Síle íbúarnir,
Flag of Chile


SÍLE
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Búseta.  Loftslagið og sögulegir atburðir hafa haft mikil áhrif á búsetu og dreifingu íbúanna um landið.  Fyrstu spænsku landnemarnir settust að í hinum tempraða hluta landsins, Zona Central, þar sem þróuðust landbúnaður, iðnaður og þéttbýlustu svæði og staðir landsins.  Landbúnaðurinn byggðist aðallega á stórbýlum, haciendas, sem náðu yfir u.þ.b. þriðjung hins ræktanlega lands.  Umbætur í landbúnaði, sem Eduardo Frei Montalva, forseti Kristilegra demókrata, kom á legg 1965 og næsti forseti Sósíalista, Salvador Allende Gossens hélt áfram fram yfir 1970, leiddu til skiptingar landsins.  Megináherzla þessara umbóta var lögð á aukna framleiðni til að auka útflutning.

Allar helztu borgir landsins eru í Zona Central.  Santiago var stofnuð þar og varð að stærstu borg landsins.  Hafnarborgin Valparíso er 116 km vestan Santiago.  Hún og nágrannabær hennar, Vina del Mar, mynda næststærsta þéttbýli landsins.  Í miðlægðinni, sunnan Santiago-lægðarinnar, eru minni borgir, sem hafa byggzt í tengslum við þróun landbúnaðarins.  Þeirra á meðal eru Rancagua, Curicó, Talca, Chillán og Los Angeles.  Þær eru allar tengdar með járnbrautum og Pan-American-hraðbrautinni.

Flestar borgir landsins voru stofnaðar á nýlendutímanum og þær byggðust allar út frá stóru miðtorgi (plaza de armas).  Upprunalegu byggingarnar voru úr sólþurrkuðum múrsteini og timbri.  Þær eyddust flestar í jarðskjálftum eða eldi.  Mikil uppbygging kom í kjölfarið og þær eru nú sýnishorn nútímaborga, fjölmennar og iðandi af lífi á öllum sviðum, þ.m.t. viðskipta og iðnaðar.  Á sunnanverðri ströndinni í Zona Central er Concepción og hafnarborg hennar Talcahuano, báðar mikilvægar miðstöðvar iðnaðar.

Hinn þurri miðnorðurhluti landsins, Norte Chico, þróaðist í nánum tengslum við Zona Central.  Þar ber mest á landbúnaði og námuvinnslu og aðalborgirnar eru La Serena við ströndina og hafnarborgin Coquimbo.  Flestir íbúanna þar búa í áveitudölum ánna Copiapó, Huasco, Eliqui og Limarí eða dreifast um strjálbýli fjallanna, þar sem námurnar eru.  Helztu borgirnar í árdölunum eru minni en í miðhlutanum.  Þeirra á meðal er Copiapó, mikilvægasta námuborg 19. aldar, Vallerar, Ovalle og Vicuna.  Grundvöllur þeirra er ýmis konar ræktun, geitarækt, járn- og koparnám.  Frá þessu svæði kemur pisco (hvítt brandí úr sólþurrkuðum vínberjum, eðalvín og ávextir til útflutnings.

Á nýlendutímanum börðust Spánverjar og araucanian-indíánarnir heiftarlega um suðurhluta Zona Central.  Þá gáfu Indíánarnir norðurhluta miðsuðurhlutans nafnið La Frontera (landamærin).  Eftir að friður komst eftir 1880 settust Sílebúar og Evrópumenn þar að.  Evrópumenn voru fyrr á ferðinni, því þeir fóru að setjast að eftir 1850.  Þar þróaðist kornræktarhérað og skógarhögg (fura) til framleiðslu trénis.  Aðalborgin er Temuco.  Umhverfis hana býr fjöldi araucanian-indíánar (mapuche) við fremur bág kjör.

Landnám í Vatnahéraðinu, sunnan La Frontera, hófst eftir 1850, þegar Þjóðverjar, Svisslendingar og Belgar settust þar að.  Þar byggðust smábýli ólíkt því, sem gerðist í Zona Central.  Land fór að færast á færri hendur á 20. öldinni en enn þá má sjá merki fyrri skiptingar.  Stærsta borgin á þessu svæði er Valdivia.  Þar var iðandi athafnalíf (skó-, vefnaðar- og bjórframleiðsla og skipasmíðar) þar til flest framleiðslufyrirtækin eyðilögðust í jarðskjálftunum 1960.  Osorno og Puerto Montt eru mikilvægar borgir á sínum svæðum (hveiti og mjólkurvörur).  Fegurð Vatnasvæðisins dregur til sín fjölda ferðamanna ár hvert.

Nyrzt og syðst í landinu eru mörk búsetu og afkomu.  Bæði þessi svæði eru strjálbýl, þótt þau séu rík af náttúruauðæfum.  Landnám þurrkasvæðisins Norte Grande hófst um miðja 19. öld vegna nýtingar jarðefna inni í landi.  Nokkrar borgir þróuðust við ströndina sem útflutningsmiðstöðvar fyrir saltpétur, borax og kopar.  Iquique, sem byggði afkomu sína á útflutningi saltpéturs, er orðin helzta fiskimjölsborg landsins.  Antofagasta, járnbrautamiðstöðin til Oruro í Bólivíu, er virk viðskiptaborg og stjórnsýslumiðstöð og um hana fer koparinn, sem unninn er úr Chuquicamata-koparnámunni.  Arica er aðalhafnarborg Bólivíu við annan endann á járnbrautinni til La Paz.  Þar eru fiskimjölsverksmiðjur og miðstöð landbúnaðarins í Azapa-dalnum.  Eftir að hætt var að setja saman bíla í borginni dró úr mikilvægi iðnaðarins þar.  Calama er eina mikilvæga borgin inni í landi í nágrenni við Chuquicamata námurnar.  Þær eru stærstu, opnu námur heims.  Þrátt fyrir námuvinnsluna býr þetta landsvæði yfir náttúrulegri fegurð.  Ferðamenn laðast að gömlum indíánabæjum, dreifðum vinjum og fögru útsýni yfir eyðimörkina.  Indíánar og mestizo frá Norður-Síle, Bólivíu og Suður-Perú safnast saman til hátíðahalda við La Tirana-helgidóminn á Tamarugal-sléttunni í júlí ár hvert.

Syðsti hluti landsins nær yfir þrjú náttúruleg svæði:  Chiloé-eyjar, Sundasvæðið og Sílehluta Patagóníu með Eldlandi.  Chiloé og nærliggjandi eyjar eru meðal vannýttustu hluta landsins.  Þar er stundaður frumstæður landbúnaður og söfnun þörunga (til sælgætisgerðar) og skelfisks.  Smábæirnir Castro og Ancud eru aðalþéttbýlin en flestir búa í dreifbýlinu.  Sundasvæðið nær yfir margar eyjar, sem reynt hefur verið að byggja síðan 1920.  Einu íbúarnir á þessu svæði búa í bæjum eins og Puerto Aisén og Coihaique.  Magellanes-héraðið við samnefnt sund er hið þróaðasta í Patagóníu og Eldlandi.  Undirstöður atvinnulífsins þar er sauðfjárrækt og ullarútflutningur síðan síðla á 19. öld og vinnsla olíu og náttúrugass síðan 1945.  Þetta athafnalíf, ásamt kjötvinnslu og pökkun og viðskiptalífinu í Punta Arenas, hefur gert þetta svæði að hinu nútímalegasta í Síle.

Fólkið.  Íbúarnir eru blanda Evrópumanna og indíána.  Fyrsta blöndunin varð milli innfæddra indíánaættkvísla á 16. og 17. öld (atacamenos, diaguitas, pichunches, araucanian, huilliches, pehuenaches og cuncos) og sigurvegaranna frá Spáni.  Baskafjölskyldur, sem settust að í Síle á 18. öld efldu efnahagslífið og tengdust pólitískum háaðli Kastalóníumanna, sem hefur verið allsráðandi í landinu alla tíð.  Fáir negrar voru fluttir til landsins sem þrælar á nýlendutímanum.

Eftir nýlendutímann og á lýðveldistímanum komu enskir, ítalskir og franskir kaupmenn sér fyrir í vaxandi borgum landsins og komust fyrir tilviljun í innstu raðir pólitíska aðalsins.  Þjóðverjar og Svisslendingar voru óspart hvattir til landnáms í Vatnahéraðinu á síðari hluta 19. aldar.  Samkvæmt manntali frá síðustu árum 19. aldar voru útlendingar, einkum Spánverjar, Argentínumenn, Frakkar, Þjóðverjar og Ítalar, rétt rúmlega 1% landsmanna.  Um aldamótin komu fámennir hópar landflótta austurevrópskra gyðinga, kristinna Sýrlendinga og Palestínumanna á flótta undan Ottómanaveldinu til Síle.  Nú á dögum eru þeir í fararbroddi í fjármálastarfsemi og iðnaði.

Íbúarnir mynda sterka menningarlega einingu, sem rekja má til áhrifa spænskunnar, katólskunnar og verulegrar landfræðilegrar einangrunar landsins frá öðrum löndum álfunnar.  Araucan-indíánar er eini stóri minnihlutahópurinn.

Þjóðfélagið eldist að árum og lífslíkur hækkuðu úr 57 árum árið 1960 í 70 ár á níunda áratugnum.  Þessar þjóðfélagsbreytingar verða vegna bættrar heilsugæzlu og nútíma lífshátta í þéttbýli, þar sem flestir búa.  Einnig dró verulega úr barnadauða og frjósemi síðla á 20. öld og dánartíðni er meðal hinna lægstu í álfunni.

Mikill flótti er úr sveitum landsins til stórborganna.  Flestir leggja leið sína til höfuðborgarinnar, Valparíso-Vina del Mar og Concepción-Talcahuano.  Flestir aðfluttra koma frá miðlægðinni og miðnorðurhlutanum.  Fáeinir flytja til strandborganna í norðurhlutanum frá Santiago og Valparíso og einnig frá litlum þorpum í norðurhlutanum.  Íbúum hefur verið að fækka í Chiloé og þeir flutt til Punta Arenas og kornræktarhéraðann í Vatnahéraðinu eða jafnvel til Argentínu, þar sem þeir starfa á stóru búgörðunum eða í námunum í Patagóníu.  Eftir 1973 yfirgáfu hundruð þúsunda íbúanna landið af pólitískum ástæðum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM