timbuvöru, glervöru og bjór.  Sunnan árinnar er pappírsverksmiðja og upp með henni er baðmullarverksmiðja.  Borgin er biskupssetur og þar er áfrýjunardómstóll og háskóli síðan 1919.  Áætlaður íbúafjöldi 1993 var tæplega 320 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM